Nýi og gamli tíminn Brýrnar tvær yfir Núpsvötn liggja samhliða. Sú nýja talsvert styttri en sú gamla eins og sést.
Nýi og gamli tíminn Brýrnar tvær yfir Núpsvötn liggja samhliða. Sú nýja talsvert styttri en sú gamla eins og sést. — Ljósmynd/Vegagerðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einbreiðum brúm á Hringveginum hefur nú fækkað um tvær. Eru þær nú orðnar 29 talsins með tilkomu nýrra tvíbreiðra brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót í Skaftárhreppi. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Einbreiðum brúm á Hringveginum hefur nú fækkað um tvær. Eru þær nú orðnar 29 talsins með tilkomu nýrra tvíbreiðra brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót í Skaftárhreppi. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu brýrnar tvær formlega fimmtudaginn 29. júní sl. með því að klippa á borða á brúnni yfir Núpsvötn.

Umferðaröryggi eykst til muna með nýju, tvíbreiðu brúnum og þær stuðla að greiðari samgöngum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar. Áður var brúin yfir Núpsvötn sú brú þar sem flest slys hafa orðið við einbreiða brú á Hringvegi. Þar urðu 20 slys á árunum 2000 til 2022, þar af eitt banaslys árið 2018 þegar bíll steyptist yfir vegrið brúarinnar og þrír létu lífið.

Verkið: Hringvegur (1) um Hverfisfljót og Núpsvötn, var boðið út sumarið 2021. Samið var við ÞG-verk ehf. 6. ágúst 2021 og framkvæmdir hófust í september.

Nýja tvíbreiða brúin yfir Hverfisfljót er 74 metra löng og er staðsett um 20 metrum neðan við gömlu brúna sem reist var árið 1968 og var 60 metra löng. Brúin er stálbitabrú með steyptu gólfi í þremur höfum. Nýja tvíbreiða brúin yfir Núpsvötn er 138 metra löng og kemur í stað brúarinnar sem reist var árið 1973 og er 420 metra löng. Hún er eftirspennt steinsteypt brú með steyptu gólfi í fimm höfum.

Árið 1990 voru einbreiðar brýr á Hringveginum hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 í kringum 2006 og 42 árið 2011. Síðan hægðist verulega á slíkum framkvæmdum og aðeins voru breikkaðar eða byggðar nýjar brýr í stað sex einbreiðra brúa á átta árum. Árið 2021 voru brýrnar orðnar 32. Nú eru eftir 29 slíkar brýr á þjóðveginum. Áfram verður unnið að því að fækka þeim.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson