Sjávarútvegur Nemendur Sjávarútvegsskóla unga fólksins í sloppum að kynnast starfsemi Brims á Granda.
Sjávarútvegur Nemendur Sjávarútvegsskóla unga fólksins í sloppum að kynnast starfsemi Brims á Granda. — Ljósmynd/Brim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er búið að vera nóg að gera í kringum þetta,“ segir Guðrún Arndís Jónsdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri í samtali við Morgunblaðið en Sjávarútvegsskóli unga fólksins er nú haldinn 10

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Það er búið að vera nóg að gera í kringum þetta,“ segir Guðrún Arndís Jónsdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri í samtali við Morgunblaðið en Sjávarútvegsskóli unga fólksins er nú haldinn 10. árið í röð.

„Við erum að kenna núna þessa vikuna í Reykjavík en við erum líka að kenna á Akureyri, Ísafirði og Eskifirði,“ segir Guðrún og bætir við að skólinn hafi vaxið jafnt og þétt á þessum tíu árum. Þá muni skólinn í fyrsta skipti vera í boði í Vestmannaeyjum í næstu viku segir hún.

Nemendur í sjávarútvegsfræði meðal kennara

Sjávarútvegsskólinn er samstarfsverkefni Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, vinnuskóla sveitarfélaga og fyrirtækja í fiskeldi og sjávarútvegi, segir Guðrún.

Aðspurð segir Guðrún nemendurna fá stutta kynningu frá kennurum og fulltrúum fyrirtækja um ýmislegt. „Fyrirlestrar um sögu, fiskana og eitt og annað um sjávarútveg,“ segir hún en sem dæmi fái nemendur á Ísafirði kynningu frá hraðfrystihúsinu Gunnvöru og fari um borð í fiskiskip en á Akureyri heimsæki nemendur meðal annars frystihús Útgerðarfélags Akureyringa.

„Í lokin er svo útskrift og pitsuveisla,“ segir Guðrún en hvert námskeið er samtals fjórir dagar.

Í heildina eru kennararnir sex talsins en þeir eru að sögn Guðrúnar nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri eða sjávarútvegsfræðingar.

Vilja fá fleiri á höfuðborgarsvæðinu

„Við erum að kenna hér á Akureyri í sex vikur í sumar og alltaf fullt,“ segir Guðrún Arndís en hún kveðst vilja fá fleiri nemendur í skólann á höfuðborgarsvæðinu. „Fyrstu tvær vikurnar var alveg fullt en næstu tvær eru nokkur laus pláss,“ segir hún en nú standi yfir þriðja vikan af fjórum.

„Þetta er eiginlega vertíð,“ segir Guðrún en skólinn stendur yfir í samtals tvo mánuði um allt land.

„Það var í raun Síldarvinnslan í Neskaupstað sem byrjaði með þennan skóla fyrir tíu árum,“ segir Guðrún en fyrir nokkrum árum tók háskólinn við honum.

„Þegar Síldarvinnslan byrjaði með skólann þá var markmiðið að gera rannsókn eftir tíu ár um hversu margir myndu skila sér í greinina,“ segir Guðrún en líkt og áður kom fram verður skólinn 10 ára í sumar. „Nú þarf ég að fara að gera rannsókn,“ segir hún.

„Hugmyndin er náttúrulega líka að efla áhuga þeirra [nemenda] á sjávarútvegi og fá þau til að koma og vinna í greininni, það er nú kannski aðalmarkmiðið,“ segir Guðrún loks.

Brim útbjó kennslustofu

„Þetta hefur gengið stórkostlega,“ segir Pálmi Ingólfsson verkefnastjóri fræðslu og heilbrigðis hjá Brim í samtali við Morgunblaðið spurður hvernig Sjávarútvegsskóli unga fólksins hafi gengið á höfuborgarsvæðinu.

„Ofboðslega áhugasamir krakkar og góðir leiðbeinendur,“ segir hann en Brim hefur útbúið kennslustofu fyrir skólann í húsnæði fyrirtækisins. Þetta er fjórða árið sem skólinn er haldinn á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Brim, segir hann.

„Þetta eru í kringum 60 krakkar,“ segir Pálmi spurður um nemendafjölda yfir allt sumarið. Nemendurnir koma úr Vinnuskóla Reykjavíkur, Kópavogs og Seltjarnarness og geta verið í 9. og 10. bekk.

„Það eru fyrirlestrar og heimsóknir,“ segir Pálmi spurður um hvernig skólahaldi sé háttað. „Nemendurnir fóru í Tækniskólann og fengu að fara í herminn í Stýrimannaskólanum ef ég nefni eitthvað,“ en að auki fái nemendur að kynnast starfsemi Brims. Þá hafi nemendur einnig fengið fyrirlestra frá fyrirtækjum eins og Marel og Iceland Seafood.

Eins og opin bók

„Eitt af markmiðum skólans er að kynna sjávarútveginn fyrir þessum krökkum,“ segir Pálmi en hann segir flesta nemendur skólans ekki hafa tengingu við sjávarútveg. Þeir séu því eins og opin bók þegar kemur að þessari grein.

„Ég held að þarna séu okkar sóknarfæri, það er að kynna sjávarútveginn fyrir yngri kynslóðinni,“ segir Pálmi.

„Heilt yfir finnst mér mjög góður árangur af þessu,“ segir hann en að viðbrögð nemenda og foreldra hafi verið jákvæð. „Það er mikil ánægja fyrir okkur hjá Brimi að fá að taka þátt í þessu,“ segir Pálmi loks.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson