Helgi Jónsson Kristjánsson fæddist í Hrútsholti í Hnappadal 3. júní 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Jaðri í Ólafsvík 24. júní 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg Helgadóttir frá Þursstöðum í Borgarhreppi og Kristján Ágúst Magnússon frá Hrútsholti. Systkini Helga eru: Svanur, f. 1937, d. 2011, kvæntur Eddu Laufeyju Pálsdóttur, d. 2022. Magnús, f. 1940, d. 2016, kvæntur Jónínu Kristínu Eyvindsdóttur, og Magnea Sigurbjörg, f. 1944, gift Sigþóri Guðbrandssyni.

Hinn 3. júní 1964 kvæntist Helgi Sonju Guðlaugsdóttur, f. 10.12. 1939, d. 24.5. 2009. Hún var dóttir hjónanna Ingibjargar Steinþórsdóttur og Guðlaugs Guðmundssonar í Ólafsvík. Börn Sonju og Helga eru:

1) Guðlaugur Gunnarsson, f. 19.8. 1958, stjúpsonur Helga. Guðlaugur er kvæntur Önnu Maríu Guðnadóttur og þeirra börn eru Davíð Jens, f. 1980, Óttar, f. 1985, og Sonja, f. 1988. Guðlaugur og Anna María eiga sjö barnabörn. 2) Drengur, f. 13.9. 1964, d. sama dag. 3) Kristján Freyr, f. 2.12. 1965. Kristján er kvæntur Hólmfríði Sigurðardóttur og þeirra dóttir er Margrét, f. 1992. 4) Drengur, f. 21.2. 1967, d. 22.6. 1967. 5) Ingi Fróði, f. 13.7. 1972. Ingi er kvæntur Hörpu Helgadóttur og þeirra börn eru Helgi Fróði, f. 2005, Klara Ísafold, f. 2007, og Sóley Kristjana, f. 2010. 6) Ísafold, f. 22.5. 1980. Ísafold er gift Hafþóri Einarssyni og þeirra börn eru Veigar Bjarki, f. 2002, stjúpsonur Ísafoldar, Sonja Guðrún, f. 2011, og Kristín Inga, f. 2012.

Sonja og Helgi stofnuðu heimili í Ólafsvík 1964 en bjuggu tvö ár í Borgarnesi áður en þau fluttu aftur til Ólafsvíkur og byggðu sér hús að Sandholti 7. Helgi bjó frá árinu 2012 á dvalarheimilinu Jaðri en þar undi hann vel sínum hag.

Helgi ólst upp í Borgarfirði, lengst af að Ferjubakka 1, sem kallast Trana. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti og lauk réttindanámi í fiskvinnslu síðar meir. Í Ólafsvík starfaði Helgi lengi sem verkstjóri í Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur. Hann var starfsmaður Sparisjóðs Ólafsvíkur í tvö ár, sat í stjórn sjóðsins og var síðasti stjórnarformaður hans. Helgi rak eigin fiskvinnslu um nokkurra ára skeið og rak Öryggisþjónustuna í Snæfellsbæ í 15 ár. Helgi sat í hreppsnefnd og síðar í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1974 til 1986. Hann var stofnfélagi í Lionsklúbbi Ólafsvíkur. Helgi var í áratugi fréttaritari Morgunblaðsins í Ólafsvík. Eftir hann liggja tvær bækur, sagan af Rebba fjallaref kom út árið 1993 og árið 2011 kom út uppvaxtarsagan Í björtum Borgarfirði.

Útför Helga fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 6. júlí 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Yljar litlu hjarta

svipurinn blíði og höndin hlýja

hugprúða hetjan mín bjarta.

Nóttin löng var liðin.

Dögunin ljúfa og kyrrðin kæra

kyssti og færði þér friðinn.

Eilíf birta aldrei dvín

í logninu væra, í heiðbláan himin

hefur þú stigið, sólin mín.

Þetta skrifaði ég þegar mamma kvaddi okkur. Mér fannst engin orð nógu góð fyrir mömmu og var við það að fallast hendur. Pabbi skildi mig en hvatti áfram enda var mamma sólin hans líka.

Nú er komið að því að kveðja pabba og sami vandi blasir við mér. Minnug hvatningar hans forðum, koma hugrenningar mínar hér. Það sem mér er efst í huga er þakklæti og djúp virðing fyrir lífi pabba og göngu þeirra mömmu saman um veginn.

Pabbi var skemmtilegur og margslunginn karakter. Hann var félagslyndur en sótti líka í einveru og var heimakær. Hann var rólegur og yfirvegaður en gat verið ákveðinn og þver. Hann var tryggur sínu fólki. Hann var safnari í eðli sínu, tók tryggð við hluti og átti erfitt með að henda og sá gersemar í sumu sem aðrir komu ekki auga á.

Pabbi stundaði tómstundabúskap í Ólafsvík og átti að jafnaði 10-12 kindur sem gáfu honum mikið. Ég heillaðist af kindunum líka og ég held að pabba hafi þótt vænt um það. Ég fékk að taka þátt í öllu sem við kom kindunum og hafði yndi af en mest um vert var þó það að fá að vera félagi pabba.

Eftir að mamma féll frá vörðum við pabbi miklum tíma saman í Ólafsvík. Pabbi reyndist mér afar góður vinur. Ég er þakklát fyrir öll ráðin hans. Hann hlustaði vel, af innsæi og var næmur. Hann sagði að maður skyldi alltaf treysta að vel færi á endanum og maður yrði leiddur að því sem manni væri ætlað. Pabbi treysti sjálfur alltaf á almættið og handleiðslu þess í öllum aðstæðum.

Samstaða, trú, von og æðruleysi. Það er líklega það sem hefur bjargað sálarheill foreldra minna eftir alvarleg áföll en þau misstu tvo drengi í frumbernsku. Það er erfitt að gera sér í hugarlund allan styrkinn sem þau þurftu að hafa til að halda áfram. Alltaf báru þau harm sinn í hljóði. Ég vildi óska að sú þekking sem nú er til á áhrifum áfalla hefði verið til þá. Bara það eitt að fá viðurkenningu á því sem henti þau hefði haft mikla þýðingu og mildað sorgina. Vængbrotin náðu þau aftur flugi og lífið hélt áfram.

Þremur árum eftir að mamma féll frá flutti pabbi á Jaðar og var það mikið gæfuspor fyrir hann. Eftir að ég eignaðist börnin mín sá ég að pabba þótti sárt að þau færu á mis við ömmu Sonju. Hann var góður afi og dætur mínar eiga margar góðar minningar af samverustundum með afa. Það brást ekki að þegar við vorum á ferðalögum, lét pabbi okkur alltaf vita af veðurspá og færð á vegum og bað um hringingu frá áfangastað. Nú er pabbi kominn á sinn áfangastað og ég er viss um að þar viðrar alltaf vel.

Elsku pabbi. Ljóðið kom skýrt upp í huga minn þegar ég hélt í stóru, hlýju höndina þína og þú fékkst friðinn. Fyrir mér varst þú líka sólin – og nú hefur þú stigið upp í heiðbláan himininn. Ég veit að þið mamma munuð lýsa okkur veginn með eilífri birtu minninganna.

Þín

Ísafold.

Þeir sem þekktu pabba minn vita að hann var góður íslenskumaður, skrifaði fallegan texta og orti ljóð, jafnt í bundnu sem óbundnu máli. Reyndar hafði hann fyrir allmörgum árum sagst hættur að yrkja ljóð í bundnu máli og sagði frelsi tjáningarinnar takmarkast of mikið af bundnu formi. Hann hafði þann háttinn á að endurnýta gluggaumslög Tryggingastofnunar og á litla borðinu hans hafði myndast dágóður stabbi þar sem gat að líta ólíka textavinnu á ýmsum stigum. Ljóðið sem hér birtist var þannig ort í þremur atrennum á baki þriggja umslaga. Eitthvað hefur honum líkað við útkomuna, enda hafði hann hreinritað á virðulegri pappír og hengt á veggtöflu.

Skyndilega

kemur sorgin

upp að þér

og segir

nú dansar þú

við mig

sjáðu

er ég ekki falleg

í svörtu

og drjúpandi

hjartablóð þitt

hnígur

svo lengi

sem lifir.

(Helgi J. Kristjánsson, 2023)

Í þessu ljóði er að finna svör við svo mörgum spurningum sem ég spurði foreldra mína sem barn og óviti en hafði svo ekki dug til að endurtaka sem fullorðinn einstaklingur við þau, um bræður mína tvo sem hafa svo lengi verið í kirkjugarðinum. Ævilöng reynsla af því að ráða í aðstæður tengdar þeim tveimur var einfaldlega of viðkvæm þannig að ég gæti rætt þetta við þau. Ekki gefst mér lengur tækifæri til þess nú þegar þau bæði eru gengin. Því er ég þakklátur fyrir þetta ljóð sem pabbi orti á gluggaumslag og setti síðan á þann stað í herberginu sínu að allir gætu séð, og sem mér finnst skýra svo margt sem ég í uppvextinum ekki skildi til fullnustu.

Á þessari stundu dreg ég á mína barnatrú og um leið og ég kveð góðan pabba minn, þá er ég þess fullviss, líkt og hann sjálfur var, að fagnaðarfundir eigi sér þegar stað á öðru tilverustigi og þegar minn eigin tími verður kominn, þá muni ég eignast hlutdeild í þeim.

Þinn Diddi

Kristján Freyr.

Elsku afi í sveitinni hefur fengið hvíldina, saddur og sæll.

Við trúum því og treystum að honum líði vel á himnum og að amma Sonja og hann hafi nú sameinast á ný. Við erum innilega þakklát fyrir allar minningarnar með honum og hann mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta okkar.

Við vitum að hann vakir yfir okkur og þannig verður hann alltaf partur af okkar lífi. Við söknum hans mikið en yndislegar minningar hughreysta okkur. Við munum elska hann að eilífu.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Blessuð sé minning elsku afa í sveitinni.

Ástar- og saknaðarkveðjur,

Helgi Fróði, Klara Ísafold og Sóley Kristjana.

„Einu sinni var lítil stúlka sem hét Margrét. Hún var í heimsókn hjá ömmu sinni og afa í Ólafsvík “ svona man ég byrjunina á sögunum sem þú bjóst til um mig. Ný saga í hvert sinn um hversdagslega hluti í sveitinni.

Þú spilaðir ólsen-ólsen við mig við eldhúsborðið, stundum var spilað upp á Sandholts 7-meistaratitil. Þú lést Fröken Klukku hringja, baðst mig um að svara símanum og hlóst síðan hrossahlátri þegar ég svaraði og var ekkert nema undrunarsvipurinn.

Við gáfum kindunum gamla snúða og vínarbrauð úr blárri tunnu. Ég fékk síðan að hringja úr bílasímanum innan af Snagabökkum, segja ömmu að við værum á leiðinni heim í mat. Ég þurfti ekki að fara í bílbelti í palla, því við vorum í sveitinni. Við rúntuðum upp með Fossá að gá að kindunum, kannski með kit kat eða lion bar með okkur.

Eitt sinn gistir þú heima í Grafarvoginum. Við vorum bara tvö heima og þú bauðst mér á KFC, varst svolítið hrifinn af körfukjúklingi. Ætli ég hafi ekki verið 8 ára þegar þú manaðir mig í að kalla stráksi stráksi á rauðhærðan strák sem var að leika sér í fjörunni neðan við Ólafsbrautina. Þegar strákurinn loksins leit við brunuðum við í burtu og skellihlógum. Atvikið með stráksa rifjuðum við síðast upp 3. júní sl. Þetta er líklega í fyrsta og síðasta sinn sem ég hef þorað að kalla sisvona á strák. Í öllum símtölum síðustu ár spurðirðu, er ekki einhver sætur? Jú, afi minn, það er alltaf einhver sætur, svaraði ég jafnan.

Þegar ég loka augunum sé ég þig með „gylden brun“ lit í skegginu, kannski á síðum nærbuxum og hlýrabol. Þú situr í stofunni með krosslagða fætur og lest Moggann. Þegar ég skoða myndir heyri ég í þér, heyri hláturinn, heyri sögurnar og tilþrifin í eftirhermunum. Heyri líka í ömmu og man ykkur saman. Nú fáið þið aftur að vera saman eins og þú vildir svo lengi.

Elsku afi minn, þangað til síðar.

Þín afastelpa,

Margrét
Kristjánsdóttir.

Fallinn er frá Helgi Kristjánsson sem var lengi verkstjóri hjá Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur, hreppsnefndarmaður, bæjarfulltrúi og fréttaritari Morgunblaðsins í Ólafsvík. Ég kynntist Helga ungur að árum þegar hann flutti á æskuslóðir mínar í Ólafsvík. Eins og tíðkaðist í sjávarbyggðunum þá vann ég við fiskverkun í Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur undir verkstjórn Helga og naut ég þess að vinna með þeim öðlingi sem hann var. Hann leiðbeindi unglingnum við verkin sem vinna þurfti í fiskmóttökunni af einstakri tillitsemi og þekkingu. Fljótlega eftir að Helgi fluttist til Ólafsvíkur varð hann náinn samstarfsmaður föður míns þegar þeir stóðu saman á vettvangi Sparisjóðs Ólafsvíkur og í sveitarstjórnarmálum. Helgi vildi gera sitt til þess að efla samfélagið í Ólafsvík og síðar Snæfellsbæ og gaf samfélaginu mikið af tíma sínum. Helgi var góður samstarfsmaður á vettvangi stjórnmálanna á Snæfellsnesi og á Vesturlandi þegar kom til þess að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kosningum til Alþingis. Hann hélt mjög á lofti hugmyndafræði flokksins sem byggðist á því að stétt ynni með stétt og einstaklingar nytu frelsis til athafna í þágu samfélagsins og þeirra einstaklinga sem vilja leggja sig fram við að bæta byggðirnar og samfélagið allt. Helgi var dyggur stuðningsmaður minn þegar ég hóf afskipti af stjórnmálunum á Vesturlandi og einn meðal þeirra sem hvöttu mig til þess að gefa kost á mér í framboð til Alþingis. Í upphafi stjórnmálaferilsins kom hann mér í samband við marga góða Borgfirðinga og Mýramenn sem hann þekkti og vissi að voru tilbúnir til þess að vinna fyrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. Hann sendi mér oft góð ráð þegar að mér var sótt sem samgönguráðherra og var hollráður þegar til hans var leitað. Helgi naut þeirrar gæfu að kvænast sómakonunni Sonju Guðlaugsdóttur sem ólst upp í Ólafsvík og studdi Helga vel í þeim málum sem vörðuðu heimabyggðina sem var henni kær. Við Hallgerður vottum fjölskyldu Helga innilega samúð okkar. Blessuð sé minning Helga Kristjánssonar.

Sturla
Böðvarsson.