Fyrirliði Álfhildur Rósa er í stóru hlutverki á miðjunni hjá Þrótti.
Fyrirliði Álfhildur Rósa er í stóru hlutverki á miðjunni hjá Þrótti. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, miðjumaður og fyrirliði Þróttar úr Reykjavík, var besti leikmaðurinn í elleftu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Álfhildur fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína með Þrótti á…

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, miðjumaður og fyrirliði Þróttar úr Reykjavík, var besti leikmaðurinn í elleftu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Álfhildur fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína með Þrótti á mánudagskvöldið þegar liðið vann Selfyssinga mjög örugglega á heimavelli sínum í Laugardalnum, 3:0. Hún var í lykilhlutverki á miðjunni og í uppspili liðsins eins og svo oft áður.

Álfhildur er 22 ára gömul og hefur aldrei leikið með öðru félagi en Þrótti. Hún fékk sitt fyrsta tækifæri með meistaraflokki sumarið 2015, þá aðeins 14 ára gömul, og spilaði þá fjóra leiki í úrvalsdeildinni.

Þróttarar féllu en Álfhildur var í stöðugt stærra hlutverki hjá liðinu í 1. deild næstu fjögur árin og skoraði þar níu mörk í 47 leikjum í deildinni, fjögur þeirra sumarið 2019 þegar Þróttur vann 1. deildina, en þá var Álfhildur þegar orðin fyrirliði liðsins, aðeins 18 ára gömul.

Hún leikur nú sitt fjórða tímabil með Þrótti í efstu deild frá 2020, hefur leikið 57 leiki með félaginu í deildinni og skorað í þeim þrjú mörk. Álfhildur er orðin næstleikjahæsti leikmaður Þróttar í efstu deild frá upphafi, á eftir liðsfélaga sínum Sóleyju Maríu Steinarsdóttur.

Álfhildur lék aldrei með yngri landsliðum Íslands en í apríl var hún valin í U23 ára landsliðið sem þá var endurvakið eftir langt hlé og spilaði báða leiki Íslands, vináttuleiki gegn Dönum á útivelli.

Þrjár aðrar með tvö M

Auk Álfhildar fengu þrír leikmenn tvö M í 11. umferð deildarinnar. Það voru Katla Tryggvadóttir, liðsfélagi hennar í Þrótti, Agla María Albertsdóttir úr Breiðabliki og Bryndís Arna Níelsdóttir úr Val. Þær eru allar í úrvalsliði 11. umferðar sem sjá má hér fyrir ofan.

Þar eru Agla María og Ásdís Karen Halldórsdóttir úr Val báðar valdar í liðið í fimmta skipti á þessu tímabili. vs@mbl.is