Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikur titilhlutverkið í Mútta Courage og börnin hennar eftir Bertold Brecht sem frumsýnt verður á Stóra sviði Þjóðleikhússins í október í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur, en Bjarni Jónsson þýðir. Ný tónlist eftir Helga Hrafn Jónsson og Valgeir Sigurðsson mun hljóma í sýningunni. Leikritið „er í senn sótsvartur gamanleikur og magnþrungið ádeiluverk um eyðingarmátt stríðsins,“ segir í tilkynningu. Í verkinu ferðast Mútta Courage um stríðshrjáða Evrópu með söluvagn sinn. Hún hefur lifibrauð sitt af því að selja hernum varning og einsetur sér að komast af ásamt stálpuðum börnum sínum þremur. Með önnur hlutverk fara Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Guðrún S. Gísladóttir, Hildur Vala Baldursdóttir, Hilmar Guðjónsson, Oddur Júlíusson, Sigurður Sigurjónsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.