Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson
Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) segist ekki geta svarað spurningum Morgunblaðsins um það hvort eftirlitið hafi til skoðunar ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, þar sem hann hvatti Lífeyris­sjóð verslunar­manna (Live) til þess að hætta viðskiptum við Íslandsbanka

Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) segist ekki geta svarað spurningum Morgunblaðsins um það hvort eftirlitið hafi til skoðunar ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, þar sem hann hvatti Lífeyris­sjóð verslunar­manna (Live) til þess að hætta viðskiptum við Íslandsbanka.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem spurningar vakna um afskipti Ragnars Þórs af starfsemi Live. Það kom meðal annars upp þegar stjórn VR beitti sér fyrir því að skipta um stjórnarmenn í sjóðnum árið 2019 og þegar Live neitaði, eftir hvatningu frá Ragnari Þór, að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair haustið 2020. Í fyrra skiptið áréttaði FME, á heimasíðu sinni, hlutverk stjórnarmanna í lífeyrissjóðum en aðhafðist ekki frekar.

Morgunblaðið spurði FME hvort eftirlitið hefði tekið ummæli Ragnars Þórs nú til skoðunar, hvort það teldi að í þeim fælust óeðlileg afskipti af starfsemi Live og hvort eftirlitið teldi ummælin viðeigandi af aðila sem kæmi að skipun stjórnar en hefði ekki aðra aðkomu að rekstri sjóðsins. Í svari FME kemur fram að FME bregðist hvorki við spurningum um hvort verið sé að athuga eitthvað eða ekki né lætur opinberlega í ljós skoðun á einstökum ummælum sem tengjast eftirlitsskyldum aðilum.