Nóróveirusýking sem lét á sér kræla í síðustu viku er í rénun á Norðurlandi. Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á HSN og umdæmislæknir sóttvarna á Norðurlandi, segir engar fregnir hafa borist af frekari smitum undanfarna daga.
Þrír voru vistaðir á heilbrigðisstofnun á Sauðárkróki í síðustu viku. Einn þeirra var sendur til Akureyrar vegna alvarleika veikindanna. Fyrir var einn sjúklingur vistaður á Akureyri. Kona á níræðisaldri lést í kjölfar sýkingar.
Hildigunnur Svansdóttir, hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, segir ekki hafa komið til frekari innlagna. En eins og fram hefur komið kom upp hópsýking sem tengist hóteli á Austurlandi. Verst kom sýkingin niður á hópi kvenna úr Skagafirði og hópi ferðamanna sem snæddi á hótelinu. vidar@mbl.is