Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Að koma í land með fullfermi úr róðri þar sem allt hefur gengið upp er góð tilfinning,“ segir Páll Árni Pétursson sjómaður í Grindavík. Hann er í áhöfn trollbátsins Sturlu GK þar sem við stjórnvölinn eru alla jafna þeir Sigurbjörn Guðmundsson og Birgir sonur hans. Þeir eru skipstjórar sitt á hvað og Páll þá annaðhvort yfirstýrimaður eða netamaður. Í síðustu viku vildi svo til að feðgarnir fóru báðir í frí og þá kom að því að Páll Árni tæki sinn fyrsta túr sem skipstjóri. Sú ferð var fimm dagar og eldsnemma nú á þriðjudagsmorgun lagðist Sturla GK að bryggju í Grindavík með 60 tonn af blönduðum góðum afla. Fiskvinnsla Þorbjarnarins hf. sem gerir bátinn út er komin í sumarleyfi og því fór aflinn á markað.
Gaman að fá tækifæri
„Fyrir unga menn er gaman að fá tækifæri og vinna sig áfram,“ segir Páll. Morgunblaðið hitti hann í Grindavík, þá nýkominn í land, en skipstjórinn var þá í brúnni. Ýmis frágangur fylgir þegar komið er í land og nú í sumarstoppi gefst líka ráðrúm til að dytta að ýmsu í bátnum sem Þorbjörninn hefur gert út síðastliðin þrjú ár. Áður hét báturinn, sem var smíðaður árið 2007, Vestmannaey VE og var í flota Bergs-Hugsins í Eyjum.
„Sturla er gott sjóskip þrátt fyrir að vera lítið. Sigurbjörn, Birgir og ég erum einskonar þríeyki og leggjum á ráðin saman. Ég er þakklátur fyrir að vera samstarfsmaður þeirra. Mitt hlutverk í þessum hópi hefur meðal annars verið að velja mannskap í áhöfnina, þar sem við höfum verið einstaklega heppnir. Fengið hressa og metnaðarfulla stráka sen leggja hart að sér. Slíkt er formúla að því að vel takist til. Hópurinn er vel þjálfaður og tekur stöðugum framförum,“ segir Páll um mannaskipan. Í hverjum túr eru 13 manns í áhöfn Sturlu en í hópnum öllum sem tilheyrir skipinu er alls 21.
Í sínum fyrsta skipstjóratúr var Páll fyrst fyrir utan Pétursey og Vík í Mýrdal. Þar náðust í trollið 80 kör af þorski og ufsa. Svo var haldið aftur til baka og suður á Eldeyjarboða.
„Suður af Eldey eru Fjöllin og Þjóðverjahólar og þar náðum við slatta af ufsa. Í blálokin var svolítill vandi að fylla skipið sem þó tókst. Við komumst í gott hal af ufsa og karfa nærri Eldey og þá var hægt að fara í land. Og hingað inn til Grindavíkur komum við um klukkan fjögur að morgni þriðjudags, eftir frábæra ferð í fínu veðri,“ segir skipstjórinn og brosir.
Sjómennska skrifuð í skýin
Svo virðist sem bókstaflega hafi verið skrifað í skýin að Páll yrði sjómaður. Starfsferilinn hóf hann raunar sem matreiðslunemi í Bláa lóninu og líkaði ágætlega. Sumarið 2010 bauðst honum að taka afleysingatúr sem kokkur á togaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK og þar má segja að hann hafi fundið sig á réttri hillu. Fljótlega eftir þetta gaf Páll Árni kokkanámið frá sér og fór aftur á sjóinn.
„Ég var frá árinu 2011 á Hrafni Sveinbjarnarsyni, Hrafni og Gnúpi. Hjá fínum skipstjórum: Grétari Kristjánssyni, Bergþóri Gunnlaugssyni, Sigurði Jónssyni og Hilmari Helgasyni. Allt eru þetta góðir menn; kappsamir og eru áfram um að koma í land með góðan afla. Að vera hjá þeim voru algjör forréttindi, en þarna var ég háseti en lengst kokkur,“ segir Páll sem 2018 fór í Stýrimannaskólann. Náði sér þar fyrst í skipstjórnarréttindi á fiskiskip en bætti svo við sig réttindum farmanns. Var kominn með þau árið 2020, eða um líkt og leyti og Þorbjörninn hf. keypti trollbátinn Sturlu GK. Feðgarnir Sigurbjörn og Birgir völdust í brúna þar, en svo kom líka mannskapur af öðrum bátum Þorbjarnarins, Páll þar með talinn.
Fullt af fínum fiski
„Auðvitað þurftu menn að læra margt nýtt, til dæmis þeir sem fóru á trollið eftir að hafa verið á línuveiðum,“ segir Páll. „Í áhöfninni á Sturlu GK eru tveir netamenn en annars má segja að allir í áhöfninni geti gripið í nál og gert að veiðarfærum sem er mjög mikilvægt. Um borð er gangurinn síðan sá að fiskurinn fer í vinnslulínu. Er blóðgaður, slægður, settur í stóran kælidreka og svo ísaður í kör. Þetta er þróað ferli en með því náum við líka að koma í land með fyrsta flokks afla sem er eftirsóttur.“
Alþekkt er að árangur og áhugi haldast jafnan í hendur og saga Páls Árna Péturssonar vitnar vel um slíkt. „Sjómennskan á vel við mig; ég hlakka alltaf til þess að fara á sjóinn og að vinna við áhugamálið eru mikil forréttindi. Hverjum róðri fylgja heilmiklar pælingar. Sennilega gildir þetta um alla skipstjóra; maður skoðar á netinu hvar flotinn sé helst og hvernig veiðist af hverju hvar. Kanna strauma og veðurspár o.s.frv. Þetta þarf allt að vera á hreinu áður en haldið er úr höfn. Svo þarf líka að fylgjast vel með lífríkinu; sjónum sem virðist vera fullur af fínum fiski,“ segir Páll Árni Pétursson – nú kominn í ljúft og gott sumarfrí með fjölskyldunni austur við Þingvallavatn.