Þorsteinn Leó Gunnarsson átti stórleiki með íslenska liðinu á lokaspretti heimsmeistaramótsins.
Þorsteinn Leó Gunnarsson átti stórleiki með íslenska liðinu á lokaspretti heimsmeistaramótsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Handbolti Jökull Þorkelsson jokull@mb.is Mosfellingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson lét að sér kveða í liði Íslands skipuðu leikmönnum 21 árs og yngri sem vann til bronsverðlauna á HM í Þýskalandi á sunnudaginn.

Handbolti

Jökull Þorkelsson

jokull@mb.is

Mosfellingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson lét að sér kveða í liði Íslands skipuðu leikmönnum 21 árs og yngri sem vann til bronsverðlauna á HM í Þýskalandi á sunnudaginn.

Bestu leikir Þorsteins í mótinu voru undir lokin. Í 8-liða úrslitunum gegn Portúgal skoraði hann heil 11 mörk og tryggði Íslandi sæti í undanúrslitum gegn Ungverjum. Þar átti hann ekki sinn besta leik er Ungverjar krömdu íslensk hjörtu sem gerði það að verkum að Ísland spilaði um bronsið. En í bronsleiknum gegn Serbum sýndi Þorsteinn aftur sínar bestu hliðar og skoraði átta mörk.

Í samtali við Morgunblaðið segir Þorsteinn tilfinninguna vera alveg stórkostlega. „Að ná bronsinu er alveg frábært. Maður gerði sér kannski ekki grein fyrir því hversu stórt þetta væri, hversu vel við gerðum að ná bronsinu. Liðsheildin skilaði þessum árangri, allt gekk upp hjá okkur og svona,“ sagði Þorsteinn um tilfinninguna og hvað skilaði bronsinu.

Ísland mátti þola tap í undanúrslitum gegn sterku ungversku liði. Þorsteinn segir það hafa verið betra þann dag. „Þeir voru vissulega mjög góðir og við hittum á lélegan leik, ég sjálfur var mjög lélegur í leiknum. Við hittum alls ekki á daginn okkar og spiluðum ekki nógu vel. Þeir voru bara betri, þannig var það bara.

Í leiknum gegn Serbíu um bronsið var smá agaleysi í okkur framan af. Við tókum furðuleg skot og rangar ákvarðanir. Í seinni hálfleik fórum við aftur að spila okkar leik og tókum réttar ákvarðanir. Við sigldum bronsinu heim með góðri vörn, góðum sóknarleik og góðri markvörslu.“

Ástæða þess að ég byrjaði

Þorsteinn lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Ísrael og Eistlandi í undankeppni EM í Þýskalandi í apríl. Þorsteinn segir það hafa verið draumi líkast og að íslenska landsliðið sé ein aðalástæða þess að hann byrjaði í handknattleik.

„Það hefur verið draumur hjá mér að spila með landsliðinu síðan ég byrjaði að æfa handbolta, og kannski góð ástæða af hverju ég fór að æfa íþróttina. Ég var sex ára að horfa á strákana árið 2008 þegar við unnum silfrið. Ég horfði á þetta bara og hugsaði, mikið djöfull er þetta skemmtileg íþrótt og það ýtti manni til að fara að æfa handbolta.

Stór partur ástæðu þess að ég er í handbolta er íslenska landsliðið og það hefur verið stórt markmið hjá mér að spila fyrir þjóðina. Það var því algjör draumur að fá að upplifa þetta og spila með bestu leikmönnum í heimi. Það var algjörlega geggjað að fá að upplifa það.“

Ætlum okkur að vinna allt

Þorsteinn Leó varð bikarmeistari með Aftureldingu fyrr á árinu en það var fyrsti titill Aftureldingar í 24 ár, eða síðan 1999.

„Bikarmeistaratitillinn var klárlega hápunktur tímabilsins. Það var svona svipað og að vinna bronsið. Maður gerði sér ekki grein fyrir því hversu stórt þetta var. Afturelding hafði ekki unnið titil síðan 1999, í ein 24 ár. Móttökurnar sem maður fékk þegar maður kom í bæinn og allt það, maður gerði sér enga grein fyrir því fyrirfram. Maður er hálfpartinn enn að fatta hversu stórt þetta var, alveg geggjað.“

Þorsteinn var fljótur að færa umræðuefnið yfir á næsta tímabil, en þar eru hann og Afturelding með skýr og stór markmið. „Nú er bara næsta tímabil, þar sem við ætlum okkur enn stærri hluti. Það er eina markmið okkar, að vinna alla titlana. Það verður ekkert minna en það. Það verður mjög skemmtilegt og deildin er hörkusterk. Það verður gaman að sjá hvernig þetta verður á næsta ári.“

Það er stór póstur fyrir deildina að Aron Pálmarsson sé að koma heim í FH, hvernig verður að kljást við hann?

„Aron Pálmarsson er svona gæi sem ég hef litið upp til síðan ég byrjaði að æfa handbolta. Maður leit alltaf á hann og langaði að spila í liðunum sem hann spilaði fyrir, Kiel og Veszprém meðal annars. Þannig að ég veit ekki hvernig maður tæklar það, það verður eitthvað.“

Verður áfram í Mosó

Þegar leikmenn eiga eins gott tímabil og Þorsteinn átti er eðlilega eftirspurn eftir þeim. Þorsteinn segir að hann verði að öllum líkindum áfram í Mosfellsbæ á komandi leiktíð en á þarnæsta tímabili verði hann í fararhug.

„Það eru mestu líkur á því að ég verði áfram hjá Aftureldingu. Eins og staðan er núna er líklegast að ég fari út eftir næsta tímabil og það kemur bara í ljós hvaða lið það verður. Við erum ekki enn búnir að taka ákvörðun um það.

Það er mikil eftirspurn, ég er bara með umboðsmann í því og við tökum þá ákvörðun í sameiningu. Það verður gaman að sjá hvar ég spila á þarnæsta tímabili.“

Kiel draumafélagið

Þorsteinn Leó segir að þýska stórveldið Kiel sé sitt draumafélag.

„Það eru allir með draumafélag, sem þeir vilja spila fyrir. Mitt er Kiel. Það eru margar ástæður fyrir því, margir af bestu Íslendingunum hafa spilað fyrir Kiel. Aron, Guðjón Valur og fleiri. Kiel er algjört stórveldi sem ég stefni á, það er kannski ekki lið sem ég fer fyrst til en hvað veit maður. Það er klárlega liðið sem mig langar að spila með.

Ég veit ekki hvað ég get sagt með framhaldið, hvort ég taki eitthvert milliskref eða hvort ég fari í eitt af stærstu félögunum. Það sem er efst í mínum huga er að vinna allt með Aftureldingu á næsta tímabili, það er það eina sem ég vil.“

Undir mér komið

Ísland tekur þátt á EM í Þýskalandi í janúar á næsta ári. Þorsteinn, sem eins og áður kom fram var í síðasta landsliðshópi, stefnir á að vera í hópnum og segir það vera undir honum sjálfum komið. Hann segist þó ekki enn hafa rætt við Snorra Stein Guðjónsson, nýja landsliðsþjálfarann.

„Ég hef ekki verið í beinu sambandi við hann. Vonandi verð ég valinn í þann hóp og ég stefni á að spila nógu vel til þess að vera valinn. Það er undir mér komið hvort ég verði valinn eða ekki, það er bara þannig,“ sagði Þorsteinn að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Jökull Þorkelsson