Hvers vegna er hagsmuna Íslendinga ekki betur gætt?

Evrópusambandið slær ekki slöku við framleiðslu á nýju og auknu regluverki. Virðist sem slíkri framleiðslu séu engin takmörk sett. Ísland er svo ekki síður duglegt að innleiða reglurnar, og jafnvel þó að þær eigi ekki við hér á landi eða séu beinlínis skaðlegar. Hér er af einhverjum ástæðum jafnan sagt já við öllu sem frá Brussel kemur þó að engin þörf sé á.

Þetta er þó ekki allt; hér er jafnvel gengið enn lengra en krafist er af bákninu í Brussel. Dæmi um þetta eru nefnd í nýrri greiningu frá Viðskiptaráði sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær. Í umfjöllun Viðskiptaráðs kemur fram að tilskipun um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga hafi verið innleidd með víðtækara gildissviði hérlendis en í ríkjum ESB, sem hafi orðið til þess að tæplega átta sinnum fleiri íslensk fyrirtæki þurfi að fylgja reglunum en í öðrum ríkjum sem innleiddu regluverkið. Viðskiptaráð áætlar að kostnaður íslensks atvinnulífs vegna þessa hafi verið samtals um tíu milljarðar króna á undanförnum árum.

Enginn hefur getað útskýrt hvers vegna íslensk stjórnvöld láta slík vinnubrögð viðgangast og engin skýring hefur heldur fengist á því að þingmenn sætti sig við að vera ítrekað látnir stimpla slíka gjörninga. Vonandi verður greining Viðskiptaráðs til þess að vekja einhverja til umhugsunar um skaðsemi þessara vinnubragða.