Gosstöðvaganga Fjöldi ferðamanna gekk að gosstöðvunum við Fagradalsfjall í gær. Lögregla segist ekki telja ástæðu til að loka svæðinu að svo stöddu.
Gosstöðvaganga Fjöldi ferðamanna gekk að gosstöðvunum við Fagradalsfjall í gær. Lögregla segist ekki telja ástæðu til að loka svæðinu að svo stöddu. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
Hefjist eldgos á Reykjanesskaga verður það líklega aðeins forleikur. „Það verður að hafa það í huga að þetta er hugsanlega upphafið að miklu stærri atburði sem gerist á nokkur hundruð ára fresti,“ segir Jóhann Helgason jarðfræðingur en…

Hörður Vilberg Ellen Geirsdóttir Håkansson

Snædís Björnsdóttir

Hefjist eldgos á Reykjanesskaga verður það líklega aðeins forleikur. „Það verður að hafa það í huga að þetta er hugsanlega upphafið að miklu stærri atburði sem gerist á nokkur hundruð ára fresti,“ segir Jóhann Helgason jarðfræðingur en erfitt er að segja til um á hversu löngum tíma það gæti gerst. Líkur á að eldgos brjótist út fara nú vaxandi og telur Jóhann að það geti skýrst í dag eða á næstu dögum hvort það verði raunin að kvika nái til yfirborðsins.

„Það er greinilega kvikugangur á leiðinni,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Er það í fjórða skiptið síðan umbrotin hófust árið 2019 sem það gerist en með því er átt við sprungu sem er full af glóandi kviku sem ryður sér leið í jarðskorpunni. Í tvígang hefur hún náð upp á yfirborðið og atburðarrásin endað með eldgosi. „Þetta getur farið á hvorn veginn sem er,“ segir Páll.

Frá miðnætti á miðvikudag höfðu um 2.800 skjálftar mælst á Reykjanesskaganum þar til á níunda tímanum í gærkvöldi.

„Við erum búin að fá einhverja tíu til tólf skjálfta yfir fjórum og sá stærsti var í morgun upp á 4,8. Flestir skjálftarnir voru eftir miðnætti í nótt,“ segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Flestir skjálftarnir eru á Fagradalsfjallssprungunni en þeir eru líka að koma aðeins austar, sunnan við Keili.“

Að sögn Minneyjar hefur kvikan verið að færast nær yfirborðinu og fór hún úr að meðaltali sex kílómetra dýpi í fyrrinótt í fjögurra kílómetra dýpi í gær.

Óvissustigi var lýst yfir í gær vegna jarðhræringanna og boðuðu Almannavarnir til fundar með viðbragðsaðilum. Þá var SMS-kerfi Almannavarna virkjað þar sem fólk á svæðinu er varað við grjóthruni og að eldgos geti hafist með litlum fyrirvara.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir að ekki verði boðað til nýs fundar nema það dragi til frekari tíðinda á svæðinu.

Höf.: Hörður Vilberg Ellen Geirsdóttir Håkansson