Tímaflakk „Indiana Jones og örlagaskífan er furðuleg blanda af háþróaðri og tölvubættri nostalgíu.“
Tímaflakk „Indiana Jones og örlagaskífan er furðuleg blanda af háþróaðri og tölvubættri nostalgíu.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin, Smárabíó og Laugarásbíó Indiana Jones and the Dial of Destiny / Indiana Jones og örlagaskífan ★★★·· Leikstjórn: James Mangold. Handrit: Jez Butterworth, John-Henry Butterworth og David Koepp. Aðalleikarar: Harrison Ford, Phoebe Waller-Bridge, Toby Jones, Ethann Isidore og Mads Mikkelsen. Bandaríkin, 2023. 154 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Fyrsta myndin með Indiana Jones, Indiana Jones og ránið á týndu örkinni, var sýnd árið 1981 og sú fimmta og síðasta, Indiana Jones og örlagaskífan er sýnd í bíóhúsum í dag, 42 árum síðar. Kvikmyndin fær ekki heitið „Indiana Jones og leitin að göngugrindinni“ þrátt fyrir háan aldur aðalleikarans en Harrison Ford verður 81 árs eftir rúma viku. Í opnunaratriðinu, sem gerist í seinni heimsstyrjöldinni, lítur Harrison hins vegar ekki út fyrir að vera deginum eldri en 40 ára. Ungi Jones hleypur undan nasistum í gegnum hraðskreiða lest með fornan grip í fanginu og vin sinn Basil Shaw (Toby Jones) í eftirdragi. Kvikmyndin fjallar um reiknivél sem gerir manni kleift að ferðast aftur í tímann en kvikmyndin reynist vera eins konar tímavél sjálf. Myndin fylgir hins vegar sem betur fer ekki unga Jones heldur hinum aldraða Dr. Henry Jones sem er að hætta að kenna fornleifafræði fyrir syfjaða nemendur. Rýnir hefði ekki getað þolað að horfa lengur á barnslegt andlit Harrison Ford. Tæknibrellurnar voru ágætar, en rýnir gat samt sem áður ekki litið fram hjá líkindunum við teiknimyndina Ævintýri Tinna (2011). Jafnvel þó að Ford væri sérfræðingur í húðheilsu þá væri erfitt að trúa því að fertugt andlit hans væri svona mjúkt og slétt.

Indiana Jones og örlagaskífan gerist að mestu árið 1969, maðurinn hefur tekið sín fyrstu skref á tunglinu og Indy fengið skilnaðarpappírana senda þegar guðdóttir hans Helena Shaw (Phoebe Waller-Bridge), dóttir gamla samstarfsmanns hans Basil Shaw sem áhorfendur sjá í opnunaratriðinu, gengur aftur inn í líf Indy. Helena dregur hann með sér í erfiða leit að Antikyþeru, sem er að sögn hluti af búnaði sem gríski heimspekingurinn Arkímedes smíðaði til að spá fyrir um sprungur í tímanum og leyfa þannig tímaflakk. Jurgen Voller (Mads Mikkelsen), fyrrverandi nasisti, en nú verðlaunaður vísindamaður Bandaríkjanna, er einnig á höttunum eftir fornmuninum. Indy er enn þeirrar skoðunar að minjar sögunnar eigi að vera á safni þar sem allir geta notið þeirra en ekki í höndum valdaleitandi manna eins og Voller. Helena er einnig í þessum leiðangri af rangri ástæðu en hún ætlar að selja Antikyþeru til að greiða upp skuldir. Enn og aftur leikur Phoebe Waller-Bridge hina ófullkomnu konu líkt og í þáttaröðinni Fleabag (2016–2019) sem hún skrifaði, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í. Fleabag og Helena eru ekki aðgerðalausar konur sem bíða eftir prinsinum heldur ófullkomnar, jafnvel eigingjarnar, ungar konur sem fylgja eigin löngunum. Konur í spennumyndum virðast verða að vera merkingarbærar og þeim aðeins gefnir tveir valkostir, að vera viðfang aðalkarlsins eða að vera femínísk fyrirmynd. Leikstjórinn gerir Helenu hvorki að hetju né illmenni heldur að ófullkominni konu og ófullkomnum, nánast gölluðum, femínista sem margir geta samsamað sig við.

Eitt atriði í kvikmyndinni stendur upp úr af því það vekur áhorfendur til umhugsunar. Um er að ræða atriðið þegar Helena býður sjómönnum að draga spil úr spilabunka og hún giskar svo á hvað þeir drógu. Þeir verður steinhissa þegar hún giskar rétt en Helena útskýrir fyrir Indy að þetta sé enginn spilagaldur heldur platar hún þá til að velja ákveðið spil: „Ég leyfi þeim að halda að þeir hafi valið, en í raun fæ ég þá til að velja spilið sem ég vil að þeir velji.“ Þessa setningu má túlka sem ákveðna gagnrýni á kapítalisma sérstaklega í ljósi þess að fyrr í myndinni gagnrýnir Helena kapítalisma með því að segja að hann snúist um að stela af næsta manni. Orð Helenu minna einnig á skrif Max Horkheimer og Theodors W. Adorno sem héldu því fram að menningariðnaðurinn, þ. á m. kvikmyndir, blekkti fólk til að finnast það hafa val. Þeir færðu líka rök fyrir því að kapítalismi hefði gleypt menninguna og að öll orkan beindist nú að efnahagslegum framgangi. Nú til dags eru flestar Hollywood-myndir endurgerðir, hluti af einhverjum heimi eins og Marvel eða kvikmyndaseríu þar sem það er nánast hægt að tryggja að peningurinn skili sér til baka af því aðdáendahópurinn er svo stór. Svo virðist sem áhyggjur Horkheimer og Adorno séu að rætast. Áhorfendur falla í sömu gildru og Helena lagði fyrir sjómennina, þ.e.a.s. áhorfendur halda að þeir hafi val um hvað þeir horfa á, en í raun geta þeir bara valið á hvaða ofurhetjumynd þeir horfa. Vandasamt er að sjá hvort teymið á bak við Indiana Jones og örlagaskífuna er í raun svona ofboðslega sjálfsmeðvitað og gagnrýnið á eigin þátttöku í kvikmyndageiranum.

Indiana Jones og örlagaskífan er furðuleg blanda af háþróaðri og tölvubættri nostalgíu, eins og opnunaratriðið með unga Ford, og röð gamalla en í senn nýrra hasarleikja með lestum, litlum bílum og mótorhjólum sem líkist frekar nýjustu Sérsveitinni (Mission Impossible) heldur en gömlu Indiana Jones-myndunum. Það eru þó nokkrar skemmtilegar en í senn langar eltingarsenur en leikstjórinn James Mangold hefur aðra sjónræna sýn á en Steven Spielberg, sem leikstýrði fyrstu fjórum myndunum. Rammarnir hjá kvikmyndatökumanninum Phedon Papamichael eru þröngir og tökuvélin er yfirleitt mjög nálægt viðfanginu. Klippingin hjá Andrew Buckland, Michael McCusker og Dirk Westervelt er síðan mjög hröð. Steven Spielberg sýndi meira af umhverfinu og lagði þar af leiðandi mikla áherslu á myndheildina. Tökurnar fengu að njóta sín, en með því að klippa svona oft á milli þröngra skota tapa áhorfendur fljótt þræði. Þessi langa hasarmyndflétta tíðkast í spennumyndum og er sniðug leið til að halda áhorfendum uppteknum en áhorfendur eru oft löngu búnir að missa þráðinn. Þrátt fyrir stafrænt landslag, falsað útlit, annasömu en spennulausu hasaratriðin og fjarveru Spielbergs í leikstjórastólnum, býður James Mangold upp á kunnuglega skemmtun. Það eru pöddur sem þarf að slá af sér, nasista sem þarf að kýla, sprengiefni sem þarf að sprengja og fornir gripir sem þarf að uppgötva. Því verður líka seint gleymt að hugrakka hetjan Indiana Jones er skíthrædd við snáka, en staðinn fyrir gröf fyllta af beinagrindum og snákum fá áhorfendur neðansjávarskipsflak fullt af beinagrindum og álum. Indiana Jones og örlagaskífan er án efa sísta Indiana Jones-kvikmyndin, en myndin er nógu skemmtileg til að fara á hana í bíó, jafnvel þó það sé bara til þess að sjá Ford með svipuna og hattinn í síðasta sinn.