Peningar Fyrirtækið metur lánshæfi fólks og fyrirtækja.
Peningar Fyrirtækið metur lánshæfi fólks og fyrirtækja. — Morgunblaðið/Ernir
Einn milljarður manna hefur ratað í gagnagrunn fjártækni­fyrirtækisins Creditinfo Group frá því félagið var stofnað af Reyni Grétarssyni árið 1997. Fyrir­tækið metur sem kunnugt er lánshæfi fólks og fyrirtækja

Einn milljarður manna hefur ratað í gagnagrunn fjártækni­fyrirtækisins Creditinfo Group frá því félagið var stofnað af Reyni Grétarssyni árið 1997. Fyrir­tækið metur sem kunnugt er lánshæfi fólks og fyrirtækja.

Þetta kemur fram á sprotavefsíðunni Techround, en Creditinfo er í 45. sæti á nýbirtum lista vefsíðunnar yfir framsæknustu fjártæknifyrirtæki í Bretlandi og Evrópu.

Í umfjöllun um Credit­info á vefsíðunni segir að fyrirtækið hafi lengi verið á meðal hraðast vaxandi fjártæknifyrirtækja á sínu sviði með starfsemi í meira en fimmtíu löndum frá stofnun.

Þá segir að Creditinfo hafi komist á lista og fengið viðurkenningar í nokkrum útboðum á vegum Alþjóðabankans og fleiri stofnana og félagasamtaka.

Fyrirtækið rekur í dag 35 útstöðvar í fjórum heimsálfum og býr, samkvæmt umfjölluninni, yfir víðfeðmustu starfsemi í heimi þegar kemur að lánshæfismati. Þar vegur þyngst einstök nálgun fyrirtækisins við gagnameðhöndlun og skoðun.

Í fréttinni segir að fyrirtækið noti tæknina til að greiða fyrir aðgengi einstaklinga og fyrirtækja að fjármagni. Félagið vilji með starfsemi sinni bæta líf fólks og auka velgengni fyrirtækja. Gögnin hjálpi til við að ná yfir fjárhagslega þröskulda og styðji þannig við jöfnuð.

„Afleiðingin er að fólk og fyrirtæki fá sanngjarnara lánshæfismat sem endurspeglar raunverulega áhættu. Það þýðir að þau hafa meiri aðgang að fé, einkum í þróunarlöndum, þar sem þörfin er mest,“ segir að lokum í umfjölluninni.