Ágústa Eygló Óskarsdóttir, saumakona og húsmóðir, f. 11. ágúst 1934 á Sólheimum í Grímsnesi, lést 21. júní 2023 á hjartadeild Landspítalans.

Foreldrar hennar voru Jófríður Magnúsdóttir, f. 10.7. 1902 í Hallkellsstaðahlíð í Kolbeinsstaðarhreppi, d. 18.2. 1993, og Óskar Guðmundsson, f. 7.5. 1901 á Syðri-Skógum Staðarhraunssókn, d. 13.7. 1991.

Systkini hennar eru Kristín Hulda, f. 7.3. 1933, Sigríður Magnea, f. 6.1. 1937, Friðbjörg, f. 7.9. 1941, og Guðmundur Rafnar, f. 16.6. 1946.

Eygló giftist 24. apríl 1960 Hauki Þormari Ingólfssyni vélvirkja, f. 5.4. 1938, í Hólakoti á Höfðaströnd, d. 20.8. 2015. Foreldrar hans voru Gunnlaug Finnbogadóttir, (laundóttir Jóns Gunnlaugssonar frá Mjóafelli) f. 3.5. 1905 á Mjóafelli í Stíflu, d. 15.1. 1985, og Ingólfur Þorleifsson, f. 5.10. 1893 á Hrauni í Unadal, d. 20.2. 1943.

Börn Eyglóar og Hauks eru 1) Jófríður, húsmóðir, f. 14.9. 1960. Maki Kristinn Halldórsson, vélfræðingur, f. 26.8. 1960. Þau eiga tvö börn og sjö barnabörn. 2) Gunnlaugur Magnús, húsasmíðameistari, f. 27.3. 1962. 3) Ingólfur Jón, bifvélavirki, f. 9.7. 1963. Maki Anna María Gísladóttir, leikskólakennari, f. 7.10. 1968. Anna María átti tvo drengi fyrir. 4) Óskar, húsa- og húsgagnameistari, f. 1.10. 1964. Maki Sigrún María Eyjólfsdóttir, verkakona, f. 7.7. 1967. Þau eiga tvo drengi en Sigrún átti tvær dætur fyrir. 5) Eygló Margrét, sjúkraliði og heilsunuddari, f. 16.4. 1976. Maki Guðlaugur Jónsson húsasmíðameistari, f. 21.12. 1975. Þau eiga eina dóttur en Eygló átti tvo drengi fyrir frá fyrri sambúð.

1936 flutti fjölskyldan á Reykjavíkurveg 23 í Skerjafirði. Þar sleit Eygló barnsskónum og kláraði skólagönguna í Melaskólanum. 1951-1959 hóf hún störf við saumaskap hjá Vinnufatagerðinni. 1955 flutti fjölskyldan á Álfhólsveg í Kópavogi á meðan var verið að byggja Melgerði 30 sem fjölskyldan flutti í 1957. 1959 fór hún til að vinna sem kaupakona á Hofi á Höfðaströnd. Eygló ætlaði að vera þar í þrjá mánuði en eftir að hún kynntist Hauki urðu árin 30. Eygló og Haukur hófu sambúð í Sólvangi á Hofsósi. Þau bjuggu í öðrum helmingi hússins á móti tengdamóður Eyglóar og Magnúsi Tómassyni. 1964 festu þau kaup á Túngötu 8, þá komin með þrjú börn og það fjórða á leiðinni. Eygló var heimavinnandi þar til saumastofan á Hofsósi var stofnuð 1973. Hún starfaði við að sauma fána frá ýmsum löndum en þó aðallega íslenska fánann. Eftir að hún hætti á saumastofunni fór hún að vinna við barnapössun, fyrst heima við og síðan í leikskólanum á Hofsósi. Eftir að hún kom suður 1987 hóf hún störf hjá fatagerðinni Fasa þar sem hún starfaði þar til heilsan brást henni. Eftir það varð hún heimavinnandi með saumavélina, prjónana og heklunálina alveg til dauðadags. Eygló tók þátt í ýmsum félagsstörfum. Hún var í kvenfélaginu Öldunum á Hofsósi, leikfélagi Hofsóss og í stjórn Skerfirðingafélagsins. 1990 var lokið við að byggja Sveighús 8 og bjó hún þar til æviloka.

Útför hennar er gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 6. júlí 2023, klukkan 13.

Nú er elsku mamma farin í ferðalagið í Sumarlandið. Við höfum fylgst að í 60 ár. Farið víða um landið, jafnt á láglendi sem og hálendi og upp á jökla. Ein minningin af mörgum er sterk. Þegar þú fórst í liðskiptiaðgerð og síðan á Reykjalund þá voruð þið spurð að hverju þið stefnduð þegar heilsu væri náð? Þá svaraðir þú: Ég ætla upp á jökul. Saumaskapurinn og hannyrðirnar voru þér í blóð borin. Þú saumaðir flest okkar föt á okkur krakkana. Þegar Eygló Margrét fékk athugasemd frá stelpunum að hún væri ekki í fötum úr Sautján sagðir þú henni að segja að hún væri í klæðskerasaumuðum fötum. Þegar þú varst heimavinnandi drýgðir þú tekjur heimilisins með því að selja prjónavörur og föt. Þú varst með prjónana í höndunum allt til þess síðasta og prjónaðir jólagjafir fyrir alla afkomendur þína. Vil ég því þakka þér fyrir allt ferðalagið. Blessuð sé minning þín, elsku mamma sem gast allt.

Þinn sonur,

Ingólfur (Ingi).

Okkar kynni hófust 2008 þegar ég kom inn í fjölskylduna. Takk fyrir allt, brosið þitt, góða skapið og kennsluna í heklinu og takk fyrir að taka strákunum mínum svona vel og spyrja þá hvort þú mættir vera amma þeirra eins og með hina strákana þína, sem þeir meta mikils. Þú varst alltaf brosandi og glöð og með handavinnuna þína. Það var mikil ánægja þegar þú komst inn á hópinn Handóðir prjónarar á Facebook og reglulega tókum við myndir af prjónaskapnum þínum til þess að setja þar inn og ekki fannst þér leiðinlegt að fá like eða comment. Takk fyrir allar stundirnar fyrir norðan þar sem þú elskaðir að vera. Nú ertu komin til Hauks aftur í sumarlandinu og þið farin að dansa saman aftur eftir átta ára aðskilnað.

Elsku fjölskylda. Það er núna stórt skarð í fjölskyldunni sem erfitt er að fylla í.

Þín tengdadóttir

Anna María.