Tónleikar Tónlistarhátíð Kótelettunnar þykir einstök fyrir þær sakir að þar spila tónlistarmenn fram á rauðanótt og hefur selst upp á hátíðina undanfarin tvö ár.
Tónleikar Tónlistarhátíð Kótelettunnar þykir einstök fyrir þær sakir að þar spila tónlistarmenn fram á rauðanótt og hefur selst upp á hátíðina undanfarin tvö ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistar-, fjölskyldu- og BBQ-hátíð Kótelettunnar fer fram næstkomandi helgi á Selfossi en K100 ætlar að hækka í gleðinni og tekur þátt í hátíðarhöldum morgundagsins. Þau Ásgeir Páll og Regína Ósk verða í beinni útsendingu frá Selfossi með þátt…

Eva Sóldís Bragadóttir

eva@mbl.is

Tónlistar-, fjölskyldu- og BBQ-hátíð Kótelettunnar fer fram næstkomandi helgi á Selfossi en K100 ætlar að hækka í gleðinni og tekur þátt í hátíðarhöldum morgundagsins. Þau Ásgeir Páll og Regína Ósk verða í beinni útsendingu frá Selfossi með þátt sinn Skemmtilegri leiðin heim og halda uppi fjörinu. Munu þau fá til sín góða gesti, meðal annars forsöngvara Stuðlabandsins, Magnús Kjartan.

Hafa gaman og koma saman

Kótelettan hefur nú verið haldin annan laugardag júlímánaðar ár hvert í 13 ár.

„Það var bara þessi þrá að hafa gaman, koma saman, borða og skemmta sér,“ segir Einar Björnsson, framkvæmdastjóri Kótelettunnar, í samtali við Morgunblaðið, spurður hvað skipuleggjendur hafi haft í huga þegar hugmyndin að hátíðarhöldunum varð til. „Það tókst líka. Þrettán árum seinna erum við hérna og það stefnir í að uppselt verði á tónlistarhátíðina núna þriðja árið í röð,“ bætir hann við.

Tónlist fram á rauðanótt

Viðburðir Kótelettunnar eru fjölbreyttir og ættu allir að geta fundið eitthvað fyrir sinn snúð á Selfossi þessa helgina. Að sögn Einars kemur tónlistarhátíðin mörgum á óvart. „Það er dálítið sérstakt að geta verið með þannig aðstæður að við erum að spila alveg á fullu gasi langt fram á nótt og allir skemmta sér ótrúlega fallega og vel,“ segir hann. Þess má geta að síðustu flytjendur tónlistarhátíðarinnar stíga á svið stuttu fyrir kl. 04 eftir miðnætti. Munu margir helstu tónlistarmenn landsins koma fram á viðburðinum, meðal annars GDRN, Jón Jónsson, Herra Hnetusmjör, Bríet og Friðrik Dór.

Frítt á fjölda viðburða

Einar brýnir fyrir fólki að þó að tónlistarhátíðin sé skemmtileg, þá sé ekki síður gaman á öðrum viðburðum Kótelettunnar. Tekur hann þá fram að greiða þurfi aðgangseyri inn á tónlistarhátíðina en á alla aðra viðburði sé frítt inn. „Öll fjölskylduhátíðin, öll þessi risastóra dagskrá sem er á laugardeginum, á hana er frítt,“ segir hann en fyrri part laugardagsins fer fram árleg góðgerðarsala á kótelettum til styrktar krabbameinssjúkum börnum og Stóra grillsýningin. Á sýningunni koma fram allir helstu grillframleiðendur landsins, sýna sín nýjustu grill og leyfa fólki að prófa. Þá kynna líka kjötframleiðendur sínar afurðir og „það besta á grillið“ þetta sumarið.

Telur hann upp fjölda skemmtana til viðbótar við grillsýninguna sem fara fram fyrri part laugardags: „Fólk dansar, syngur, borðar, smakkar, kynnir og keppir hér.“ Greinir hann frá þremur keppnum sem fara fram um helgina. Verða þá Grillpylsa og Grillmeistari ársins 2023 útnefnd og verðlaun veitt fyrir flottustu grillveisluna.

Gestir skuli velja Þrengslin

„Áttatíu prósent gesta okkar eru höfuðborgarbúar þannig að við reynum að minna fólk á að taka Þrengslin en ekki Hellisheiðina,“ segir hann og bætir við að leiðin þar sé mun greiðari enda myndist gjarnan stífla vegna brúarinnar yfir Ölfusá sem nái upp á heiði. Segir hann mikilvægt að reynt sé að koma í veg fyrir slíka stíflu. „Við mælum allan daginn með því að fólk taki Þrengslin, það er miklu fljótara,“ segir Einar.

Höf.: Eva Sóldís Bragadóttir