Sigþór Bjarnason, Dandi, fæddist 11. febrúar 1948 á Akureyri. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 22. júní 2023.

Foreldrar hans voru Magnea Sigríður Egilsdóttir, f. 10.8. 1917, d. 3.7. 2008, og Bjarni Sigurðsson, f. 28.12. 1919, d. 5.4. 2008. Systkini Sigþórs eru Ingibjörg, f. 19.2. 1949, Egill, f. 23.12. 1951, Þórdís, f. 8.4. 1953, og Sigurður, f. 7.7. 1957.

Sigþór kvæntist 26.3. 1970 Guðríði Elínu Bergvinsdóttur, f. 26.11. 1951. Foreldrar hennar eru Unnur Jósavinsdóttir, f. 26.9. 1932, og Bergvin Halldórsson, f. 10.7. 1932. Synir Sigþórs og Guðríðar eru: 1) Sigurður Rúnar, f. 29.12. 1967, kvæntur Pálínu Austfjörð, f. 8.5. 1970. Synir þeirra eru: a) Bjarki, f. 23.11. 1992, sambýliskona Arney Ágústsdóttir, f. 5.6. 1990. Synir þeirra, Róbert Máni, f. 4.6. 2014, og Fannar Atli, f. 12.7. 2018. b) Einar, f. 19.11. 1996, sambýliskona Alexía María Gestsdóttir, f. 9.1. 1996. Sonur þeirra, Arnór Dan, f. 31.10. 2021. Sonur Alexíu, Gunnar Helgi, f. 30.3. 2016. 2) Sævar Örn, f. 10.11. 1969, d. 7.5. 2001. 3) Viðar Geir, f. 18.8. 1973, kvæntur Björgu Gunnarsdóttur, f. 18.5. 1979. Börn þeirra eru: a) Gunnar Egill, f. 10.8. 2001. b) Una Björk, 27.3. 2010. 4) Elmar Dan, f. 1.7. 1982, unnusta Bjarney Sigurðardóttir, f. 22.3. 1986. Dætur Elmars og fyrri eiginkonu, Eyrúnar Gígju Káradóttur, eru: a) Ronja Ýr, f. 10.11. 2004, unnusti Vilhelm Ottó Biering Ottósson, f. 20.5. 2002. b) Alís Janey, f. 11.11. 2007. c) Sigyn, f. 24.9. 2010.

Sigþór ólst upp hjá ömmu sinni og afa, Þórdísi Stefánsdóttur og Sigurði Einarssyni, í Lundargötu 8 og bjó hann alla sína tíð á Akureyri. Hann fór ungur til sjós en árið 1969 hóf hann störf hjá Fatagerðinni Burkna og í framhaldinu hjá JMJ Herradeild þar sem hann starfaði til loka árs 2016.

Hann var mikill fjölskyldumaður og hafði brennandi áhuga á öllu sem viðkom afkomendum sínum. Hann var mjög félagslyndur og ef hann þekkti ekki fólk þá lagði hann sig fram um að kynnast því. Einnig hafði hann mikinn áhuga á ferðalögum innanlands sem utan.

Útför fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 6. júlí 2023, klukkan 13.

Það er með hræðum hug sem við skrifum þessa minningargrein okkar hjóna um vin okkar, Sigþór Bjarnason. Við kynntumst hjónunum Danda og Gauju á Majorka árið 1998, sem sagt í sólarlandaferð. Þannig var að við vorum úti þann 17. júní og var verið að fagna afmæli íslenska lýðveldisins með mikilli matarveislu. Þar voru slegnar tvær flugur í einu höggi því jafnframt var þessi dagur 50 ára afmælisdagur frú Bjargar.

Þau voru þarna og má segja að þau hjón hafi stolið senunni og einhvern veginn varð það svo að við kynntumst þessum hjónum á þessum degi og við munum svo sannanlega eftir honum og fjörinu sem myndaðist í þessari veislu.

Síðan þá höfum við hist reglulega þótt talsverð vegalengd sé á milli okkar en mikið eigum við eftir að sakna Danda og og fá aldrei aftur að heyra hláturinn hans, sjá brosið hans né heyra sögurnar hans.

Sögurnar, og ég tala nú ekki um klæðaburðinn, maður minn. Dandi, og Gauja reyndar líka, eru heldur betur flott hjón, svo einstaklega snyrtilega klædd og heimilið, garðurinn, bílarnir, allt bar þetta merki þess hversu snyrtleg þau voru.

Alltaf þegar við hittumst þá var mikið spjallað og mikið hlegið og þetta sóttumst við hjónin í, því það var alltaf svo létt yfir þeim Gauju og Danda.

Við höfum haft það fyrir vana að við förum til Akureyrar á hverju ári til þess að hitta þau heiðurshjón. Að sjálfsögðu munum við halda því áfram þótt Dandi sé fallinn frá.

Að lokum viljum við hjónin biðja góðan guð um að fara mjúkum höndum um hjörtu allra afkomenda þeirra heiðurshjóna Danda og Gauju.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Jónas og Björg.

Dandi, ertu aldrei fúll? Af hverju ætti ég að vera það? Ég hef ekki undan nokkrum sköpuðum hlut að kvarta. Hjónabandið er bara logn og blankalogn og börnin okkar eru dugleg og þeim gengur vel.

Þegar Magga spurði Danda að þessu, birtist mikil speki og gott lífsviðhorf í þessu einfalda svari.

Þetta lýsir honum svo vel og þetta kennir okkur svo margt. Enda var margt sem hægt var að læra af þessum góða vini okkar. Alltaf glaður og leit lífið og tilveruna björtum augum.

Dandi og Gauja voru samrýmd og samstiga í lífinu. Þau voru dugleg að gera ýmislegt saman og eignuðust mikið í minningabankann. Þau kunnu að njóta og dönsuðu saman í gegnum lífið.

Dandi var afskaplega dagfarsprúður maður. Hann var snyrtimenni og séntilmaður. Hann var alltaf flottur í tauinu, bíllinn stífbónaður, hjólin glansandi hrein og heimili þeirra hjóna var alltaf fínt og fágað. Dandi átti töfragrill. Það varð aldrei óhreint.

Dandi kenndi okkur svo margt, með sinni jákvæðni, gleði og æðruleysi. Lífsviðhorf hans og virðing fyrir öllu var aðdáunarverð. Það er öruggt að í sumarlandinu heldur hann áfram að dreifa gleði og hamingju og staðurinn verður einfaldlega betri við komu hans.

Á okkar heimili hefur á liðnum árum orðið til nýtt orðatiltæki. Ef okkur hefur fundist við lenda í mótbyr eða erfiðum aðstæðum segjum við einfaldlega „Tökum Danda á þetta“ og þá verður allt svo miklu auðveldara.

Við vottum Gauju, Sidda, Vidda, Elmari og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð og biðjum Guð að styrkja þau og blessa.

Margrét (Magga) og Oddur