Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Fyrir nokkrum árum komst Sýrlendingurinn Hassan Shahin klæðskeri að því að best væri fyrir sig að búa á Íslandi og flytja svo til Nýja-Sjálands. Hann lét fyrri hluta draumsins rætast og flutti til Íslands. Sex árum síðar er hann enn hér. „Takk fyrir okkur, Íslendingar,“ segir hann eftir að hafa boðið blaðamann velkominn í Saumastofu Hassans í litlu kjallararými á Hverfisgötu 43 í Reykjavík. „Ég vil hvergi annars staðar búa og starfa en á Íslandi.“
Hassan fór frá Sýrlandi til Íraks 2012 og var þar í fjögur ár. Þaðan lá leiðin til Tyrklands, Grikklands, Sviss og svo Þýskalands áður en hann kom til Íslands 2017. Hann fékk íslenska kennitölu í lok sama árs og byrjaði að vinna á saumastofu í Kringlunni í ársbyrjun 2018. Átta mánuðum síðar fékk hann vinnu í Ásgarðslaug í Garðabæ en var auk þess áfram í hlutastarfi á saumastofunni. Eftir um ár ákvað hann að opna saumastofu á Hverfisgötu, þar sem hann vann einn hálfan daginn en hélt áfram í 50% vinnu í sundlauginni. „Ég vann í sundlauginni frá klukkan sex til ellefu á morgnana, fór þá á saumastofuna og var þar til klukkan sex en á kvöldin lærði ég íslensku, fyrst hjá Rauða krossinum og svo í Mími. Er enn í náminu, núna í Tækniskólanum.“
Lærdómur og fyrirtæki
Með tvær hendur tómar byrjaði Hassan með eina saumavél. Amani, þá unnusta hans og nú eiginkona, kom til landsins og fór að vinna á saumastofunni. „Þetta var mjög erfitt til að byrja með en vinnan vatt upp á sig, skref fyrir skref, og eftir að ég fékk aðra, gamla vél jukust afköstin en þá kom kórónuveiran.“
Honum féllust hendur. „Tekjurnar hrundu og ég óttaðist að tapa fyrirtækinu en við gáfumst ekki upp. Þökk sé Íslendingum, sem gáfu mér aukinn kraft.“ Að sama skapi er hann ekki ánægður með samskiptin við hið opinbera. Allt sé svo þungt í vöfum og kerfið flókið, meðal annars við að fá atvinnuleyfi fyrir starfsfólk. „Það væri óskandi að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið aðstoðaði og veitti ráðgjöf við að stofna og reka svona fyrirtæki.“
Fyrirtækið hefur dafnað og Hassan hefur kynnt það á samfélagsmiðlum. Hann hefur m.a. útbúið myndband, lesið inn á það á íslensku og sett á heimasíðu saumastofunnar á Facebook. „Það eru komin yfir 200.000 innlit,“ segir hann hróðugur.
Hjónin eignuðust dóttur, Samar, 8. maí og Amani verður í barneignarfríi til hausts. Þangað til halda Hassan, Nataliia frá Úkraínu og Meliha frá Bosníu starfinu gangandi. „Það er nóg að gera og ég er farinn að líta eftir stærra húsnæði,“ segir Hassan. Hann segist helst vilja vera á Hverfisgötu en hafi ekki fundið neitt enn og því horfi hann til Ármúla. „Þar er líka auðveldara að fá bílastæði en ég sé fyrir mér að ég verði með fjölmennan vinnustað eftir þrjú ár.“ Hann hafi sótt um íslenskan ríkisborgararétt, sé búinn að taka próf í íslensku og bíði spenntur eftir því að fá íslenskt vegabréf. „Ég talaði bara arabísku, þegar ég kom til Íslands, en hef síðan lært íslensku og ensku, stofnað fyrirtæki og verð vonandi fljótlega Íslendingur.“