Við verðlaunaafhendinguna Sigurgeir Skafti og Unnur Birna með verðlaunagripinn eftir listakonuna Andrínu.
Við verðlaunaafhendinguna Sigurgeir Skafti og Unnur Birna með verðlaunagripinn eftir listakonuna Andrínu. — Ljósmynd/Hveragerðisbær
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Menningar, íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðisbæjar veitti á dögunum Unni Birnu Björnsdóttur, fiðluleikara og söngkonu, og Sigurgeiri Skafta Flosasyni, framkvæmdastjóra SUB og hátíðarinnar Allt í blóma, menningarverðlaun Hveragerðisbæjar

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Menningar, íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðisbæjar veitti á dögunum Unni Birnu Björnsdóttur, fiðluleikara og söngkonu, og Sigurgeiri Skafta Flosasyni, framkvæmdastjóra SUB og hátíðarinnar Allt í blóma, menningarverðlaun Hveragerðisbæjar.

Unnur Birna og Sigurgeir Skafti hafa búið saman í Hveragerði síðan árið 2017. Að sögn Unnar Birnu er dásamlegt að búa í Hveragerði en þeim var strax tekið opnum örmum og vilja hvergi annars staðar vera.

Ekki sjálfsagt að vera vel tekið

„Það var svo sannarlega dásamlegt að hljóta þessi verðlaun og maður er svo þakklátur því það er ekki sjálfsagt að manni sé svona vel tekið þegar maður flytur í nýjan bæ. Hveragerði er bara svo opinn og frábær bær, hér líður okkur mjög vel,“ segir Unnur Birna og bætir við að tækifærin séu líka mörg í svona litlu bæjarfélagi því ef það vanti eitthvað upp á sé kjörið bæta úr því.

„Þegar maður býr á stað sem manni líkar svona vel og finnst eitthvað vanta þá hugsar maður bara með sér: „Gerum þetta bara, búum þetta til.“ Sigurgeir er líka þannig að hann er svo drífandi að stundum fæ ég hálfgert sjokk þegar hann fær hugmyndir.“

Sem dæmi nefnir Unnur Birna hátíðina Allt í blóma en hún var haldin í þriðja sinn um síðastliðna helgi. Að hennar sögn tókst hátíðin mjög vel enda fjöldi fólks sem sótti bæinn heim en áður var hátíðin Blóm í bæ haldin árlega í Hveragerði. Hún lagðist hins vegar af árið 2019 en þá greip parið tækifærið og skipulagði nýja hátíð.

„Sigurgeiri fannst alveg glatað að hátíðin skyldi hætta svo hann fékk þá hugmynd að taka hátíðina, stækka hana og svolítið endurvekja. Þegar við gerðum þetta fyrst datt mér nafnið Allt í blóma í hug þar sem það er allt í blóma í júní, sérstaklega hér í Hveragerði.“

Fyrir utan það að halda utan um og skipuleggja eina stærstu sumarhátíð landsins hefur parið í mörgu að snúast en saman hafa þau eflt tónlistarlífið í Hveragerði og komið fram á hinum ýmsu hátíðum í bænum. Að sögn Unnar Birnu á tónlistin hug hennar og hjarta en hún vinnur meðal annars við kennslu ásamt því að stýra Jórukórnum á Selfossi og barnakór Hveragerðiskirkju. Þá rekur parið einnig saman fyrirtækið SUB ehf. sem er viðburðastjórnunarfyrirtæki og hljóðkerfaleiga.

Draumurinn að opna menningarhús

Unnur Birna segir fjölmargt á döfinni hjá þeim í sumar en á laugardögum og sunnudögum bjóða þau upp á Suðurlandsdjass sem fram fer bæði í Hveragerði og á Selfossi.

„Við erum í Tryggvaskála á Selfossi á laugardögum og í Reykjadalsskála í Hveragerði á sunnudögum. Þetta eru fríir djasstónleikar í boði SUB og SASS, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, en þau gáfu okkur styrk fyrir þessum tónleikum sem verða út sumarið. Vonandi er þetta þó komið til að vera, að bjóða upp á háklassa menningarviðburð í heimabyggð,“ segir Unnur Birna og bætir við að einnig séu þau þessa dagana að leita að fjárfestum til að kaupa Skyrgerðina í Hveragerði. Þá sé draumurinn að opna þar menningarhús með fjölþætta nýtingu.

„Það þarf menningarhús í bæinn, það er í raun alveg glatað að það sé ekki eitt slíkt í svona miklum menningarbæ. Skyrgerðin er til sölu og hentar fullkomlega fyrir alls konar, það er til dæmis hægt að hafa þarna dansskóla svo ekki þurfi að skutla börnunum til Reykjavíkur en þarna gæti verið heilt menningarhús. Ef einhver er til í að taka þátt í því með okkur þá erum við til. Við viljum hafa þetta einfalt og sækja þjónustuna hingað svo við þurfum ekki að fara of langt í burtu. Þetta er í rauninni það eina sem vantar,“ segir Unnur Birna og nefnir að lokum að bærinn sé stútfullur af hæfileikaríku listafólki eins og Andrínu Guðrúnu Jónsdóttur sem sá um að hanna menningarverðlaunagripinn í ár.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir