— Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Umtalsverðrar bjartsýni hefur gætt í öllu mati á jarðhitakostum hér á landi í gegnum tíðina að því er fram kemur í samtölum Morgunblaðsins við fólk í orkugeiranum. Vísað er til þess að mælingar á virkjanasvæðum sýni ákveðnar tölur en erfitt sé að meta svæðin fyrr en byrjað er að reka þau. Þannig séu dæmi um að virkjanir skili mun minni orku en gert var ráð fyrir í rammaáætlun og jafnvel enn minni en uppgefin hámarksafköst gera ráð fyrir. Af þeim sökum hafi orkufyrirtæki borað víðar en upphaflega var áætlað til að halda framleiðslugetunni og leita í ný svæði til þess að halda núverandi virkjunum uppi, svæði sem upphaflega voru kannski hugsuð fyrir nýjar virkjanir.

Fyrir vikið telja margir viðmælendur blaðsins að geta Íslendinga til orkuframleiðslu hafi ef til vill verið ofmetin og því kunni framtíðarorkuþörf að hafa verið vanmetin. Er þar meðal annars vísað til aukinnar orkuþarfar vegna orkuskipta, fólksfjölgunar og síaukins ferðamannafjölda hérlendis.

Efla þarf rannsóknir

Árni Magnússon, forstjóri Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR), segir að frá upphafi hafi verið vitað að fylgjast yrði vel með stöðu mála og þróa svæðin eftir að farið væri að vinna á þeim. Það hafi að hluta verið gert en gera þurfi betur í þeim efnum. Hann leggur áherslu á að tímabært sé að kortleggja stöðuna. „Á tímum vaxandi orkuþarfar, meðal annars með tilliti til orkuskipta og fólksfjölgunar, þá er mjög mikilvægt að við eflum rannsóknir. Það á bæði við um þekkt jarðhitavinnslusvæði og utan þeirra. Þannig höfum við einhverja hugmynd um það hver auðlindin er og hvað við getum unnið úr henni.“

Þróun í takt við væntingar

Breki Logason, samskiptastjóri Orkuveitu Reykjavíkur, játar að síðasti vetur hafi verið erfiður þegar kom að því að sjá íbúum höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni. Hann vísar til áforma OR um vindorku þegar að afhendingu rafmagns kemur.

„Hingað til hafa orkuskiptin þróast í takt við okkar væntingar. Í maí á þessu ári náðum við t.d. einu af lykilmarkmiðum samstæðunnar sem snýr einmitt að fjölgun rafbíla hér á landi. Ef við horfum á afhendingu rafmagns til heimila þá höfum við mætt því mjög vel. Við höfum hins vegar fundið fyrir auknum áhuga á raforku, t.a.m frá fyrirtækjum. Í síðustu viku sögðum við frá áformum okkar þegar kemur að vindorku. Við erum að stíga fyrstu skrefin þar og kanna hvort við fáum umboð til þess að rannsaka þá kosti nánar og athuga hvort það hjálpi okkur að mæta þessari þörf til framtíðar,“ segir Breki.

Hvað heita vatnið áhrærir segir Breki: „Okkur hefur einnig gengið ágætlega að mæta eftirspurn eftir heitu vatni þó vissulega hafi síðasti vetur verið afar óvenjulegur og erfiður. Við lentum í vandræðum og höfum verið að vinna í því að sjá hvort við getum ekki nýtt auðlindina betur. Meðal annars með sumarhvíld á borholunum okkar, svokallaðri svínun á Nesjavallaæð og afar áhugaverðu íblöndunarverkefni hjá Veitum ásamt fleiri áformum sem við segjum frá von bráðar.“

Horfa verður til framtíðar

Hann segir að ein af helstu áskorunum Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja sé að viðhalda þeim grunni lífsgæða sem við búum við og teljum sjálfsögð. Jafnframt verði að horfa til framtíðar og mæta þörf hverrar kynslóðar. „Hlutverk okkar er að nýta auðlindir á ábyrgan og hagkvæman hátt til að þjóna heimilum, fyrirtækjum og stofnunum. Við erum sífellt að leita nýrra leiða til þess að nýta auðlindir okkar á ábyrgan og hagkvæman hátt og af virðingu fyrir náttúrunni til þess að ganga ekki á rétt komandi kynslóða til þessara lífsgæða.“

Aukin orkunýtni síðustu ár

Björn Arnar Hauksson, sérfræðingur hjá Orkustofnun, kveðst ekki kannast við að mat á jarðhitakostum hafi verið óraunhæft í gegnum tíðina. „Þær jarðvarmavirkjanir sem eru í rekstri í dag nýta uppsett afl á bilinu 75-95% á ársgrundvelli sem er hliðstætt dæmigerðri nýtingu vatnsaflsvirkjana. Eftir að jarðvarmavirkjanir fara í nýtingarflokk í rammaáætlun er það ákvörðun viðkomandi orkufyrirtækis hvort og hvenær ráðist í leyfisferli og síðan framkvæmdir. Einnig má nefna að í jarðvarmavirkjunum getur verið samspil á milli framleiðslu heits vatns og raforku. Þannig getur raforkuframleiðsla dregist saman þegar framleiðsla heits vatns eykst.“

Þá staðhæfir Björn að orkugeta virkjana hafi ekki verið ofmetin heldur þvert á móti hafi nýting á uppsettu afli í núverandi virkjunum sífellt batnað á undanförnum árum. „Þessi aukna orkunýtni næst með því að bæta framleiðsluferla og mismunandi söluleiðir, ásamt því að bæta flutnings- og dreifikerfi. Enn eru þó fjölmargir möguleikar til þess að bæta orkunýtnina enn frekar, m.a. með nýrri tækni og skilvirkari flutningi og dreifingu raforku. Raforkuþörf hefur ekki verið vanmetin til þessa í raforkuspám Orkustofnunar. Á undanförnum árum hefur spáin jafnan verið umfram raunnotkun.“

Orkustofnun

Tíu leyfi vegna jarðhita 2022

Í ársskýrslu Orkustofnunar fyrir árið 2022, sem kom nýverið út, kemur fram að sjaldan hafi jafnmörg leyfi verið gefin út og á síðasta ári í málaflokkum auðlinda.

„Leyfisveitingar Orkustofnunar taka til rannsókna, leitar eða nýtingar auðlinda vatns, jarðhita og jarðefna, auk virkjunar orkuauðlinda, svo sem vatnsafls, jarðhita og vinds. Samtals voru gefin út 24 auðlindaleyfi, þar af átta tengd vatnsauðlindum, tíu tengd jarðhita og sex tengd jarðefnum. Af þessum leyfisveitingum voru sex virkjunarleyfi, þar af eitt fyrir jarðhitavirkjun og fimm fyrir vatnsaflsvirkjanir,“ segir í ársskýrslunni.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon