Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Jú, stutta svarið er að lúpínan hopar,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga, spurður að því hvort lúpínan sé að lúta í lægra haldi fyrir öðrum jurtum líkt og skógarkerflinum sem sést nú víða um borgina.
„Hún er að hopa alstaðar en það tekur bara mismarga áratugi. Þar sem er þurrt, eins og austur á Rangárvöllum, uppi í Þjórsárdal eða norður á Hólasandi, er hún byrjuð að hopa eftir tíu til fimmtán ár. Þá er kominn heilmikill gróður og gras inni á milli en þar sem er frjósamara og meiri úrkoma eins og niðri við sjó, á Skógarsandi, austur í Öræfum eða Skaftafelli, þar tekur þetta lengri tíma. Það gæti tekið áratugi þar til kominn er annar gróður þar.“
Að sögn Hreins kemur lúpínan þó ekki til með að hverfa alveg þar sem enn er nóg af svæðum sem enn eru ekki gróin og því pláss fyrir hana til að sækja fram.
„Aftur á móti, þar sem henni var sáð fyrst, þar er hún í raun horfin og kominn kannski skógur og alls konar blómjurtir, hrútaber, jarðarber og ýmislegt sem hún skapar skilyrði fyrir.“
Reykjavíkurborg hyggst ráðast í aðgerðir gegn ágengum plöntum í sumar og verður þá einkum horft á valin svæði, til að mynda leiksvæði. Hreinn segist skilja vel að fólk vilji halda aftur af lúpínunni, sér í lagi í kringum göngustíga og útivistarsvæði.
„Auðvitað vill fólk hafa pláss til að ganga um en á endanum sér lúpínan um þetta sjálf, hún hverfur á einhverjum áratugum og þá verður kominn annar gróður í staðinn.“
Tröllahvönn og skógarkerfill breiðast út
Lúpínan er þó ekki eina jurtin sem fólk hefur áhyggjur af. Tröllahvönn og skógarkerfill eru þar á meðal líka. Að sögn Hreins er kerfillinn næringarfrek tegund en hann hefur verið að ryðja sér rúms víðs vegar um borgina og þá meðal annars þar sem lúpínan er þegar til staðar.
„Kerfillinn þarf góða næringu og þar sem lúpínan hefur verið í einhver ár er komin góð næring. Lúpínan bindur nitur úr andrúmsloftinu og dregur fosfór upp úr jarðveginum en það eru einmitt þessi tvö næringarefni sem vantar almennt í jarðveg á Íslandi. Lúpínan í rauninni skaffar það svo þegar hún er búin að vera í einhver ár er kominn frjósamur jarðvegur undir og þá koma þessar jurtir sem vilja betri skilyrði.“ Hreinn telur ekki ástæðu til þess að hafa áhyggjur af útbreiðslu lúpínunnar og skógarkerfilsins á höfuðborgarsvæðinu.
„Í sambandi við að eyða lúpínu, það er bara útilokað. Við höfum frekar verið að reyna að nýta lúpínuna. Þar sem er mikil lúpína höfum við verið að gróðursetja inn í hana, nota lúpínuna á jákvæðan hátt til að auðvelda skógrækt á landi sem var alveg handónýtt. Það væri í rauninni peningasóun að ætla að eyða henni í borginni. Það er auðvitað hægt á afmörkuðum svæðum, þar sem fólk vill alls ekki hafa hana, en að ætla að ráðast á stór svæði í kringum Reykjavík er bara útilokað. Það þarf frekar að finna leið til að nýta hana og gróðursetja inn í hana ef menn vilja nýta hana í skógræktinni.“
Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, segir að einblínt verði á að reyna að stöðva útbreiðslu nokkurra ágengra plantna.
„Þær tegundir sem við erum að horfa til eru lúpínan og svokallaðar tröllahvannir. Við höfum ekkert gert við kerfilinn enda vitum við ekki hvað við getum gert við hann en hann er að breiðast út í borgarlandinu. Markmiðið er að slá lúpínuna á nokkrum völdum stöðum þar sem er náttúrulegt holt og lúpínan er í framrás. Þá er hægt að hægja á framrásinni eða stöðva hana tímabundið,“ segir hann og bætir því við að óraunhæft sé að útrýma lúpínunni alveg, þar sem hún sé víða. „Það hefur reynst vel að slá lúpínuna á meðan hún er í fullum blóma en auðvitað koma endalaus fræ svo þetta er verk sem þarf að endurtaka. En þetta er að minnsta kosti á áætlun hjá okkur í sumar.“