Friðland Í einni ljósmynda Jóhanns Óla úr Árbókinni er horft suður yfir Friðlandið í Flóa, með ótal smátjörnum.
Friðland Í einni ljósmynda Jóhanns Óla úr Árbókinni er horft suður yfir Friðlandið í Flóa, með ótal smátjörnum. — Ljósmyndir/Jóhann Óli Hilmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einhverjar vinsælustu og notadrýgstu handbækur sem gefnar eru út hér á landi eru Árbækur Ferðafélags Íslands. Og hafa þær nú fylgt þjóðinni í nokkrar kynslóðir og fyllt á margvíslegan hátt upp í mynd þeirra sem þær lesa og nota af landinu

Af bókum

Einar Falur

Ingólfsson 

Einhverjar vinsælustu og notadrýgstu handbækur sem gefnar eru út hér á landi eru Árbækur Ferðafélags Íslands. Og hafa þær nú fylgt þjóðinni í nokkrar kynslóðir og fyllt á margvíslegan hátt upp í mynd þeirra sem þær lesa og nota af landinu. Eru þær líka sívinsælir ferðafélagar og það skiljanlega, enda hlaðnar hverskyns fróðleik sem gaman og gefandi er að kynnast á þeim landsvæðum og stöðum sem fjallað er um. Fyrsta Árbókin kom á prent árið 1928 og sú 95. á dögunum og er í henni fjallað um Flóann, „Milli Ölfusár og Þjórsár“.

Á margvíslegum ferðalögum mínum um landið gegnum árin, hvort sem þau hafa verið tengd myndlistarverkefnum eða blaðamennsku, þá hafa Árbækur um þau svæði sem leiðin hefur legið til verið mikilvægar að lesa í á stöðunum, rétt eins og Íslendingasögur sem þar gerast og ýmsar ferðafrásagnir fólks sem hefur átt leið þar um fyrr á árum og öldum. En þá hef ég líka glögglega séð hvað Árbækurnar hafa gegnum tíðina tekið miklum og góðum breytingum, hafa orðið sífellt ítarlegri, líka skemmtilegri, og fræðilegri. Sýnist mér stefnan hafa verið tekin í þá átt fyrir um fjórum áratugum. Með vönduðum köflum um til að mynda náttúrufar og faglegum skrifum um sagnfræði og landafræði, þó við alþýðuskap sé, þá eru þetta í senn mikilvægar hand- og fræðibækur, hlaðnar aðgengilegum upplýsingum um landið og mannlífið sem á því hefur þróast.

Í fyrra var ég um skeið staðarlistamaður í Vatnasafni í Stykkishólmi og varð mér þá úti um þær Árbækur Ferðafélagsins sem gefnar hafa verið út um Snæfellsnes og komu út upp úr miðri síðustu öld. Þar sem ég vann að verkefnum á Nesinu tengdum veðri og ákveðnum staðháttum, þá olli það vissum vonbrigðum hvað þessar gömlu Árbækur voru að mörgu leyti rýrar í roðinu og yfirborðskenndar. Svo lét ég senda mér vestur þá sem kom út í fyrravor og það var eitthvað annað. Sú ber heitið Undir Jökli – Frá Búðum að Ennisfjalli og var með allt öðrum brag, með fjölbreytilegum upplýsingum, sögum af fólki í bland við af landi, og ríkulega myndskreytt. Sú kom mér að afar góðum notum og hef ég mikið leitað í hana mér til ánægju og upplýsingar.

Engin fjöll, engir skógar

Í nýjustu Árbókinni, Flóinn – Milli Ölfusár og Þjórsár, er fjallað um það sem kalla má flatlendið sunnan Suðurlandsvegar, sjö hreppa: Sandvíkur-, Eyrarbakka-, Stokkseyrar-, Gaulverjabæjar-, Hraungerðis- og Selfosshrepp. Þá er að vanda ítarlegur og upplýsandi kafli um náttúrufarið á svæðinu. Höfundarnir þrír eru miklir reynsluboltar, hver á sínu sviði, og allir að auki búsettir við sjávarsíðuna í Flóanum. Höfundar textans eru hjónin Inga Lára Baldvinsdóttir, sagnfræðingur og sérfræðingur í sögu ljósmyndunar, og Magnús Karel Hannesson, sem hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum. Þá er Jóhann Óli Hilmarsson, sem kunnur er fyrir stórfínar fugla- og náttúrumyndir sínar, höfundur gríðarmargra upplýsandi og fallegra ljósmynda sem setja fallegan svip á verkið.

Svo sannarlega er Flóinn mikið flatlendi og í inngangstexta um svæðið vitna Inga Lára og Magnús Karel í Ögmund Pálsson biskup sem upp úr 1500 þótti þar ekki ýkja fagurt: „Fáum mun þykja fagurt í Flóanum. Þar vantar flest er fegurst þykir. Þar eru engin fjöll, engir skógar, engir hálsar nje hnjúkar, engir fossar nje fríðar hlíðar, en móar eru þar og moldarbörð, fer og forarmýrar.“ Þessi lýsing biskupsins er kostuleg. Höfundarnir tína líka til seinni tíma einkunnir um svæðið, sem eru rismeiri, og lýsa því svona sjálf: „ … landið er jafnlent, landslagið fábreytt og fátt um augljós kennileiti. Fagur fjallahringur blasir þó við í fjarlægð en flatlendi sveitarinnar er látlaust og rólyndislegt.“ Þau bæta við að þrátt fyrir þessa einsleitni skorti ekki fjölda skráðra örnefna sem orðið hafa til í amstri þeirra sem þar bjuggu, fólks sem nýtti sér gæði landsins og gjöful fiskimið, og tókst á við náttúruöflin. Leitast sé við að gefa innsýn í líf þeirra sem byggðu Flóann og umhverfið sem fólk hefur búið þar við.

Stútfull af upplýsingum

Þessi Árbók um Flóann er stútfull af forvitnilegum sögulegum upplýsingum og fróðleik um náttúruna. Upplýsingarnar um þróun mannlífs á Eyrarbakka og Stokkseyri eru til að mynda mjög forvitnilegar og vel settar fram. Farið er austur eftir hreppunum og greint frá ýmsum merkisviðburðum, helstu bæjum og þróun mála. Þá er frásögnin afar vel fleyguð með allskyns rammaköflum þar sem til að mynda er sagt frá Flóaáveitunni, Kambsráninu, orgeli á Vestri-Loftsstöðum, tónlistarlífi í Flóanum, myndlistarmönnunum Ásgrími Jónssyni og Sigurjóni Ólafssyni, og kvennavíni, svo fátt eitt sé nefnt. Hægt er að lesa bókina spjaldanna á milli, eins og ég gerði og naut, eða einfaldlega grípa niður í hana hér og þar, fræðast um land sem farið er um eða lesa sögur frá fyrri tíð. Þá er kafli Jóhanns Óla um náttúrufarið mjög upplýsandi og prýddur fallegum myndum hans sjálfs. Einnig er mikilvægt að geta fjölmargra framúrskarandi landakorta sem dyggir lesendur Árbókanna þekkja vel og eru gerð af kortagerðarmanninum snjalla Guðmundi Ó. Ingvarssyni, sem um langt árabil stýrði kortadeildinni hér á Morgunblaðinu og settu verk hans mikinn svip á útgáfuna.

Árbækur Ferðafélags íslands eru félaginu til mikils sóma og hafa átt mikinn og merkilegan þátt í að fræða landsmenn á undanförnum áratugum um landið okkar, á aðgengilegan og vandaðan hátt.

Höf.: Einar Falur