Nýsköpun Haukur Guðjónsson framkvæmdastjóri Sundra, segir að ýmislegt sé á döfinni hjá fyrirtækinu.
Nýsköpun Haukur Guðjónsson framkvæmdastjóri Sundra, segir að ýmislegt sé á döfinni hjá fyrirtækinu.
Nýsköpunarfyrirtækið Sundra hefur fundið nýstárlega aðferð til að breyta viðburðum í fullunnið markaðsefni. Fyrirtækið nýtir gervigreind til að greina upptökur frá viðburðum og ráðstefnum, svo klippir hugbúnaðurinn efnið sjálfkrafa niður í löng og…

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Nýsköpunarfyrirtækið Sundra hefur fundið nýstárlega aðferð til að breyta viðburðum í fullunnið markaðsefni. Fyrirtækið nýtir gervigreind til að greina upptökur frá viðburðum og ráðstefnum, svo klippir hugbúnaðurinn efnið sjálfkrafa niður í löng og stutt myndbönd, bætir við grafík og aðlagar svo myndböndin fyrir alla samfélagsmiðla.

Haukur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sundra og einn af stofnendum fyrirtækisins, segir að það sé mikilvægt fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem stefna á alþjóðamarkað að finna sér litla og vel skilgreinda markaðssyllu til að starfa á frekar en að reyna selja til allra.

„Í upphafi vorum við að reyna að selja lausnina okkar til of stórs markhóps en um leið og við ákváðum að einbeita okkur einungis að ráðstefnum og viðburðum þá breytist allt. Viðburðahaldarar hafa fram að þessu þurft að bíða í allt að 4-5 vikur eftir að fá myndbandsefni í hendurnar en með Sundra er biðin einungis 1-2 klukkustundir,“ segir Haukur og bætir við að fyrirtækið sé nú þegar í viðræðum við ráðstefnur út um allan heim.

„Sem dæmi þá keyrðum við upptökur frá Startup Iceland ráðstefnunni sem haldin var á dögunum í Hörpunni í gegnum kerfið. Hálftíma eftir viðburðinn voru allar upptökurnar tilbúnar. Sundra hugbúnaðurinn hafði klippt niður upptökurnar í hvern fyrirlesara, búið til yfir 150 stuttar klippur, bætt við grafík, aðlagað hverja klippu að þremur samfélagsmiðlum og þannig endað með yfir 500 myndbönd tilbúin til notkunnar.“

Aðspurður hvað skipti máli við að gera markaðsefni sem skilar árangri segir Haukur að það skipti miklu máli að búa til efni sem býr til virði fyrir fylgjendur sína.

„Þú vilt deila góðum ráðum með fylgjendum þínum, hjálpa þeim að læra eitthvað eða einfaldlega fylla þá af innblæstri. Þess vegna erum við svo spennt fyrir ráðstefnum því þar eru komnir allir helstu sérfræðingarnir á tilteknu sviði til að deila sínum allra bestu fróðleiksmolum, slíkt efni er því tilvalið til að umbreyta í markaðsefni.“

Margt á döfinni

Haukur segir að verið sé að leggja lokahönd á vöruna þeirra, Sundra, en nú þegar séu allmörg fyrirtæki að nota hana. „Við höfum fram að þessu verið að vinna náið með vel völdum hóp viðskiptavina til að fullvinna kerfið og lagfæra smáatriðin. Nú er sú vinna að klárast og við stefnum á að opna fyrir almennar skráningar í kerfið á næstu 4 vikum.“

Haukur bætir við að ýmislegt sé á döfinni hjá fyrirtækinu sem tilkynnt verði á næstu mánuðum.

„Við erum þessa dagana að ljúka fjármögnunarlotu þar sem við erum að fá inn alþjóðlega fjárfesta, teymið okkar hefur tvöfaldast á síðustu vikum og við stefnum á frekari vöxt á alþjóðlegum mörkuðum.“

Sundra

Fyrirtækið nýtir gervigreind í að vinna markaðsefni

Hafa þegar tekið upp ráðstefnur með góðum árangri

Framkvæmdastjórinn segir mikilvægt að skapa virði

Fyrirtækið vinnur að því að fá inn fjárfesta

Vara fyrirtækisins er tilbúin

Margt á döfinni hjá fyrirtækinu

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir