Gæðaræma Bandaríkjamenn elska sinn 4. júlí.
Gæðaræma Bandaríkjamenn elska sinn 4. júlí. — Ljósmynd/Skjáskot
„Í fyrra á 4. júlí, svo fullur varstu hér …“ orti Káinn á sínum tíma um þjóðhátíðardag Bandaríkjanna en svo vel vill til að faðir minn á afmæli sama dag og fékk því oft að heyra þá vísu

Stefán Gunnar Sveinsson

„Í fyrra á 4. júlí, svo fullur varstu hér …“ orti Káinn á sínum tíma um þjóðhátíðardag Bandaríkjanna en svo vel vill til að faðir minn á afmæli sama dag og fékk því oft að heyra þá vísu.

Líkt og vísan gefur til kynna kunna Bandaríkjamenn vel að fagna þjóðhátíðardeginum sínum, ólíkt okkur Íslendingum, og marka þeir hann oftast með miklum flugeldum og ótæpilegri drykkju svo að helst minnir á gamlárskvöld á Íslandi.

Sjálfur vildi ég marka daginn með einhverjum hætti en þá rifjaðist upp gæðaræman Independence Day, en hægt er að horfa á hana á Disney+-streymisveitunni. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá fjallar Independence Day um innrás geimvera, sem vill svo til að á sér stað einmitt um þjóðhátíðarhelgi Bandaríkjamanna. Eitt þekktasta atriði myndarinnar er þegar árás ófreskjanna hefst en þær hafa komið sér í lykilstöðu yfir Los Angeles, New York og síðast en ekki síst Hvíta húsinu í Washington, sem fær að springa í „slow motion“ með miklum tilþrifum.

Ég verð að viðurkenna að myndin mun seint fá verðlaun fyrir söguþráð eða góðan leik en hún hefur engu að síður elst merkilega vel sem heilalaus Hollywood-hasarmynd með sprengingum og poppi. Ka-búmm!

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson