Guðmann Agnar Óskarsson Levy fædist 16. ágúst 1955 á Ósum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu og ólst þar upp. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut á 24. júní 2023.

Foreldrar hans voru Óskar Eggertsson Levy, f. 23. febrúar 1913, d. 15. mars 1999, bóndi á Ósum og alþingismaður og kona hans Sesselja Hulda Eggertsdóttir, f. 19. apríl 1936, húsmóðir. Systkini Guðmanns eru: Jónína Edda, f. 18. apríl 1951, eiginmaður hennar er Guðmundur Víðir Guðmundsson, f. 25. apríl 1949, og Knútur Arnar, f. 18. apríl 1969. Guðmann á tvo syni með Ólöfu Svövu Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu sinni. 1) Fannar, f. 12. september 1985, eiginkona Fannars er Snædís Jónsdóttir, f. 22. desember 1986 og eiga þau börnin Eldar Jón, f. 7. maí 2016, og Emilíu Íseyju, f. 10. júlí 2018. 2) Ísak, f. 15. júlí 1989, unnusta Ísaks er Margrét Erla Björgvinsdóttir, f. 23. apríl 1993, og eiga þau börnin Snorra Björgvin, f. 28. júní 2020, og Sóleyju Maríu, f. 3, apríl 2023. Guðmann var búsettur í Reykjavík og vann fjölbreytt störf. Synirnir og barnabörnin voru hans augasteinar og það mikilvægasta í lífinu.

Útför fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 6. júlí 2023, kl. 13.

Lífið verður ekki samt án elsku pabba sem ávallt var fyrstur til að rétta fram hjálparhönd og dekra við okkur bræðurna og fjölskylduna.

Einn af hornsteinum í persónuleika pabba var hvernig hann fór sínar eigin leiðir í lífinu, var ekki að bera sig saman við aðra eða hafa áhyggjur af því hvernig aðrir upplifðu hlutina og fór ekki farna veginn frekar en hann vildi. Metsölubækur um núvitund fjalla eflaust um hvernig lifa eigi lífinu svipað og hann pabbi gerði. Pabbi var líka svo góður að leysa hin ýmsu vandamál, hann var „allt mulig“-maður sem hefði getað græjað opna hjartaaðgerð með heftibyssu, WD-40 og kítti.

Hann var alltaf til í ævintýri og sagði já við flestu, uppalinn í sveit og vildi sjá heiminn, með mikla ferðaþrá en eftir að ég og bróðir minn komum til sögunnar festust landfestarnar þó betur við Ísland. Hann var þó alltaf duglegur að prófa ýmsa hluti og stundaði fjallgöngu, fjallaskíði, golf, hlaup og hljóp meira að segja maraþon sextugur.

Pabbi var alltaf dýrari týpan – án þess að vera dýra týpan. Dreymdi um að eiga hús í ítölsku smáþorpi þar sem hann gat horft á sólsetrið drekkandi sitt eigið rauðvín með ostum og kryddpylsu. Þrátt fyrir þessa drauma þá var hann nægjusamur með meiru og eyddi sjaldnast í sjálfan sig. Vildi frekar gefa þeim sem stóðu honum næst allan heiminn og gaf veglegustu og bestu gjafirnar. Að sama skapi var ekki til þakklátari maður yfir smá greiðum eða matarboðum.

Pabbi lifði fyrir hvern dag, var sinn eigin herra og hafði ekki áhyggjur af því sem var í bakspeglinum eða framundan. Aldrei reiður eða pirraður, þegar við vorum krakkar þá man ég ekki eftir einu einasta skipti þar sem hann var reiður eða skammaðist í okkur heldur tæklaði hann málin með jafnaðargeði.

Pabbi setti þá sem stóðu honum næst í fyrsta sætið og var alltaf að hugsa um okkur strákana og verja. Þegar hann fór í gegnum sjúkdómsferlið þá varðist hann áhyggjum og spurningum eins og þaulreyndur pólitíkus, passaði að gefa ekki svartari sýn af ástandinu en þörf var á og gaf voninni væng.

Í afahlutverkinu geislaði hann og krakkarnir elskuðu hann svo mikið enda besti afi sem hægt var að hugsa sér. Lá í gólfinu og lék við krakkana eins og jafnaldri og töfraði fram orku til að leika eins og barn og krakkarnir vildu alltaf vera hjá honum þegar hann var nálægt og vildu hafa hann með í öllu sem við gerðum. Þegar pabbi fór í gegnum erfiða lyfjameðferð þá tók hann það sérstaklega fram við mig að hann væri í þessum bardaga til að geta verið lengur með barnabörnunum. Það væru þau sem gæfu lífinu lit og tilgang. Á erfiðustu tímunum voru bestu verkjalyfin heimsóknir frá þeim sem gáfu honum styrk í bardagann.

Að hafa svona jafnaðarklett sér við hlið gegnum lífsins áskoranir og viðfangsefni hefur verið ómetanlegur styrkur fyrir mig og bróður minn gegnum árin. Það verður ekki það sama að þurfa að skipta um vask, leggja parket eða að hafa pabba til að róa okkur niður þegar eitthvert lífsins viðfangsefni vefst fyrir okkur.

Elskum þig til tunglsins og til baka.

Þinn sonur,

Fannar.

Forlögin við frændi minn,

finnst mér erfitt glíma,

en allir hafa eitthvert sinn,

áætlaðan tíma.

Við það una verðum sátt,

varla hægt að breyta,

því um að ræða æðri mátt,

sem undan má síst leita.

Ég þakka fyrir þína ferð,

þú varst drengur góður,

einstakur að allri gerð,

enginn þar á ljóður.

Aðstandendum öllum við,

okkar kveðjur sendum,

er hann á æðra heldur svið,

á himnaríkis lendum.

Hlíf og Agnar Hrísakoti.

Sorgleg fréttin af ótímabæru fráfalli hans Guðmanns, Manna, færði hugann nokkra áratugi aftur í tímann. Til baka til þess tíma þegar ég hitti Manna næstum daglega þegar hann og Ólöf vinkona mín rugluðu saman reytum. Eftir að þau slitu samvistum minnkuðu samskiptin, eins og gengur. Myndin sem kemur upp í hugann er af glaðlegum og gefandi manni, ljósum yfirlitum og mjög oft brosandi enda stutt í húmorinn hjá honum. Í einni minningarmyndinni erum við vinahópur á leið í miðbæinn á mildum rigningardegi, vorið er í loftinu, það var frídagur og við öll frekar kát. Þá verður mér að orði að lyktin af nýföllnu regninu á malbikinu minni mig á að sumarið sé rétt handan við hornið. Þá kímir Manni og lætur þau orð falla að skondinn sé sumarboði borgarbúans. Hans sumarboði var af öðrum toga, sveitin og náttúran var hans tenging við árstíðirnar. Manni var mikið náttúrubarn og ósjaldan hvatti hann okkur vinahópinn til að koma með sér að njóta náttúrunnar, komast út úr borginni, hvort sem var upp á fjall eða út í fjöru. Svo var það sveitin hans, hinir fallegu Ósar með sínum tignarlega Hvítserk, selum í fjöru og fjörmiklu fuglalífi við bæjardyrnar. Þangað var okkur vinunum boðið og þar nutum við mikillar gestrisni fjölskyldu hans. Ég verð Manna og Sesselju móður hans eilíflega þakklát fyrir að hafa fóstrað hundinn minn Tító sem ég rúmlega tvítug tók að mér í hvatvísi minni, vitandi að ég stefndi á að leggja land undir fót og halda út í heim, þangað sem hundar voru lítt velkomnir. Tító lifði góðu og löngu lífi á Ósum og undi þar hag sínum einkar vel.

Manni skilur eftir sig stórt skarð hjá fjölskyldu sinni. Hann var sonum sínum yndislegur pabbi og barnabörnunum sömuleiðis góður afi. Þau munu án efa halda minningu hans á lofti um ókomna tíð. Ég sendi fjölskyldu Manna mínar dýpstu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum, blessuð sé minning hans.

Sigríður Ragnarsdóttir.