Baksvið
Líney Sigurðardóttir
liney@mbl.is
Á Svalbarði í Þistilfirði er Fræðasetur um forystufé sem geymir mikinn fróðleik um íslenskt forystufé, fjárstofn sem talinn er einstakur stofn í heiminum.
Þar var nýlega opnuð listsýning Ólafs Sveinssonar, listamanns á Akureyri, og sýnir hann teikningar, pastel- og vatnslitamyndir auk skúlptúra. Hann vinnur þar með íslenska náttúru, kindur og ýmislegt í nágrenni Þórshafnar en hann bjó um tíma á Þórshöfn fyrir allmörgum árum.
Ólafur hefur haldið fjölmargar listsýningar á ferli sínum en þessi sýning stendur til ágústloka. Sýningarrýmið er vinsælt í litla galleríinu hjá Fræðasetrinu en þar eru bókaðar sýningar næstu fimmtán árin.
Belinda mætt á veröndina
Listakonan Anna Guðrún Torfadóttir heimsótti einnig Fræðasetrið og með henni í för var hænan hennar, Belinda, sem prýðir verönd Fræðasetursins í sumar. Belinda er reyndar járnstytta sem listakonan gerði í minningu hænu sem hún eitt sinn átti. Hænan sú lenti í ýmsum óhöppum sem að lokum urðu henni að aldurtila en járnstyttan heldur nafni hennar á lofti.
Í Fræðasetrinu fást ýmsir listmunir og handverk, m.a. ullarvörur úr ull af forystufé, sérblandað kaffi, kerti og fleira en allt er þetta vinsæl gjafavara, að sögn Daníels Hansen forstöðumanns.
Einstakt á heimsvísu
Hjá Fræðasetrinu er markvisst safnað saman fróðleik um íslenska forystuféð.
„Þetta er einstakur stofn sem finnst ekki annars staðar í heiminum, þess vegna ber okkur að varðveita hann og kynna, bæði innanlands og utan,“ sagði Daníel Hansen. Fullvíst er talið að fé með hegðunarmynstur íslenska forystufjárins sé hvergi þekkt í heiminum nú á dögum nema á Íslandi. Þessi eiginleiki er því afar fágætur. Daníel sagði enn fremur að íslenskir forystusauðir væru í raun dýrategund í útrýmingarhættu og nú er unnið að því að koma fjárstofninum á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrsta skrefinu í því ferli er lokið; að fá viðurkenningu á stofninum sem sérstakri tegund fjár en næsta skref er að skrá allar forystukindurnar í miðlægan gagnagrunn og stendur sú vinna yfir.
Forystufé býr yfir fágætum eiginleikum. Ullin er mýkri, það er ratvíst og sagt afar veðurglöggt. Væri forystufé tregt að fara úr húsi þá mátti búast við versta veðri. Fyrr á árum þegar fé var haldið úti til vetrarbeitar þá var þetta mikilvægur eiginleiki, fjármenn trúðu á þessa veðurnæmni forystusauðanna sem nær aldrei brást.
Það er vel þess virði að koma við í Fræðasetrinu, sjá þar föngulegt forystufé í fullri stærð á sviðinu, skoða listsýningar og fallegt handverk en punkturinn yfir i-ið er svo að fá sér brennheita Ærblöndu, sérblandaða kaffið sem boðið er upp á í litla kaffihúsinu í kjallaranum.