Leifsstöð Nýtt innheimtukerfi fyrir bílastæði er í undirbúningi.
Leifsstöð Nýtt innheimtukerfi fyrir bílastæði er í undirbúningi. — Morgunblaðið/Eggert
Nýtt bílastæðakerfi við Leifsstöð hefur vakið spurningar um hvort gengið væri á ákvæði persónuverndar. Í stað þess að taka miða við bílastæðahlið eða álíka þá opnast hliðið fyrir öllum og mynd er tekin af viðkomandi bílnúmeri

Þorlákur Einarsson

thorlakur@mbl.is

Nýtt bílastæðakerfi við Leifsstöð hefur vakið spurningar um hvort gengið væri á ákvæði persónuverndar. Í stað þess að taka miða við bílastæðahlið eða álíka þá opnast hliðið fyrir öllum og mynd er tekin af viðkomandi bílnúmeri. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia verður í framhaldinu hægt að greiða í símanum með Autopay eða Parka. Einnig verða áfram sjálfsalar á svæðinu fyrir þá sem vilja greiða með hefðbundnari hætti. Sé engin greiðsla innt af hendi verður krafa sent í heimabanka viðkomandi.

Persónuvernd hefur ekki fengið þetta tiltekna mál til skoðunar og gat því aðeins svarað fyrirspurnum mbl.is á almennum nótum.

Í svari frá Helgu Sigríði Þórhallsdóttur hjá Persónuvernd, segir að „hvort vöktun af þessu tagi er lögleg þarf því alltaf að meta í hverju tilviki fyrir sig og skoða hvort skilyrði laganna, til dæmis um fræðslu og upplýsingagjöf, eru uppfyllt, en það getur verið misjafnt.“

Í svari Persónuverndar kemur skýrt fram að mikilvægt sé að notendur sjái greinilega að vöktun eigi sér stað og hver sé ábyrgðaraðili hennar.

Gögnum eytt eftir greiðslu

Talsmaður Isavia sagði í samtali við mbl.is að upplýsingar um bílnúmer séu geymdar eins lengi og þær hafi tilgang við innheimtu gjalds. Þeim sé þannig eytt strax og greiðsla hefur verið innt af hendi. Isavia hafi persónuverndarfulltrúa starfandi innanhúss til að gæta þess að rétt sé að málum staðið.

Isavia bendir á að myndavélar hafi verið á bílastæðum í nokkurn tíma og hafa verið hluti af öryggisvöktun svæðanna.

Höf.: Þorlákur Einarsson