Jóhann Helgason
Jóhann Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Landrisið er mest á Fagradalssvæðinu þannig að mestar líkur eru á gosi þar,“ segir Jóhann Helgason jarðfræðingur, um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga. Ljóst sé að auknar líkur eru á því að það gjósi í þriðja skiptið á Reykjanesskaga…

„Landrisið er mest á Fagradalssvæðinu þannig að mestar líkur eru á gosi þar,“ segir Jóhann Helgason jarðfræðingur, um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga. Ljóst sé að auknar líkur eru á því að það gjósi í þriðja skiptið á Reykjanesskaga frá árinu 2019 þó svo að ekki sé hægt að fullyrða um það. „Það hafa þegar verið tvö gos þarna,“ segir hann og gerir ráð fyrir því að það þriðja verði svipað þeim fyrri þegar glóandi kvika hefur náð að rjúfa yfirborðið.

„Síðasta gos var mjög stutt en ef þetta yrði lengra gos þá koma fljótlega upp vangaveltur um hvert hraunið rennur.“ Til lengri tíma gæti Suðurstrandavegur verið í hættu ef hraunið rennur til suðurs. Jóhann telur að lítið megi út af bregða til að hraun flæði yfir fyrirstöður sem hefur verið komið fyrir á svæðinu til að halda aftur af hraunflæðinu.

Aðeins forleikur?

Yfirstandandi skjálftavirkni er staðbundin og hefur verið mest nálægt Fagradalsfjalli og vel er fylgst með jarðskjálftamælum. „Innan sólarhrings gæti eitthvað gerst,“ segir Jóhann og er ekki einn um þá skoðun. „Ég held að atburðarásin sé að verða örari og mér kæmi það alls ekki á óvart þótt það yrði gos núna.“ Hann segir þó ekki gott að segja til um það hvort það verði eftir viku eða hálfan mánuð. „Þetta skýrist á næstu dögum.

Gjósi nú verður það líklega aðeins forleikur. „Það verður að hafa það í huga að þetta er hugsanlega upphafið að miklu stærri atburði sem gerist á nokkur hundruð ára fresti,“ segir jarðfræðingurinn en erfitt er að segja til um á hversu löngum tíma það gæti gerst.

Nálgast yfirborðið

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að ekki sé gott að segja til um á hversu miklu dýpi kvikan sé undir yfirborðinu. „Það er allt sem bendir til þess að það sé frekar grunnt.“ Yfirleitt er stuðst við gervitunglamyndir til að meta það en þær liggja ekki fyrir fyrr en í næstu viku.

„Það er greinilega kvikugangur á leiðinni,“ segir Páll og er það í fjórða skiptið síðan umbrotin hófust árið 2019 sem það gerist en með því er átt við sprungu sem er full af glóandi kviku sem ryður sér leið í jarðskorpunni. Í tvígang hefur hún náð upp á yfirborðið og atburðarrásin endað með eldgosi. „Þetta getur farið á hvorn veginn sem er,“ segir Páll.

Jarðaskjálftahrinan á Reykjanesskaga nú er norðar en áður og líklegt er að það gjósi á því svæði eða jafnvel á svipuðum slóðum og áður. „Það er ekki líklegt að það verði stórtjón ef það kemur upp gos á þessu svæði. Þó svo að kvikan komi upp þar sem skjálftavirknin er mest núna, þá erum við ekki að tala um neinar óskaplegar hamfarir. Þetta er á svæði þar sem er nánst ekkert til að eyðileggja, engir vegir, línur eða mannvirki. Þetta er eins langt frá vegakerfinu og hægt er að vera á Reykjanesinu.“