[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árleg góðgerðarsala á kótelettum fer fram á svokölluðu BBQ Festival Kótelettunnar á laugardaginn milli kl. 13-16 til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Eru gestir hátíðarinnar hvattir til að gæða sér á ljúffengum grillbitunum og styrkja um leið gott málefni

Árleg góðgerðarsala á kótelettum fer fram á svokölluðu BBQ Festival Kótelettunnar á laugardaginn milli kl. 13-16 til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Eru gestir hátíðarinnar hvattir til að gæða sér á ljúffengum grillbitunum og styrkja um leið gott málefni.

Kóteletturnar alltaf vinsælar

„Þetta hefur alltaf verið ferlega skemmtilegt og einhvern veginn er alveg sama hvernig veðrið er, það gengur alltaf vel,“ segir Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, í samtali við Morgunblaðið og bætir við að vaninn sé að kóteletturnar seljist upp.

Fá hjálp frá frægu fólki

Í gegnum árin hafa ýmsir þekktir einstaklingar komið að kótelettusölunni og nefnir Gréta þá meðal annars sjónvarpskokka og stjórnmálafólk. Í ár segir hún að þekktir tónlistarmenn muni sinna störfum aðstoðargrillara, en þeirra á meðal eru Diljá Péturs, Aron Can og Magnús Kjartan.

Ýmsir styrktaraðilar standa að baki sölunni og kveðst Gréta þeim einstaklega þakklát. „Þetta skiptir allt máli fyrir félagið og við erum ótrúlega þakklát fólkinu sem er til í að hjálpa okkur,“ segir hún en í ár njóta skipuleggjendur sölunnar liðsinnis Kjarnafæðis, SS, Ali matvara, Stjörnugríss, Kjötbankans og Matborðsins.

Hyggjast safna miklum peningum

Kótelettusalan fer nú fram í áttunda skipti en undanfarin sjö ár hefur hún skilað SKB styrk upp á fjórar milljónir króna. Á síðasta ári ákvað Einar Björnsson, skipuleggjandi Kótelettunnar, að hátíðin myndi frá og með 2022 tvöfalda afrakstur kótelettusölunnar. Þá var afraksturinn rúm hálf milljón króna og bættist svo við sama upphæð frá Kótelettunni. Er það markmið þessa árs að jafna innkomu síðasta árs og gera helst mun betur.