Þvingun Starfshópur um innlenda greiðslumiðlun telur það kunna að vera nauðsyn að skikka innlánsstofnanir að nýta mögulega lausn sem SÍ þróar.
Þvingun Starfshópur um innlenda greiðslumiðlun telur það kunna að vera nauðsyn að skikka innlánsstofnanir að nýta mögulega lausn sem SÍ þróar. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Forsætisráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu til að koma á fót innlendri smágreiðslulausn með það að markmiði að styrkja þjóðaröryggi til að efla viðnámsþrótt greiðslumiðlunar á Íslandi og auka hagkvæmni fyrir neytendur. Í dag fara 90% af innlendum smágreiðslumiðlunum fram með greiðslukortum sem nýta erlenda innviði. Í áformum starfshóps, sem er skipaður af forsætisráðherra, segir að veruleg ógn við þjóðaröryggi stafi af því að vera háð erlendum innviðum.

Baksvið

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Forsætisráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu til að koma á fót innlendri smágreiðslulausn með það að markmiði að styrkja þjóðaröryggi til að efla viðnámsþrótt greiðslumiðlunar á Íslandi og auka hagkvæmni fyrir neytendur. Í dag fara 90% af innlendum smágreiðslumiðlunum fram með greiðslukortum sem nýta erlenda innviði. Í áformum starfshóps, sem er skipaður af forsætisráðherra, segir að veruleg ógn við þjóðaröryggi stafi af því að vera háð erlendum innviðum.

Fyrirhugaðri lagasetningu er ætlað að tryggja að til verði skilvirk greiðslulausn innanlands, t.d. við kaup á vöru í smásölu, sem feli í sér að greiðslur berist milli tveggja innlánsreikninga. Þannig verði hægt að stunda dagleg viðskipti í verslunum til dæmis án þess að greiðslur fari fram fyrir milligöngu erlendra aðila, hvort sem notuð eru kredit- eða debetkort, eins og nú er. Slíkt sé öryggismál ef brestur verður á tengingum við útlönd en ætti einnig að vera ódýrara fyrir neytandann.

SÍ þegar að vinna í slíkri lausn

Seðlabankinn er nú þegar að vinna að innlendri óháðri smágreiðslulausn í samstarfi við innlánsstofnanir. Grunninnviðum þurfi að koma á fót á Íslandi fyrir svona lausn sem kallast „RÍR-lausn“ (greiðsla frá reikningi í reikning). Starfshópurinn segir að þrátt fyrir að samstaða náist um þessa lausn án lagasetningar þá þurfi samt að styrkja lagarammann. Til dæmis með því að þvinga innlánsstofnanir að nýta slíka lausn frá Seðlabankanum. „Jafnvel þótt samstaða náist við að koma á slíkri lausn kann að vera tilefni fyrir stjórnvöld til að setja reglur sem annað hvort kveða á um að heimildargjöf, jöfnun og uppgjör debetkorta fari fram hér á landi eða að innlánsstofnunum verði skylt að taka þátt í smágreiðslulausn sem þróuð yrði af Seðlabankanum,“ segir í áformalýsingunni.

Þar segir einnig, að núverandi fyrirkomulag ógni þjóðaröryggi og fjármálastöðuleika. „Þjónusturof í smágreiðslumiðlun getur orðið vegna til dæmis rofs á netsambandi við útlönd, rafmagnsleysis, netárása eða ágreinings af viðskiptalegum eða stjórnmálalegum toga,“ segir þar. „Verði ekkert aðhafst er viðnámsþróttur í greiðslumiðlun ófullnægjandi ef neyðarástand skapast, t.d. ef rof verður á rafrænni greiðslumiðlun.“

Kostnaðurinn 47 milljarðar

Hluti af rökstuðninginum fyrir því að vera með innlenda greiðslumiðlun er sá að starfshópurinn telur að það muni vera hagkvæmara. „Fyrirliggjandi greiningar benda til þess að á Íslandi sé kostnaður af greiðslumiðlun hærri en sambærilegur kostnaður í nágrannalöndum. Sá kostnaður (samfélagskostnaður) hefur verið metinn um 47 milljarðar á ári (skv. tölum frá 2021), sem er um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Sambærilegur kostnaður í Noregi er um 0,79% af vergri landsframleiðslu,“ segir í áformunum. Það kunni að stafa af núverandi fyrirkomulagi.

Gildistaka um áramót

Áform um lagabreytingu eru nú inni á samráðgátt en gert er ráð fyrir að lagafrumvarp verði lagt fram á Alþingi í haust og að gildistakan verði 1. janúar 2024. Undirbúningur geti hafist nú þegar hjá Seðlabanka Íslands að því að þróa grunninnviði.

Greiðslumiðlun

Víða unnið
að lausnum

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og formaður starfshópsins, segir að víða erlendis séu til staðar innlendar greiðslulausnir sem geti nýst ef upp kemur rof í greiðslumiðlun og slíkum lausnum fari fjölgandi. „Sem dæmi má nefna að allar Norðurlandaþjóðirnar hafa innlenda smágreiðslulausn, ýmist lausn sem byggist á greiðslum milli bankareikninga eða innlent debetkortakerfi. Einnig má benda á innlendar smágreiðslulausnir sem komið hefur verið á fót í Bretlandi, Belgíu, Spáni, Hollandi, Póllandi og Brasilíu og byggjast á greiðslum milli bankareikninga. Þá er unnið að sambærilegum lausnum m.a. á Írlandi, í Bandaríkjunum og í tilteknum Afríkuríkjum.“

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson