Smári Agnars sendi mér gott bréf: „Svandís, einhvers konar sjávarútvegsráðherra, bannaði hvalveiðar daginn fyrir vertíð. Frestun yfir birtutímann jafngildir auðvitað banni. Hvernig svara hinir ráðherrarnir þessu ofbeldi og þessum öfgum? Hvalir éta fæðu fisks í næði

Smári Agnars sendi mér gott bréf: „Svandís, einhvers konar sjávarútvegsráðherra, bannaði hvalveiðar daginn fyrir vertíð. Frestun yfir birtutímann jafngildir auðvitað banni. Hvernig svara hinir ráðherrarnir þessu ofbeldi og þessum öfgum?

Hvalir éta fæðu fisks í næði.

Fáir vissu hvernig á því stæði.

Í gær var ókei.

Núna er nei.

Hvalmenn setti banndís af í bræði“.

Það eru skiptar skoðanir varðandi hvalveiðibannið.

Pólitíkin erfið er,

ef þið málið kannið.

Fór hún Svandís fram úr sér

með fjandans veiðibannið?

Útlitið segir til um árafjöldann hjá mér.

Í verslun eina vaskur gekk

virðulegur maður.

Ellimannaafslátt fékk,

ósköp varð ég glaður.

birgðastaða
ekki má skerða fullgildan hádegisverð
skyrið er þrotið, nú skulum við bróðir
hlaða
skammbyssur okkar og halda í
verslunarferð. „Ekki alls varnað“, segir Guðmundur Arnfinnsson.

Fádæma svarkur var Svana

með svakalegt nef eins og rana,

vambsíð og ljót

og viðbjóðsleg snót,

það var samt eitthvað við hana.

Enn yrkir Guðmundur og kallar Bongóblíðu:

Vetrarstríð er bak og burt,

blómatíðin gleður,

angar fríð á foldu jurt,

fágætt blíðuveður.

Morgunstundin mild og hlý,

már á sundi bærir væng,

fossi undur fögrum í

fiman skunda sá ég hæng.

Það var í fréttum að 1.300 Tesla Model Y-rafbílar hefðu verið nýskráðir í síðustu viku. Þótt árið sé aðeins hálfnað er það mesti fjöldi á einu ári hér á landi. Hallmundur Kristinsson fann „nýtt rímorð“:

Víða liggur fundið fé.

Fáir upp nú veslast.

Liggur við að ljóst það sé;

landinn er að Teslast.

Jón Arnljótsson kvað:

Sólin er komin suður fyrir bæinn.
Ég sá hana gægjast yfir fjallabrún.
Skemmtilegt yrði, ef skini allan daginn
og skýin ei væru frekari en hún.