Þetta unga fólk fagnaði komu Wagner-liða og veifaði málaliðafána þegar þeir tóku rússnesku borgina Rostov á Don um síðustu helgi.
Þetta unga fólk fagnaði komu Wagner-liða og veifaði málaliðafána þegar þeir tóku rússnesku borgina Rostov á Don um síðustu helgi. — AFP/Roman Romokhov
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Stofnandi málaliðahópsins Wagner, Jevgení Prigósjín, er nú sagður kominn í öruggt skjól í Hvíta-Rússlandi eftir að hafa tekið óvænta u-beygju í miðri sókn Wagner-liða í átt að Moskvu. Reyna nú margir að greina stöðu þessa fyrrum hnefa Moskvuvaldsins og hugsanleg næstu skref.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Stofnandi málaliðahópsins Wagner, Jevgení Prigósjín, er nú sagður kominn í öruggt skjól í Hvíta-Rússlandi eftir að hafa tekið óvænta u-beygju í miðri sókn Wagner-liða í átt að Moskvu. Reyna nú margir að greina stöðu þessa fyrrum hnefa Moskvuvaldsins og hugsanleg næstu skref.

Einn þeirra er Peter B. Zwack, fyrrverandi stórfylkisforingi í Bandaríkjaher og atvinnuhermaður til rúmlega 30 ára. Hann segir Prigósjín hafa „niðurlægt“ Vladimír Pútín Rússlandsforseta og „smánað“ opinberlega. Slíkt verði vart fyrirgefið.

„Menn höfðu, að ég tel, raunverulegar áhyggjur af hættu á miklu blóðbaði [í Moskvu]. Þau áform urðu að engu og hvað gerist nú – það er stóra spurningin,“ sagði Zwack í viðtali við bresku útvarpsstöðina Times Radio.

„Litli bróðir“ tók stjórnina

Zwack sagði atburðarásina til þessa einna helst líkjast skáldsögu. Wagnerforinginn, sem eitt sinn hafði aðgang að innsta hring Rússlandsforseta, er nú skyndilega kominn í einhvers konar útlegð í boði Alexanders Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, sem Rússar líta á sem sinn „litla bróður“. Er Rússlandsforseti þannig kominn í nýja og breytta stöðu gagnvart starfsfélaga sínum í Hvíta-Rússlandi.

„Sagan er sú að þessi tuddi, Alexander Lúkasjenkó, á að hafa sett saman eitthvert samkomulag sem setur smá þak yfir höfuðið á Pútín. Og hvað [Moskvuvaldið] græðir á þessu samkomulagi, á eftir að koma í ljós. En við vitum hins vegar eitt varðandi Prigósjín, jú hann er grófur og harður, en hann er líka slyngur. Og ég er viss um að hann er búinn að hugsa leikinn eitthvað áfram,“ sagði Zwack.

Benti hann á að öryggismál hljóti að vera ofarlega á lista Prigósjíns á meðan á dvöl hans stendur í Hvíta-Rússlandi. Og hvernig hægt verður að tryggja áfram yfirráð yfir þeim miklu fjármunum sem Wagner-sveitirnar hafa tryggt honum til þessa.

En svo er það Pútín. „Hann er eins og mafíuforingi sem Prigósjín hefur niðurlægt og smánað. Ég tel að Prigósjín hafi fulla ástæðu til að hafa áhyggjur. Þetta mun ekki enda vel.“

Höf.: Kristján H. Johannessen