Tríó Garðar Borgþórsson, Glóey Garðarsdóttir (hálfs árs gömul) og Rakel Björk Björnsdóttir klár í ferðalagið.
Tríó Garðar Borgþórsson, Glóey Garðarsdóttir (hálfs árs gömul) og Rakel Björk Björnsdóttir klár í ferðalagið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listahjónin Rakel Björk Björnsdóttir og Garðar Borgþórsson sendu í fyrra frá sér breiðskífuna ÞAU taka Vestfirði þar sem þau flytja frumsamin lög við ljóð lífs og liðinna vestfirskra skálda á borð við Stein Steinarr, Jakobínu Sigurðardóttur, Jón úr Vör og Eirík Örn Norðdahl

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Listahjónin Rakel Björk Björnsdóttir og Garðar Borgþórsson sendu í fyrra frá sér breiðskífuna ÞAU taka Vestfirði þar sem þau flytja frumsamin lög við ljóð lífs og liðinna vestfirskra skálda á borð við Stein Steinarr, Jakobínu Sigurðardóttur, Jón úr Vör og Eirík Örn Norðdahl. Í viðtali við Morgunblaðið á sínum tíma sögðu þau að platan hefði sprottið upp úr tónleikaferðalagi sem þau fóru um Vestfirði árið áður ásamt Ingimari Ingimarssyni, orgelleikara á Reykhólum.

„Sú ferð var ótrúlega skemmtileg og gefandi og Vestfirðingar tóku okkur opnum örmum. Okkur tókst líka oft að komast í náið samtal við tónleikagesti. Eftir tónleikana sköpuðust oft mjög skemmtilegar umræður um ljóðin og ljóðskáldin. Þannig að í lok kvölds þá vissi maður eitthvað meira um skáldin og samfélagið sem þeir fæddust í. Okkur fannst þetta náttúrlega stórkostlega gaman og ég held að þeir Vestfirðingar sem komu á tónleikana hafi verið þakklátir fyrir þetta framtak,“ segir Rakel Björk og Garðar tekur undir.

Ástarsaga úr leikhúsinu

Nú er komið að því að endurtaka leikinn á Norðurlandi og með norðlenskum skáldum og verða fyrstu tónleikarnir haldnir í Lystigarðinum á Akureyri á laugardaginn.

Hverju mega áhorfendur búast við?

„Við Garðar kynntumst í Borgarleikhúsinu þar sem Garðar var hljóðmaður og ég leikkona og tónleikarnir, umgjörðin og tónlistin er undir miklum áhrifum frá leikhúsinu. Við segjum sögur eins í leikhúsinu og ég tala á milli laga og segi frá skáldunum eða einhverju skemmtilegu sem við höfum grafið upp um ljóðin þannig að segja má að þetta sé leikrænn tónlistarflutningur.“

Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni?

„Hún er mjög fjölbreytt. Ljóðin stýra tónsmíðunum en við flökkum á milli rokks, popps, blús og djass. Við erum yfirleitt bara tvö á sviðinu en notum „lúppur“ sem við búum til jafnóðum þannig að úr verður undirspil sem hljómar eins og heil hljómsveit.“

Jón úr Vör erfiður

Rakel segir að þau hafi lagt sig eftir því að finna óþekkt skáld og flytja lög við ljóð þeirra enda hafi þau tekið eftir því að Vestfirðingar tóku því fagnandi þegar lítt þekkt skáld fengu upplyftingu.

„Núna ætlum við að leggja dálitla áherslu á kvenskáld; Huldu, Ólöfu frá Hlöðum og Önnu Ágústsdóttur en í bland auðvitað við þekktari skáld eins og Davíð Stefánsson og fleiri sem Norðlendingar þekkja vel.“

Hvað þarf ljóð eða kvæði að hafa til að bera til að teljast sönghæft?

„Við höfum grínast með að ljóðin þurfi að vera lagleg. Það er oft vandasamt að semja lög við ljóð, sér í lagi þau sem hafa ekki skýra hrynjandi. Við til dæmis lentum í því þegar við vorum að leita að ljóði eftir Jón úr Vör til að semja við að þá eyddum við heillöngum tíma í að finna rétta ljóðið því fæst þeirra voru „lagleg“ þrátt fyrir að vera mjög góð. Ljóð nútíma- og samtímaskálda geta verið snúin, enda oftast formfrjáls, en þetta gerir það að verkum að við lesum alveg heilan helling af ljóðum og förum í mikla rannsóknarvinnu áður en við byrjum að semja.“

Fyrsta tónleikaferðalagið

Garðar og Rakel eignuðust dótturina Glóey í janúar sem þýðir að hún er að fara í sína fyrstu tónleikaferð.

„Hún kemur með. Við byrjuðum á því að spyrja ömmurnar og afana hvenær þau færu í sumarfrí og skipuleggja svo tónleikaröðina eftir því. Gistum öll í Vaglaskógi í viku og keyrum til og frá tónleikum og svo verðum við í viku á Siglufirði og keyrum til og frá þaðan. Og hún í pössun hjá afa og ömmu á meðan.“

Miðasala er á tix.is og aðgangseyrir valfrjáls. Von er á plötunni ÞAU taka Norðurland í október.

Höf.: Höskuldur Ólafsson