Hrafnar Viðskiptablaðsins krunkuðu eftirfarandi í liðinni viku:

Hrafnar Viðskiptablaðsins krunkuðu eftirfarandi í liðinni viku:

„Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá sérstöku uppboði á fasteign í eigu öryrkja í Keflavík í kvöldfréttum á þriðjudag. Viðkomandi hafði ekki greitt af tryggingum og gjöldum af húsinu um árabil, með þeim afleiðingum að sýslumaður bauð húsið upp. Það fór á þrjár milljónir í uppboðinu en markaðsverðið er talið vera nær 60 milljónum. Fréttin vakti mikla athygli og frelsiblys á þingi voru fljót til að stökkva á málið. Björn Leví Pírati boðaði lyklafrumvarp og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, talaði um sinnuleysi bæjaryfirvalda í „örsamfélagi“. Hrafnarnir benda þeirri síðarnefndu á að Reykjanesbær er fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins en hvað um það.

Daginn eftir leitaði fréttastofa Stöðvar 2 viðbragða hjá Friðjóni Einarssyni, formanni bæjarráðs. Hann sagði að bæjaryfirvöld hefðu ekkert vitað um málið þar til fréttir af því bárust. En það vakti athygli hrafnanna að Friðjón vandaði ekki þingmönnunum kveðjurnar: „Lögin eru nú bara svona og sýslumaður fer eftir lögunum.

Það er auðvelt að slá sig til riddara núna og fara í fjölmiðla. Ég sé ekki þessa þingmenn koma hlaupandi í öll þau einstaklingsmál sem við eigum við að etja hérna nema ef það fer í sjónvarpið eins og gerðist þarna.“ Svo mörg voru þau orð.