Innflytjendur hafa að stærstum hluta mætt þeirri auknu eftirspurn eftir vinnuafli sem verið hefur hér á landi á umliðnum misserum. Í maí síðastliðnum voru rúmlega 219.300 einstaklingar starfandi á vinnumarkaðinum samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær

Innflytjendur hafa að stærstum hluta mætt þeirri auknu eftirspurn eftir vinnuafli sem verið hefur hér á landi á umliðnum misserum. Í maí síðastliðnum voru rúmlega 219.300 einstaklingar starfandi á vinnumarkaðinum samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær. Fram kemur að þar af voru tæplega 168.900 með íslenskan bakgrunn og um 50.400 voru erlent vinnuafl.

„Starfandi einstaklingum fjölgaði alls um 10.200 á milli ára, þar af voru 7.900 innflytjendur,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Hlutfall innflytjenda af heildarfjölda starfandi fólks á vinnumarkaði hefur nú náð 23% en þar á undan var hlutfallið hæst síðastliðið haust rúm 22%.

Sé eingöngu litið á tímabilið frá júní í fyrra til loka maímánaðar á þessu ári kemur í ljós að innflytjendum á vinnumarkaðinum fjölgaði á þessu tímabili um rúmlega 6.300 en starfsfólki með íslenskan bakgrunn fjölgaði um eitt þúsund.

Fram kemur í umfjöllun um vinnumarkaðinn í nýútkominni vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar að í fyrra fjölgaði íbúum landsins um 3,1%, sem er mesta fjölgun íbúa frá upphafi mælinga árið 1703. Heildarfjöldi starfandi dróst saman við upphaf kórónuveirufaraldursins en jókst á ný frá ársbyrjun 2021 og þegar hæst lét var breyting á heildarfjölda starfandi fólks yfir tólf mánaða tímabil um tíu prósent.

Í sögulegu hámarki

„Stóran hluta af fjölgun starfandi síðustu tveggja ára má rekja til aukins erlends vinnuafls. Tæplega 60% af fjölgun starfandi milli janúar 2021 og apríl í ár má rekja til aukins fjölda innflytjenda á vinnumarkaði. Hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði er nú í sögulegu hámarki.

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka fór lægst í 77,1% árið 2020. Eftir það jókst hún jafnt og þétt og var 80,5% í apríl,“ segir í vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar. omfr@mbl.is