Vinsælir The King‘s Singers kemur fram á tvennum aðventutónleikum í lok nóvember. Hópurinn hefur tvívegis sungið á Íslandi við miklar vinsældir, fyrst 1989 og aftur 2015.
Vinsælir The King‘s Singers kemur fram á tvennum aðventutónleikum í lok nóvember. Hópurinn hefur tvívegis sungið á Íslandi við miklar vinsældir, fyrst 1989 og aftur 2015.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnti nýverið efnisskrá sína fyrir starfsárið 2023/2024 undir heitinu „Sinfóníuhljómsveit Íslands í blóma“ og kallast það þannig á við prógrammið frá síðasta starfsári sem hét „Sinfóníuhljómsveit Íslands springur út“

Af tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnti nýverið efnisskrá sína fyrir starfsárið 2023/2024 undir heitinu „Sinfóníuhljómsveit Íslands í blóma“ og kallast það þannig á við prógrammið frá síðasta starfsári sem hét „Sinfóníuhljómsveit Íslands springur út“. Á efnisskránni nú eru ríflega 40 tónleikar og kennir þar ýmissa grasa. Hér er ætlunin að rýna örlítið í nokkur verkefni sveitarinnar (alls ekki öll) sem fram undan eru.

Raðir í boði

Venju samkvæmt býður Sinfóníuhljómsveit Íslands hlustendum sínum upp á raðir: rauða (fyrir alla þá sem vilja kraftmikla sinfóníska tónlist með íslenskum og erlendum einleikurum í fremstu röð), gula (fyrir þá sem vilja fjölbreytt og litrík meistaraverk úr ýmsum áttum með glæsilegum einleikurum og stjórnendum) og græna (fyrir þá sem vilja þekkta og aðgengilega klassík með fyrsta flokks einleikum og söngvurum); þar fyrir utan er svarta röðin (það er að segja sérstök tónleikaröð með þrennum tónleikum þar sem Leila Josefowicz, staðarlistamaður starfsársins, er í einleikshlutverki) auk Litla tónsprotans (fjölskyldutónleikar) og Föstudagsraðarinnar (óvenjulegir og áhugaverðir tónleikar snemma á föstudagskvöldum). Loks eru tónleika utan raða.

Frægir einleikarar

Fyrstan einleikara sem kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands næsta vetur ber að nefna Emmanuel Pahud, leiðara Berlínarfílharmóníunnar frá árinu 1993 og einn fremsta flautuleikara samtímans. Hann mun leika ekki einn, ekki tvo heldur þrjá ólíka flautukonserta á sömu tónleikum (Saint-Saëns, Toru Takemitsu og Cecile Chaminade) strax í september. Þá kemur rússnesk-bandaríski píanóleikarinn Kirill Gerstein í heimsókn í október en hann leikur þá þriðja píanókonsert Rakhmanínovs. Á sömu tónleikum verður flutt svíta úr Rómeó og Júlíu eftir Prokofíev ásamt nýlegu verki eftir Jennifer Higdon, blue cathedral; Stéphane Denève stjórnar. Ég er viss um að bekkurinn verður þétt setinn á þessum tónleikum.

Það sama má segja um tónleika í febrúar með breska píanistanum Benjamin Grosvenor sem flytur sjaldheyrðan píanókonsert ásamt hljómsveitinni og Karlakórnum Fóstbræðrum eftir Ferruccio Busoni og mun það vera frumflutningur hér á landi. Segja má að píanókonsert hans sé án efa eitt af stórbrotnustu og umfangsmestu verkum sinnar tegundar í sögunni en það er Kornilios Michailidis sem heldur um tónsprotann.

Þá snýr austurrísk-íranski sellóistinn Kian Soltani aftur í Hörpu og leikur nú hinn rómaða sellókonsert Elgars í október á tónleikum sem Eva Ollikainen stjórnar en þar flytur hljómsveitin einnig forleikinn að Parsifal eftir Wagner og hina viðamiklu AION-sinfóníu eftir Önnu Þorvaldsdóttur.

Þá koma hljómsveitarstjórar á borð við Ludovic Morlot og Thomas Søndergård í heimsókn. Morlot stjórnar meðal annars flutningi á fiðlukonserti Mendelssohns með Vadim Gluzman í einleikshlutverkinu í febrúar. Søndergård, sem tók einmitt við af Osmo Vänskä í Minnesota, stjórnar til að mynda sjöttu sinfóníu Sibelíusar og sönglögum eftir Grieg með Arnheiði Eiríksdóttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí. Arnheiður gat sér gríðarlega gott orð í uppfærslu Íslensku óperunnar á Madama Butterfly og það verður því gaman að heyra í henni með sína dökku mezzósópranrödd með hljómsveitinni næsta vor.

Hér er loks ekki hægt annað en að minnast á The King‘s Singers sem koma fram með hljómsveitinni á tvennum aðventutónleikum í lok nóvember en hópurinn hefur tvívegis sungið á Íslandi við miklar vinsældir, fyrst á Listahátíð í Reykjavík 1989 og síðan í Hörpu og Skálholti 2015.

Nýstárleg verk á dagskránni

Meðal þess sem ég varð var við þegar ég las efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á næsta starfsári var fjöldinn af „nýrri“ verkum sem verða flutt og þá á ég við frá og með 20. öldinni. Strax á upphafstónleikunum í september hljóma verk eftir Daníel Bjarnason, Anders Hillborg, Sofiu Gubaidulinu og Igor Stravinskíj. Þá er boðið upp á úrval verka á tímabilinu eftir tónskáld á borð við Toru Takemitsu, Önnu Þorvaldsdóttur, Jennifer Higdon, Veronique Vöku, Philip Glass, Hafliða Hallgrímsson og Bo Holten svo einhver tónskáld séu nefnd. Allt er þetta í bland við verk tónskálda eins og Mozarts, Beethovens, Dvoráks, Brahms, Bruckners, Wagners og Mahlers.

Barbara Hannigan snýr aftur

Það eru engar ýkjur þegar því er haldið fram að kanadíski hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan hafi slegið í gegn í bæði skiptin sem hún hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún kom fyrst fram á tónleikum með sveitinni vorið 2022 og kom svo aftur fram í júní sl. Í apríl á næsta ári kemur hún svo í þriðja skiptið og flytur þá margrómaða konsertuppfærslu sína á Mannsröddinni, óperueinleik Francis Poulencs, ásamt því að stjórna síðasta tónaljóði Richards Strauss, Metamorphosen. Þetta eru tónleikar sem ég hygg að fáir vilji láta fram hjá sér fara.

Staðarlistamaður

Á næsta starfsári er bandarísk-kanadíski fiðlusnillingurinn Leila Josefowicz staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og kemur hún fram á þrennum tónleikum, tveimur með hljómsveitinni og einum einleikstónleikum. Hún leikur annan fiðlukonsert Bartóks í nóvember og svo fiðlukonsert eftir Helen Grime í janúar. Í sama mánuði heldur svo Josefowicz spennandi einleikstónleika þar sem hún býður upp á tvö „snilldarleg einleiksverk fyrir fiðlu, aðskilin af 250 árum“, eins og hún lýsir því sjálf: Teikningu fyrir einleiksfiðlu eftir Matthias Pintscher og svo Partítu fyrir einleiksfiðlu nr. 2 eftir Bach. Josefowicz var undrabarn á fiðluna, hefur að miklu leyti helgað sig samtímatónlist og frumflutt verk tónskálda á borð við John Adams, Thomas Adès, Esa-Pekka Salonen og Oliver Knussen.

Staðartónskáld

Anna Þorvaldsdóttir hefur gegnt hlutverki staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2018. Hlustendur fá að heyra úrval verka hennar á komandi tónleikaári, þar á meðal fyrrnefnda AION-sinfóníu og heimsfrumflutning á verkinu METAXIS þar sem alrými sjálfrar Hörpu er í burðarhlutverki. Anna lýsir verkinu sjálf sem innsetningu fyrir tvístraða hljómsveit, rafhljóð og rými en í verkinu er hljómsveitinni skipt upp í nokkra misstóra hljóðfærahópa og koma þeir sér fyrir á mismunandi stöðum í hinu opna rými Hörpu. Þessir tónleikar eru á dagskrá opnunarhátíðar Listahátíðar í Reykjavík í júní. Þá verða spennandi tónleikar haldnir í Hallgrímskirkju í Föstudagsröðinni í október þar sem verkin METACOSMOS, Ad Genua og ARCHORA eru á efnisskránni auk kórverksins Heyr þú oss himnum á sem Kór Hallgrímskirkju flytur.

Mahler á Listahátíð í Reykjavík

Sinfóníuhljómsveit Íslands tekur þátt í fleiri viðburðum á Listahátíð í Reykjavík en hinn 6. júní flytur sveitin þriðju sinfóníu Mahlers, risavaxið verk fyrir stóra hljómsveit, einsöngvara og tvo kóra; Eva Ollikainen stjórnar. Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og eru jafnframt lokatónleikar sveitarinnar á tímabilinu. Þriðja sinfónía Mahlers er lengsta sinfónían sem samin hefur verið sem enn er reglulega á efnisskrá sinfóníuhljómsveita um heim allan. Hún er eftirlæti margra Mahler-áhugamanna og hér má því búast við að slegist verði um miðana.

Af nokkrum íslenskum flytjendum

Daníel Bjarnason er meðal hljómsveitarstjóra (og tónskálda) næsta vetur en hann stjórnar þrennum tónleikum, þar á meðal Glass og Elgar. Þá syngja þær Bryndís Guðjónsdóttir og fyrrnefnd Arnheiður Eiríksdóttir með hljómsveitinni. Loks má nefna að þær Vera Panitch, annar konsertmeistari, og Arngunnur Árnadóttir, leiðandi klarínett, standa á næsta tímabili fyrir framan hljómsveitina og leika einleik, Vera í Nielsen og Arngunnur í Messiaen og Debussy. Það verður spennandi.

Fjölskyldutónleikar og annað af léttara tagi

Strax á Menningarnótt í ágúst verður opið hús hjá hljómsveitinni með léttri dagskrá. Undir lok mánaðarins koma þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson fram og svo verður kvikmyndatónleikaveisla haldin í byrjun september. Af öðru má nefna til að mynda samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands við Iceland Airwaves í nóvember en þar kemur Ásgeir Trausti fram með hljómsveitinni, Fílalag (Bergur Ebbi og Snorri Helgason) og Sinfóníuhljómsveit Íslands, einnig í nóvember, og svo loks Jón Ásgeir og Gjörningaklúbbinn á Myrkum músíkdögum í janúar. Þá eru bæði Ungsveitin (Berlioz) og Hljómsveitarstjóra-akademían á sínum stað, sem og Barnastund Sinfóníunnar. Þá eru hinir sívinsælu Vínartónleikar á dagskránni, venju samkvæmt, í janúar. Af fleiru mætti taka.

Með hverju mæli ég?

Efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2023/2024 er sannarlega fjölbreytt. Þeir tónleikar sem ég ætla örugglega að sjá eru í september (Pahud), október (Soltani, Anna Þorvaldsdóttir í Hallgrímskirkju, Gerstein), nóvember (Josefowicz, The King‘s Singers), janúar (tvenna tónleika með Josefowicz), febrúar (Grosvenor, Gluzman), mars (Perianes), apríl (Hannigan) og júní (Mahler nr. 3) – og ef til vill eitthvað fleira.

Höf.: Magnús Lyngdal