„Staðan er sú að það eru, ef svo má segja, engar viðræður í gangi,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í samtali við Morgunblaðið um kjaraviðræður samtakanna við Sjómannasamband Íslands.
„Það var fundað aðeins í apríl og maí en ekkert þokast áfram,“ segir hún jafnframt um hvort formlegir eða óformlegir fundir hafi átt sér stað. „Það er alveg óljóst á þessum tímapunkti,“ segir Heiðrún, spurð um hvenær nýr kjarasamningur líti dagsins ljós.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, tekur í svipaðan streng. „Það er voða lítið um að vera,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. „Það eru allir í fríi,“ segir hann en jafnframt að „það verður farið á fullt með þetta í ágúst.“