Haukur Arnþórsson
Aðflutning fólks með erlent ríkisfang má ræða frá mörgum sjónarhornum, ekki síst siðferðilegum, lagalegum og menningarlegum, en hér er rætt um efnahagsleg áhrif hans. Almannahagur, þjóðarhagur og velferð fjöldans eru sterk sjónarhorn í stjórnsýslufræði.
Fjölgun þjóðarinnar
Á grundvelli talna á vef Hagstofunnar má giska á að í landinu séu 65 þús. manns með erlent ríkisfang. Fæðingar umfram andlát eru á öldinni 78 þús. talsins. Fólk af erlendu bergi brotið gæti verið um 45% af fjölguninni á öldinni og 55% íslenskar fæðingar. Þannig fjölgar þjóðin sér að umtalsverðu leyti með aðflutningi fólks.
Hvað þýðir fjölgun?
Fjölgun þýðir að fleiri hendur koma til landsins eða verða til í landinu eftir uppvöxt – þannig að þjóðartekjur aukast og munu aukast, meðalaldur lækkar, hærra hlutfall þjóðarinnar verður á vinnumarkaði en annars væri (auðveldar öldrun þjóðarinnar) og atvinnuvegirnir geta blásið út, t.d. gætu nýir atvinnuvegir komið til sögunnar. Síðast en ekki síst, ef uppbygging atvinnuveganna er skynsamleg, ætti kaupmáttur tekna að aukast.
Hvaða munur er á fæðingum og aðflutningi fólks?
Að svo miklu leyti sem aðfluttir eru fullorðið fólk kemur það tilbúið inn á íslenskan vinnumarkað, þannig að ekki þarf að kosta innviði fyrir uppvöxt þess, eins og þarf vegna fæðinga – hér er átt við fæðingarorlof, dagheimili, skóla á öllum skólastigum, húsnæði meðan á uppvexti stendur o.s.frv.
Einhverjir af aðfluttum eru börn og þá fellur þessi kostnaður til í hlutfalli við aldur þeirra. Við fáum nýtt vinnuafl með fæðingum og með aðfluttu fólki, en kostnaðurinn við að búa það til er mjög ólíkur, nýfæðingar eru mikið dýrari. Aðfluttir jafngilda að mestu leyti því að fullorðnir fæðist menntaðir og tilbúnir til að vinna.
Nú getum við sagt að ef þetta aðflutta fólk ílendist hér þá muni það eiga börn og því muni það með tímanum fjölga Íslendingum með fæðingum og þá aukist kostnaður við að mynda vinnuafl aftur. Það er rétt. Aðflutningur núna er líklega tímabundin innspýting í atvinnulífið, nema ástandið verði viðvarandi.
Kredit-hliðin
Þessir nýju íbúar þurfa húsnæði. Það þurfa nýfæðingar reyndar með einhverjum hætti líka, sem ber þó öðruvísi að. Stjórnmálamenn hafa vanrækt að byggja fyrir fjölgunina og mér virðist sem reisa verði með hraði stórt hverfi með bráðabirgðahúsnæði, t.d. gámabyggð með innviðum íbúðarhúsa – meðan stórátak er gert í varanlegu húsnæði af stærðargráðu Breiðholtsverkefnisins. Slíkt tekur 2-3 ár hið minnsta og best er fyrir byggingariðnaðinn að ekki komi stór toppur í nýbyggingar.
Kjarni málsins er sá að til að auka nýbyggingar þarf aukið erlent vinnuafl og það þarf húsnæði á byggingartímanum – þannig að hvað bítur í skottið á öðru.
Annar samfélagslegur kostnaður og nokkuð umræddur er rekstur opinbers kerfis sem velur og hafnar hverjir komast inn um hliðin, og úr fjarlægð virðist sem ríkinu og stjórnmálamönnunum hafi tekist að byggja upp bæði óskilvirkt og kostnaðarsamt kerfi – eins og fleiri opinber kerfi eru.
Megum við velja?
Siðferðileg og efnahagsleg sjónarmið mætast við val á aðfluttum. Freistandi er að velja einkum vel menntað fólk, sem þá er dýrmætara vinnuafl en minna menntað, en opinberir aðilar geta ekki notað slíkar forsendur, við tökum á móti fólki á grundvelli vestrænna öryggis-, mannúðar- og mannréttindasjónarmiða. En atvinnulífið gæti notað hvata sem beindust að fólki með tiltekna menntun og verðleika.
En svo vel vill til að margt af sérmenntuðu fólki hefur flust hingað.
Hagnýting fjölgunarinnar
Á seinustu árum hefur fjölgunin að mestu leyti verið hagnýtt til að efla ferðamannaþjónustu. AGS hefur nýverið hvatt stjórnvöld til að takmarka vöxt hennar. Sem stjórnvöld svöruðu að bragði með nei-i.
Aðrir hafa af því áhyggjur að uppbygging láglaunagreinar valdi minni skilvirkni starfa en hjá nágrannaríkjunum og enn aðrir að væntur ábati fjölgunarinnar verði minni en ella, þannig að tækifæri hennar fari að einhverju leyti til spillis. Þá kann enn öðrum að svíða að sjá hámenntað fólk, t.d. frá Austur-Evrópu, vinna við skúringar. Staðfestingu á sérmenntun þess þarf að koma í lag.
Minnugur stjórnlausrar uppbyggingar á síldar- og útrásarárunum, en hrunin í kjölfar þeirra komu illa við mig og fjölskyldu mína, spyr ég hvort ekki þurfi að stýra með einhverjum hætti hvaða uppbygging fylgi fjölgun íbúa nú og hvar hún eigi sér stað, fjölgun í þéttbýli eykur þjóðarhag mikið meira en fjölgun í strjálbýli. Stjórnvöld, atvinnulífið sjálft og efnahagslífið eiga að tryggja þjóðfélagslega hagkvæmni. Skjótfengin sæla getur verið skammvinn.
Lokaorð
Lógík stjórnmálanna er söm við sig. Hægriflokkar, sem vilja frelsi og eflingu atvinnuveganna og hagvöxt, gera aðflutning fólks tortryggilegan – sem vinnur gegn markmiðum þeirra og uppbyggingunni, en vinstriflokkar, sem fremur telja „að nóg sé til“, vilja aukinn aðflutning og þar með aukinn hagvöxt og auknar þjóðartekjur.
(Samið upp úr punktum á Facebook.)
Höfundur er stjórnsýslufræðingur og starfar við ReykjavíkurAkademíuna.