Icelandair býður upp á flug til fjögurra áfangastaða innanlands á hverjum degi, nokkrum sinnum á dag:
Akureyri – höfuðborg Norðurlands
Flugtíminn á milli Reykjavíkur og Akureyrar er aðeins 45 mínútur. Akureyri er næststærsta byggðarlag á Íslandi á eftir höfuðborgarsvæðinu, og er heildarfólksfjöldi yfir 19.000 manns. Bærinn er fallega staðsettur við einn lengsta fjörð landsins, Eyjafjörð. Veðurfar er nokkuð milt, þó vetur geti verið snjóþungir, og sumarhitinn nær oft upp í um 25°C. Akureyri býður upp á fullkomna blöndu af menningu, náttúru og ævintýrum. Þú getur varið tíma þínum röltandi á milli skemmtilegra verslana og kaffihúsa og síðan skellt þér í veiðiferð, fjallgöngu eða jafnvel á skíði – allt sama daginn. Þegar fer að kvölda er svo tilvalið að skella sér í sund eða golf í miðnætursólinni. Veitingastaðir í bænum eru margir og fjölbreyttir og sérhæfa sig í sjávarréttum, íslensku lambakjöti og fleiru.
Akureyri er tilvalinn áningarstaður og miðstöð fyrir þá sem hafa hug á að ferðast um og skoða einhver af frægustu náttúruundrum Íslands. Mývatn er ekki langt undan, en náttúrufegurð Mývatnssveitar og Þingeyjarsýslu allrar er löngu rómuð. Í nágrenninu eru líka Jökulsárgljúfur og Húsavík – þaðan sem hægt er að skella sér í hvalaskoðun á Skjálfanda. Frá Akureyri má einnig ná flugi til Grímseyjar og færa sig yfir norðurheimskautsbauginn.
Egilsstaðir – höfuðstaður Austurlands
Það tekur aðeins 60 mínútur að fljúga á milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Í góðu skyggni fá farþegar tilkomumikinn útsýnistúr í kaupbæti. Egilsstaði má kalla höfuðstað Austurlands og héðan er stutt að sækja náttúruperlur Austfjarða. Þar að auki tekur ekki nema tvo tíma að keyra til Mývatns, á Seyðisfjörð eða Djúpavog. Um Fljótsdalshérað liggja ótal fallegar gönguleiðir fyrir þá sem vilja kanna fjöll, gljúfur og fossa svæðisins.Vök Baths við Urriðavatn eru náttúrulaugar skammt fyrir utan bæinn. Þangað er kjörið að fara til að tengjast náttúrunni og næra líkama og sál á ferðalaginu. Á Austurlandi gefur að líta fjölbreytileika íslenskrar náttúru og hafa ferðalangar úr nógu að velja. Þar má nefna Hengifoss, gönguleiðirnar um Hallormsstaðaskóg, varpbyggðir lundans á Borgarfirði eystri yfir sumartímann og tilkomumiklar stuðlabergsmyndanir í Stuðlagili.
Ísafjörður – höfuðstaður Vestfjarða
Flugtíminn frá Reykjavík er aðeins 40 mínútur. Á Ísafirði við Djúp er mikil náttúrufegurð og hér er tilvalið að stunda hvers kyns útiveru innan um fjöll og firði. Þar sem allt innanlandsflug fer frá Reykjavíkurflugvelli þurfa þeir farþegar sem fljúga með Icelandair frá Evrópu eða Norður-Ameríku til Ísafjarðar, að ferðast frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkurflugvallar.
Í október 2021 gaf Lonely Planet út árlega úttekt sína á þeim löndum, borgum og svæðum sem þau mæla með að ferðalangar heimsæki. Þar lentu Vestfirðir efst á blaði þegar kom að áhugaverðum svæðum til að heimsækja! Eflaust munu ófáir ævintýragjarnir ferðalangar fylgja ráðum Lonely Planet og heimsækja Dynjanda, Látrabjarg og Hornstrandir næsta sumar. Ísafjörður er sannkölluð útivistarparadís og því kjörið að skella sér vestur og brjótast aðeins út fyrir þægindarammann. Fjölmargar gönguleiðir standa ferðalöngum til boða. Hornstrandir hljóta að vera ofarlega á blaði náttúruunnenda en huggulegar gönguleiðir má einnig finna í grennd við Ísafjarðarbæ, t.a.m. nýtur gangan upp í Naustahvilft mikilla vinsælda.
Svo er um að gera að hafa það huggulegt í faðmi vestfirskra fjalla, til dæmis með mat og drykk í hinu rómaða Tjöruhúsi. Á ferðamannavef Vestfjarða má finna upplýsingar um veitingahús á Ísafirði og í nágrenni. Skíðavikan er fastur liður í menningarlífi Ísafjarðar og hefur verið frá því að fyrst var efnt til skíðamóts árið 1935. Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður er sömuleiðis árviss viðburður sem enginn rokktónlistaráhugamaður með sjálfsvirðingu lætur framhjá sér fara. Svo má ekki gleyma bæjarhátíðunum í nágrenninu, en þar má nefna Mýraboltann í Bolungarvík og Dýrafjarðardaga.
Reykjavík – höfuðborg Íslands
Við erum ekkert að grínast, en kannski örlítið hlutdræg: Reykjavík er ein svalasta borg í heimi. Við sem þekkjum Reykjavík könnumst öll við sérstakan anda borgarinnar – hún er í senn borg og lítið þorp. Með 140.000 íbúum er Reykjavík ekki stór í tölum en hún býr svo sannarlega yfir stórborgarbrag, í stuttri fjarlægð frá villtri náttúru og fallegu landslagi. Það er mikið um að vera í Reykjavík – lifandi tónlist, góður matur, jarðböð, sund, söfn og áhugaverðir viðburðir. Er ekki kominn tími til að upplifa borgina eins og erlendir ferðamenn gera? Hallgrímskirkja gnæfir yfir miðborginni en það hafa kannski ekki allir farið upp í turn kirkjunnar. Borgarútsýnið þaðan er svo sannarlega fallegt og gaman er að sjá borgina frá öðru sjónarhorni. Harpa er einnig tilvalinn áfangastaður til að sjá borgina með augum sjófugla við höfnina. Litríkt glerið gefur borginni einnig skemmtilegan blæ og slær borgarlandslagið öðrum ljóma.
Laugaveg þarf varla að kynna en með auknum ferðamannastraumi til landsins hefur mannlífið við götuna sannarlega umbreyst og minnir nú á verslunargötu stórborgar. Laugavegur skiptir oft um ham og verslanir, götulist eða matsölustaðir laða að fólk frá öllum heimshornum. Um helgar er engin ferð niður Laugaveginn fullkomnuð án viðkomu í Kolaportinu, hvort sem þú ert í leit að gamalli bók, nýjum fiski á diskinn eða ert með óslökkvandi lakkrísþörf. Þaðan er stutt út á Granda sem hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár. Miðbæjarsvæðið er byrjað að teygja sig út úr 101 og því er tilvalið að kanna hvað er að gerast í öðrum hverfum borgarinnar. Kaffihús og matsölustaðir í gamla vesturbænum, svo ekki sé talað um Laugarneshverfið, eru hressandi viðbót við mannlíf hverfanna og veita kærkomna hvíld frá amstri miðborgarinnar.
Þó borgarmenningin heilli og veiti kunnuglegt öryggi er erfitt að standast kall óbyggðanna. Með auknum ferðamannastraumi hefur skipulögð afþreying utan borgarmarka aldrei verið meiri. Fossar, jöklar, eldfjöll, jarðböð, gönguleiðir, reiðtúrar, bátsferðir … við þekkjum þetta öll. Landið býður upp á ótalmörg tækifæri og afbragðsskemmtun. Það er oft vanmetið að vera ferðamaður á kunnuglegum slóðum og upplifa landið frá öðru sjónarhorni.
Skannaðu kóðann og finndu besta og hagkvæmasta flugsætið með Icelandair.
Innanlandsflug – Ísland
Frá 15. október til 30. nóvember 2023 býður Icelandair upp á beint flug milli Akureyrar og Keflavíkur. Einnig er hægt að fljúga út í heim frá flugvöllum okkar innanlands til Evrópu, Norður-Ameríku og Grænlands – allt á einum miða og með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli.