Skjálftavirknin á Reykjanesi gerir enn vart við sig og er líklegt að það sé aðeins byrjunin

Í gærmorgun bönkuðu gamlir kunningjar á margar dyr á suðvesturhorni landsins. Þá urðu margir allstórir skjálftar á svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Margir urðu varir við skjálftana snemma í gærmorgun enda fóru þeir stækkandi og mældust sjö skjálftar stærri en 4,0 og sá stærsti mældist 4,8 að stærð og varð kl. 08.21.

Skjálftaupptökin röðuðust á milli Fagradalsfjall og Keilis. Eðlilega er leitað til þeirra sem þekkja best til þegar slíkir atburðir verða og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í bergfræðum og eldfjallafræðum við Háskóla Íslands, varð fyrir svörum. Sagði hann þessa skjálftavirkni benda til þess að eldgos sé í aðsigi. Sagði prófessorinn „að skjálftavirknin væri frekar grunn eða á 3-6 kílómetra dýpi og ljóst að skjálftarnir tengjast kvikuhreyfingum. Því mætti ætla að kvika sé komin ansi nálægt yfirborði.“ Þorvaldur sagði einnig að mögulegt væri að gos yrði á svipuðum slóðum og gosin 2021 og 2022, og mögulega eitthvað norðar en gosið 2022 í Meradölum.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að sérfræðingar, eins og prófessor Þorvaldur, hafi ýmsa fyrirvara í svörum sínum. Þótt þekktar gosstöðvar hafi lengi verið kunnar í landinu okkar eru fræðin sjálf tiltölulega ung miðað við veru þjóðarinnar í landinu. En þeim hefur þó fleygt fram á allra seinustu öldum. Er það fagnaðarefni enda mikilvægt. Reykjanessvæðið er eitt þekktasta svæði landsins fyrir eldvirkni af þessu tagi og hafa slík umbrot staðið, stundum með tiltölulega litlum hléum, um allmargar aldir.

Þjóðinni hefur fjölgað mjög á síðari tímum og margvísleg og mikilvæg starfsemi safnast á þessi svæði, og á hinn bóginn hefur efnahagur Íslendinga batnað stórlega seinustu öldina, sem og menntun þeirra, vélvæðing og tæknikunnátta og hvers konar heilsugæsla og þannig mætti lengi telja. En landsmenn eru eftir sem áður raunsæir í viðskiptum sínum við náttúruna. Þar er fæst fast í hendi og hafa verður vara á eins og svör sérfræðinganna eru dæmi um. Við þekkjum einnig af reynslu, að ógnarkraftur og eyðilegging geta farið saman þegar slíkir atburðir verða, oft fyrirvaralítið, og um leið getur þakkarverð heppni stundum lagt mönnum lið í ógöngunum, eins og nýleg 50 ára goslok í Vestmannaeyjum eru sláandi og þakkarvert dæmi um.