Baldur Jóhannsson fæddist í Reykjavík 19. október 1929. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 28. júní 2023.

Foreldrar hans voru Jóhann Jónsson vélstjóri og Lára Sigfúsdóttir, þau áttu átta börn. Þau eru Jóhann Agnar, Vorm, Gunnhildur Erla og Sigfús sem öll eru látin. Eftirlifandi eru Anna, Helga og Guðrún, hálfbróðir Kristján Gunnar.

Baldur kvæntist Svanborgu Ólafsdóttur þann 29. apríl 1953, hún var fædd 8. apríl 1932, dáin 26. maí 2021. Foreldrar Svanborgar voru Ólafur Jósúa Guðmundsson og Sesselja Ólafsdóttir. Baldur og Svanborg áttu sjö börn. 1) Reynir, maki Karitas Jóhannsdóttir, börn þeirra eru Eva Lísa, Kamilla, Sturla Snær og Karl Viðar, barnabörnin eru sex. 2) Jóhann, maki Kristín Reynisdóttir, barn þeirra er Reynir Freyr, börn Jóhanns eru Baldur, Einar Þór og Sólveig, barnabörnin eru níu og barnabarnabörn eru tvö. 3) Anna, maki Sigurjón Andersen, börn þeirra eru Svanborg og Viktor Freyr, barnabörnin eru fjögur. 4) Birgitta, maki Hjálmtýr Sigurðsson, hennar börn eru Lovísa, Birna og Kristófer, hún á eitt barnabarn. 5) Brynja, maki Gunnar Óli Pétursson, barn þeirra er Lilja, börn Brynju eru María Lind og Guðmundur. 6) Erla, maki Eysteinn Eysteinsson, barn Erlu er Áslaug Brynja og barnabörnin eru tvö. 7) Ólafur Jósúa, maki Ramona Balaciu, börn hans eru fjögur og barnabörnin eru tvö.

Baldur flutti ungur til Patreksfjarðar með foreldrum og systkinum, hann fór snemma á sjóinn og var kyndari á Verði með pabba sínum. 19 ára gamall missti hann pabba sinn í sjóslysi, í þennan túr átti hann að fara en var veikur og pabbi hans vildi að hann yrði eftir í landi. Skipið kom ekki aftur í höfn. Hann var til sjós á togurum og bátum frá Patreksfirði. Árið 1966 fluttu Baldur og Bogga til Hafnarfjarðar með börn sín, hann vann alla tíð eftir það hjá Olís, fyrst á vélaverkstæðinu og svo sem vélstjóri á Héðni Valdimarssyni allt þar til hann fór á eftirlaun. Um tíma var hann vélstjóri á hvalaskoðunarskipinu Eldingu eftir að hann komst á eftirlaunaaldur.

Útför Baldurs verður frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 6. júlí 2023, kl. 13.

Í dag kveðjum við þig, elsku pabbi, okkar með miklum söknuði. Við eigum endalaust góðar minningar frá æsku okkar þar sem þú kenndir okkur svo ótal margt. Alltaf varstu með okkur í því sem okkur datt í hug að gera, hvort sem það voru vélaviðgerðir á eldhúsborðinu eða fótbolti í eldhúsinu. Það þarf mikla þolinmæði þegar sjö börn vilja vasast í öllu og vera með í því sem þú varst að gera. Í okkar huga situr eftir þakklæti fyrir öll góðu gildin, þolinmæðina, hjálpsemina og vináttuna. Alltaf fylgdist þú með öllu fólkinu þínu sem þú varst svo stoltur af, það skipti þig mestu máli að allir hefðu það gott. Núna verða sunnudagarnir öðruvísi þar sem við getum ekki spjallað eða hlegið með þér, þú varst mikill húmoristi, orðin komu óritskoðuð og lágum við oft í hláturskasti.

Núna ertu farinn í þína hinstu för og við kveðjum þig, elsku pabbi, með það í huga að núna ertu komin til mömmu okkar og dansar við hana eins og ykkur var einum lagið.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við elskum þig, hvíl í friði.

Börnin þín,

Reynir, Jóhann, Anna Börk, Birgitta, Brynja, Erla og Ólafur Jósúa.

„Enginn stöðvar tímans þunga nið“ segir í upphafi ljóðsins „Sjá, dagar koma.“ Þessar ljóðlínur eru meðal ótal dæma um leit okkar að hinstu rökum tilveru okkar. Þau rök eru ofar mannlegum skilningi, því að oftast kalla spurningarnar um þessi efni á fleiri spurningar en svör, þótt það sýnist svo einfalt á yfirborðinu, að jarðlífið eigi sér upphaf og endi og að við lifum ekki lífið af. Þegar sungið er „enginn stöðvar tímans þunga nið“ blasir við, að tíminn er eilífð, hvorki með byrjun né endi; hann stansar aldrei, heldur er alltaf að, og inni í honum er hver mannsævi eins og dropi í útsæ. Þegar Baldur Jóhannsson hefur nú lokið jarðvist sinni koma í hugann þessar hendingar úr sálmi Einars Benediktssonar:

Til moldar oss vígði hið mikla vald,

hvert mannslíf, sem jörðin elur.

Sem hafsjór þau rísa, fald við fald

og falla, en Guð þau telur.

En heiðloftið sjálft er huliðstjald,

sem himnanna dýrð oss felur.

Skáldið gleymir ekki að horfa til himins og þeirrar mótsagnar, sem felst í því að heiðloftið skuli vera huliðstjald, sem feli himnanna dýrð fyrir dauðlegum mönnum. Baldur stundaði sjósókn frá unga aldri og samlíking Einars Ben á því vel við þegar hann í sálmi sínum líkir mannslífunum við hafsjó af öldum sem rísa og falla á leið sinni um tímans haf. „Við bjarg er bani þinn“ segir um hafölduna í lok ljóðsins „Bára blá“, og eftir langa og farsæla ævisiglingu hlaut að koma að ferðalokum hjá hinum ljúfa, hjartahlýja og yfirlætislausa mági mínum, sem hafði marga fjöruna sopið í lífsins ólgusjó og lætur eftir sig syrgjandi fjöld afkomenda og vina, sem þakka honum samfylgdina. Blessuð sé minning hans.

Ómar Ragnarsson.