Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
Ævintýri leikarans og söngvarans Bings Crosbys við laxveiðar á Íslandi eru eftrminnileg. Hann veiddi m.a. í Elliðaánum og í Laxá í Aðaldal þar sem hann naut leiðsagnar Axels Gíslasonar heitins. Bing söng m.a. hið klassíska jólalag White Christmas en fjallað er um Íslandsferð hans í nýju tölublaði Veiðimannsins.
Að launum fyrir góða frammistöðu við leiðsögnina gaf stórstjarnan heimsfræga Axel forláta Bogdan-veiðihjól en Bing bauð af sér afar góðan þokka. Veiðihjólið er enn í fórum afkomenda hans en Bogdan-hjólin eru goðsagnakennd og það er slegist um þau meðal safnara víða um heim.
Bingó!
Axel Gíslason fangar á meðfylgjandi mynd fallegan lax. Bing Crosby og veiðifélaginn hans og vinur, Bud Boyd blaðamaður, glöddust sannarlega sumarið 1969. Axel var leiðsögumaður í Nesi við Laxá í Aðaldal tvo sumarparta. Bing var hér til að gera heimildarmynd fyrir bandarískt sjónvarp og var við Laxá í eina viku ásamt tækniliði ABC. Það veiddist vel enda brast Bing í söng eins og frægt er orðið og mærði villta íslenska laxinn og veiðilendur hans. Íslandsheimsóknin var að frumkvæði Loftleiða og hluti af landkynningu í Bandaríkjunum.
„Hvað segir þú um þennan Bingó?“ spurði veiðifélaginn kampakátur eins og sjá má í mynd ABC á vefnum. Þeir skarta báðir fallegum lopapeysum í íslenska sumrinu glaðir í bragði í stíl við fagurbláa Laxána enda þótti Kaliforníubúunum nokkuð kalt á Íslandi. Axel sá um að sporðtaka laxinn eins og hann gerði alltaf og kom honum á þurrt.
Alhliða veiðimaður
Bing Crosby var fyrst og fremst urriðaveiðimaður áður en hann kom til Íslands. Axel bauð Bing með sér í Mývatnssveitina einn dag eftir laxveiðina þar sem þeir fóru án kvikmyndaliðsins. Þar var Bing á heimavelli og þótti svæðið stórkostlegt. Þeir fóru m.a. á Helluvað þar sem þeir tókust á við kraftmikla urriða. Héðan hélt hann til skotveiða í Kenýa en veiddi í Elliðaánum í millitíðinni og landaði að sjálfsögðu laxi við mikinn fögnuð viðstaddra Reykvíkinga. Það vakti athygli stórstjörnunnar að áhugasamir borgarbúar leyfðu honum að veiða í næði og létu sér nægja að klappa duglega fyrir honum þegar laxi var landað en héldu að því loknu á brott.
Fluguhjólið sem Bing Crosby veiddi með á Íslandi og gaf síðan leiðsögumanni sínum við brottför á engan sinn líka. Hljóðið sem það gefur frá sér þegar lax tekur er einstakt eins og heyra má í kvikmynd ABC um veiðiferðina til Íslands. Bogdan-feðgar, Stanley og Stephen, framleiddu hjólin og var allt að þriggja ára bið eftir þeim enda framleiddu þeir sjálfir hjólin frá grunni, renndu stálið sem notað var í hjólið í rennibekk enda var Stanley vélvirki. Hljólunum röðuðu þeir síðan saman í höndunum en þau voru notuð út um allan heim. Ál og fleiri málmar voru einnig notaðir við framleiðsluna svo hjólin yrðu ekki of þung.
Verðmæt og eftirsótt
Bogdan-fluguhjólin seljast í dag á þúsundir dollara. Eina hjólið sem er nú til sölu á eBay er verðlagt á um 6.000 dollara. Upp úr 1960 þóttu þau meðal þeirra allra bestu og þykja enn þó svo að léttari efni og nýtískulegri fjöldaframleiðsla hafi tekið við á markaðnum. Axel notaði Bogdan-hjólið í mörg ár en lenti síðan í því óhappi að sveifin brotnaði. Hann lagðist í rannsóknir og komst að því að á þeim tíma var sonur Stanleys enn að smíða hjólin og var kominn í samband við hann um viðgerð en af því varð þó aldrei þar sem hann var ekki tilbúinn til að senda það vestur um haf í pósti.