Jakkaföt Hlaupahópurinn BOSS HHHC er lítið þekktur fyrir venjuleg hlaupaföt, því þeir hafa kosið að hlaupa í jakkafötum frá Boss.
Jakkaföt Hlaupahópurinn BOSS HHHC er lítið þekktur fyrir venjuleg hlaupaföt, því þeir hafa kosið að hlaupa í jakkafötum frá Boss. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hlaupahópurinn BOSS HHHC, eða „hraðasti hlaupahópur landsins“ eins og þeir segja sjálfir, ætlar að hlaupa sex maraþon á sex dögum fyrir Kraft, í minningu Ingu Hrundar Kjartansdóttir sem lést af völdum krabbameins á síðasta ári

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Hlaupahópurinn BOSS HHHC, eða „hraðasti hlaupahópur landsins“ eins og þeir segja sjálfir, ætlar að hlaupa sex maraþon á sex dögum fyrir Kraft, í minningu Ingu Hrundar Kjartansdóttir sem lést af völdum krabbameins á síðasta ári.

Hópurinn samanstendur af 17 hlaupurum á besta aldri, sem hafa hlaupið saman í nokkur ár að sögn Péturs Ívarssonar, hlaupara úr hópnum. Í þrígang hefur hópurinn hlaupið saman í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, alltaf fyrir mismunandi málefni. Það sem er einkennandi fyrir hópinn er þó að þeir hafa ekki hlaupið í venjulegum hlaupafötum heldur í jakkafötum frá Boss.

Í ár hafa þeir ákveðið að fara enn óhefðbundnari leið og ætla því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþonið frá Akureyri, að sögn Péturs. Eða frá Akureyri í Laugardalshöllina þar sem afhending gagna fyrir hlaupið fer fram.

Vegalengdin frá Akureyri í Laugardalshöllina, um Hvalfjörðinn, er 420 km. Leiðina ætla þeir að hlaupa á fimm dögum og kemur því hver og einn til með að hlaupa heilt maraþon á hverjum degi, þeir munu þó skiptast á að hlaupa enda um 84 km leið sem þarf að fara dag hvern.

Þar sem snyrtilegur klæðnaður hópsins er alltaf í fyrirrúmi, koma þeir til með að hlaupa leiðina í jakkafötum frá Boss og verður hraðinn því ekki aðalatriðið þó þeir muni leggja sig alla fram.

Hlaupa fyrir Kraft

Stefnan er sett á að hlaupa af stað frá Akureyri mánudaginn 14. ágúst og enda hlaupið á því að sækja hlaupagögn fyrir Reykjavíkurmaraþonið, í Laugardalshöllinni, föstudaginn 18. ágúst. Á laugardeginum koma þeir síðan til með að hlaupa sjötta og síðasta maraþonið í hópi hlaupara Reykjavíkurmaraþonsins.

Fimm ár liðin frá því að Boss-hópurinn kom síðast saman og hljóp til styrkar málefni í Reykjavíkurmaraþoninu að sögn Péturs.

Hlaupið í ár hefur þó tilfinningalegt gildi því þeir ætla að hlaupa fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, í minningu Ingu Hrundar sem var eiginkona Rúnars Marinós Ragnarssonar, sjúkraþjálfara og félaga þeirra. Vilja þeir í leiðinni tileinka hlaupið öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein.

Hægt er að heita á hlaupahópinn BOSS HHHC á síðunni hlaupastyrkur.is.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir