— Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Eftir nokkrar fjörugar vikur í fjölmiðlum með hvalabanni, bankahasar og skjálftahrinum líta mánaðaskiptin nokkuð skikkanlega út. Gúrkutíðin, sem blaðaheimurinn fann upp á að kalla tímann þegar fólk væri í fríi, pólitíkin tekin úr sambandi og menningarviðburðir í lágmarki, er upprunnin einu sinni enn

Eftir nokkrar fjörugar vikur í fjölmiðlum með hvalabanni, bankahasar og skjálftahrinum líta mánaðaskiptin nokkuð skikkanlega út.

Gúrkutíðin, sem blaðaheimurinn fann upp á að kalla tímann þegar fólk væri í fríi, pólitíkin tekin úr sambandi og menningarviðburðir í lágmarki, er upprunnin einu sinni enn.

En þetta orðtak á sér miklu eldri rætur, allt aftur á átjándu öld, þegar talað var um „tíma súrra gúrkna“, þegar uppskerutíminn var ekki kominn og lítið um nýmeti úr garðinum.

Bretar kalla þetta „season of the very smallest potatoes“, en gúrkurnar eru frekar bundnar við Austur-Evrópu og Þýskaland.

Í gúrkutíðinni finna blaðamenn upp á ýmsu og mörg fréttin kemst á flot sem ekki þætti merkileg annars. Svo birtast líka furðufréttir eins og um púmur sem sjást á ferli í Danmörku eða krókódíla sem skríða á land í Ameríku. Þá koma í hugann allir rostungarnir sem nú flatmaga á bryggjum landsins. Vonandi eru þeir ekta, við þurfum þá ekkert gos.

Svo kemur þingið brátt saman.

Sunnlendingur