Saporísja Eftirlitsmaður á vegum IAEA sést hér kanna aðstæður við kjarnorkuverið í Saporísja um miðjan júní.
Saporísja Eftirlitsmaður á vegum IAEA sést hér kanna aðstæður við kjarnorkuverið í Saporísja um miðjan júní. — AFP/IAEA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í símtali við Emmanuel Macron Frakklandsforseta í fyrrakvöld að Rússar væru að leggja á ráðin um „hættulegar ögranir“ við kjarnorkuverið í Saporísja-héraði

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í símtali við Emmanuel Macron Frakklandsforseta í fyrrakvöld að Rússar væru að leggja á ráðin um „hættulegar ögranir“ við kjarnorkuverið í Saporísja-héraði. Er það raunar ekki fyrsta slíka ásökunin sem heyrst hefur síðustu daga og vikur þar sem Rússar og Úkraínumenn hafa skipst á ásökunum um að hinn stríðsaðilinn hafi í hyggju að ráðast á kjarnorkuverið með skelfilegum afleiðingum á allra næstu dögum.

Úkraínuher hafði áður sagt að sprengiefnin væru við tvo af þremur kjarnaofnum versins. Sagði í yfirlýsingu hersins að sprengiefnin á þakinu ættu ekki að skemma framleiðslueiningar versins, en að þær gætu mögulega líkt eftir því að Úkraínuher hefði gert stórskotahríð á verið.

Selenskí sagði svo í kvöldávarpi sínu í fyrrakvöld að Rússar hefðu sett upp hluti á þaki versins, sem væru svipaðir sprengiefnum á mynd, og sagði mögulegt að þeim væri ætlað að líkja eftir því að Úkraínumenn hefðu gert árás á verið. „En hvað sem því líður sér heimsbyggðin, og getur ekki annað, að eina hættan sem steðjar að Saporísja-kjarnorkuverinu er Rússland og ekkert annað,“ sagði Selenskí. Úkraínsk stjórnvöld hafa hins vegar ekki birt þær myndir sem eiga að sýna sprengiefnin á þaki versins.

Árás nú í nótt?

Rússar hafa heldur ekki dregið af sér við að ásaka Úkraínumenn um að ætla að ráðast á kjarnorkuverið. Þannig sagði Renat Kartsjaa, ráðgjafi yfirmanns rússnesku kjarnorkumálastofnunarinnar Rosatom, fyrr í vikunni að Úkraínumenn ætluðu sér að varpa skotfærum með kjarnorkuúrgangi, sem fenginn væri frá einu af kjarnorkuverum Úkraínumanna sem þeir ráða enn yfir, á verið.

Sagði Kartsjaa að sú árás myndi eiga sér stað nú í nótt. „Úkraínuher mun reyna í skjóli nætur hinn 5. júlí að ráðast á Saporísja-verið með langdrægum og hárnákvæmum vopnum og sjálfseyðingardrónum,“ sagði Kartsjaa, sem færði sömuleiðis engin sönnunargögn fyrir fullyrðingum sínum um yfirvofandi árás Úkraínumanna.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, endurtók ásakanirnar í gær og sagði að hættan á skemmdarverkum Úkraínumanna við verið væri mjög mikil, og að slík skemmdarverk myndu hafa geigvænlegar afleiðingar. Sagði Peskov að gripið hefði verið til allra aðgerða til þess að koma í veg fyrir það.

Fulltrúar Rosatom flúnir?

Líkt og sagði í upphafi eru þetta ekki fyrstu ásakanirnar af hálfu beggja stríðsaðila um yfirvofandi voðaverk við kjarnorkuverið, en Rússar og Úkraínumenn hafa raunar sakað hvorir aðra um að tefla öryggi versins í hættu frá því að Rússar hertóku það, en rússneski herinn setti upp bækistöð innan girðingar versins.

Eyðilegging Nova Kakhovka-stíflunnar í síðasta mánuði hefur hins vegar ýtt undir þær ásakanir. Hefur leyniþjónusta Úkraínuhers, HUR, varað ítrekað við því, nú síðast á föstudaginn, að Rússar hafi sett upp sprengiefni við fjóra kjarnaofna versins og við kælitjörn þess, en helsta vatnslind kælitjarnarinnar var uppistöðulón stíflunnar sem hvarf þegar stíflan brast. Þar sem slökkt er á fimm af sex kjarnaofnum versins og sá sjötti er í hægagangi hefur vatnið í tjörninni hins vegar nægt til kælingar án þess að gengið hafi á það.

Kíríló Búdanov, yfirmaður leyniþjónustunnar, sagðist á föstudaginn hafa heimildir fyrir því að Kremlverjar hefðu samþykkt áætlun um að eyðileggja kjarnorkuverið, og bætti við að nokkrir af fulltrúum Rosatom við verið, þar af þrír háttsettir, væru þegar farnir frá því. Þá hefði úkraínskum starfsmönnum versins verið sagt að flýja um helgina, helst til Krímskaga.

IAEA vill meiri aðgang

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin IAEA hefur fylgst með ástandi mála frá því að stríðið hófst, og hefur hún sent eftirlitsteymi til versins nokkrum sinnum vegna tíðra atvika sem leitt hafa til þess að verið hefur misst tengingu við raforkunet Úkraínu tímabundið. Nú síðast var slíkt teymi sent í kjölfar eyðileggingar Nova Kakhovka-stíflunnar, og er það enn staðsett við verið.

Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, sagði á föstudaginn og endurtók í gær að eftirlitsmenn stofnunarinnar hefðu ekki fundið nein sýnileg merki þess að sprengiefni hefðu verið sett upp við kjarnaofnana eða tjörnina, en Grossi sagði jafnframt að eftirlitsteymið þyrfti að fá meiri aðgang að ýmsum stöðum versins til þess að sannreyna það.

Sagði Grossi að IAEA tæki öllum ásökunum um yfirvofandi skemmdarverk alvarlega og að hann hefði beðið eftirlitsteymið um að kanna sérstaklega hvort einhver sprengiefni væru til staðar innan versins, en vitað væri um jarðsprengjur við innganga þess.

Hvaða áhrif hefði árás á kjarnorkuverið?

Gæti dreifst um Evrópu

Það er erfitt að meta hvaða afleiðingar árás á kjarnorkuverið gæti haft, þar sem ýmsar breytur geta skipt miklu máli um það hversu mikilli eyðileggingu slík árás gæti valdið.

Fyrrverandi starfsmenn við kjarnorkuverið sögðu breska blaðinu Guardian að það væri erfitt að valda skemmdum á kjarnaofnunum sjálfum, þar sem þeir væru varðir með þykku lagi af stáli og steinsteypu. Hins vegar væri auðveldara að skemma kælitjörn versins og tæma hana af vatni, en slíkt gæti valdið takmarkaðri kjarnabráðnun á borð við það sem gerðist í Three Mile Island-slysinu árið 1979.

Olena Pareniuk, sérfræðingur í öryggismálum kjarnorkuvera, hefur hins vegar varað við því að atvik við verið gæti leitt til þess að Svartahaf myndi mengast af geislavirkum efnum frá verinu, sem gæti þá haft áhrif á öll ríkin við hafið.

Þá gætu afleiðingarnar í allra versta falli valdið því að geislavirkt ský dreifi sér um Úkraínu og valdi mengun ekki bara þar heldur einnig víðar um Evrópu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson