Ólöf Þórunn Hafliðadóttir var fædd 16. apríl 1932 í Miðbæ á Hvallátrum, Rauðasandshreppi. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 19. júní 2023.

Foreldrar Ólafar voru Hafliði Halldórsson, útvegsbóndi á Hvallátrum, og Sigríður Filippía Erlendsdóttir, húsmóðir. Ólöf var yngst þriggja systra sem nú eru allar látnar, en þær voru: 1) Anna, maki: Árni Helgason (látinn). Þau eignuðust níu börn. 2) Erla, maki: Kristján Jóhannesson (látinn). Þau eignuðust sjö börn.

Eftirlifandi eiginmaður Ólafar er Þórður Guðlaugsson vélstjóri, f. 10. júní 1933, þau gengu í hjónaband 6. september 1957. Foreldrar Þórðar voru Guðlaugur Guðmundsson, bóndi í Stóra Laugardal í Tálknafirði, og Hákonía Jóhanna Pálsdóttir, húsmóðir. Börn Ólafar og Þórðar eru: 1) Sigríður Hafdís, f. 29. október 1957, fyrrv. leikskólastjóri. Maki: Þorsteinn Jakob Þorsteinsson, sölumaður, f. 17. janúar 1953. Þeirra börn eru: Jón Steindór, Páll Arnar, Þórður og Ólöf Kristín. 2) Guðlaugur Hákon, skipstjóri, f. 31. október 1959. Maki: Bryndís Ingibjörg Björnsdóttir, f. 8. júlí 1956. Þeirra börn eru: Anna Birna, Harpa og Þórður. 3) Þórður, vélstjóri, f. 31. janúar 1962. Sambýliskona: Sigurveig Guðmundsdóttir, f. 3. júlí 1962. Synir Þórðar: Agnar, Guðlaugur Hákon, Arnór og Þorri. Dætur Sigurveigar af fyrra hjónabandi eru: Sigrún og Þórdís. 4) Hafliði, lögreglufulltrúi, f. 27. mars 1967. Maki: Guðríður Eldey Arnardóttir, skólameistari, f. 25. feb. 1970. Þeirra börn eru: Erla Dóra, Eyþór Örn og Ólöf Þórunn. Barnabarnabörn Ólafar og Þórðar eru 23.

Ólöf ólst upp á Hvallátrum til 15 ára aldurs. Hún var síðust á lífi þeirra sem tóku þátt í einu fræknasta björgunarafreki Íslandssögunnar þegar togarinn Dhoon frá Fleetwood í Englandi strandaði undir Látrabjargi 1947. Ólöf var ráðin í vist að Breiðuvík þegar hún var 15 ára til að sjá um heimilið í veikindum húsmóðurinnar. Síðar lá leiðin til Patreksfjarðar þar sem hún afgreiddi í mjólkurbúð. 16 ára réði Ólöf sig í vist til Reykjavíkur. Ólöf var staðráðin í að mennta sig og hóf nám í Námsflokkum Reykjavíkur árið 1949. Námið stundaði hún með vinnu til ársins 1953. Hún hóf störf á Grund árið 1950 og vann þar þangað til hún réði sig til vinnu á hjúkrunarheimili í Danmörku til að læra dönsku. Hugurinn stefndi alla tíð á hjúkrunarnám og lauk hún námi frá Hjúkrunarskólanum árið 1958. Ólöf starfaði allan sinn starfsaldur á Landspítalanum, utan fjögurra ára, en þá bjó fjölskyldan í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði. Lengst af var Ólöf deildarstjóri á öldrunardeild Landspítalans í Hátúni eða nánast frá stofnun hennar allt þar til deildin flutti á Landakot árið 1997. Ólöf tók virkan þátt í starfi Félags kristilegra heilbrigðisstétta og starfi Rauða krossins og vann að líknarstörfum samhliða starfi sínu sem hjúkrunarkona. Hún fór og las um árabil fyrir fólk með heilabilun á ýmsum stöðum. Ólöf vann á Landakoti til 69 ára aldurs en lauk starfsævi sinni í hlutastarfi á Hrafnistu í Hafnarfirði 71 árs.

Útför hennar fer fram frá Lindakirkju, í dag, 6. júlí 2023, klukkan 13.

Þegar við Hafliði byrjuðum að búa tók verðandi tengdamóðir mín mig á eintal og sagði mér að ég skyldi átta mig á því að hann væri ónýtur til allra heimilisverka. Þegar hún þannig afhenti mér mömmudrenginn skyldu ekki fylgja honum leyndir gallar. Honum fylgdi reyndar lífstíðarábyrgð því eitthvert sinn kvartaði ég við Ólöfu að það vantaði rómantíkina í Hafliða, hann gæfi mér aldrei blóm. Daginn eftir var hún þá mætt með blómvönd, og færði mér reglulega allar götur síðan.

Ólöf var afar ættrækin og hélt vel utan um fjölskylduna alla. Matarboðin voru mörg þar sem vel var veitt og á ættarmótum og fjölskyldusamkomum voru þau Doddi miðpunkturinn með fullar kistur matar. Eftir að þau hættu að vinna þá héldu þau opið hús alla laugardaga með veisluborði þar sem pönnukökurnar hans Dodda voru í öndvegi og var alltaf vel mætt úr stórfjölskyldunni. Þannig þekki ég í raun stórfjölskyldu Hafliða betur en mína eigin.

Símavaktin var tekin á hverju kvöldi. Þá var hringt út og spurt frétta. Ólöf vissi allt um alla í fjölskyldunni og lét sig velferð allra varða. Ef einhver átti í erfiðleikum kom hún færandi hendi til að gleðja eða hugga.

Heimili þeirra hjóna var alltaf opið ættingjum og vinum. Allir sem þurftu fengu þar athvarf í erfiðleikum eða veikindum.

Ólöf var skarpgreind og óvenju minnug. Hún kunni heilu ljóðabálkana utanbókar og hennar helsta áhugamál var bóklestur og þá helst sögulegar skáldsögur og ævisögur.

Hún kenndi mér að meta Gunnar Gunnarsson, Jón Trausta og fleiri höfunda af gamla skólanum og oftlega rétti hún mér bók þegar við vorum í heimsókn og beið svo spennt eftir að ég kláraði, svo við gætum farið sameiginlega yfir sögurnar.

Ólöf hafði líka leiftrandi kímnigáfu og var einstaklega hnyttin í tilsvörum. Hún átti það til að læða út úr sér óborganlegum athugasemdum um menn og málefni, það allra eftirminnilegasta er alls ekki prenthæft í minningargrein.

Það voru forréttindi okkar Hafliða að vera í miklum samvistum við þau Ólöfu og Dodda. Við fórum saman í frí innan- og utanlands af því okkur líkaði félagsskapurinn. Þau voru ekki bara mamma og pabbi, þau voru líka vinir okkar. Börnin nutu óspart góðs af því að þau bjuggu lengi vel í næstu götu og mættu iðulega með vinina til ömmu og afa eftir skóla og það var alltaf passað upp á að eiga til það sem börnunum líkaði best á hverjum tíma. Við Hafliði röltum svo í kvöldheimsóknir á „barinn“ í Funalindinni, þá var tekið innan úr einum öl eða tveimur, hlegið og spáð í heimsmálin.

Það var mikil gæfa í mínu lífi að fá í heimanmund með Hafliða elskulega tengdaforeldra mína. Hjónaband þeirra var einstakt, byggt á virðingu, ást og umhyggju. Það var okkur Hafliða dýrmæt fyrirmynd. Ólöf var mér sem önnur móðir og líka vinkona og ég sakna hennar sárt. Nú hafa mjúku hendurnar hennar strokið mér í síðasta sinn en ég hlakka til að hitta hana aftur þegar minn tími kemur og hlæja mig máttlausa þegar hún læðir út úr sér á sinn pena hátt einhverju óborganlegu gullkorninu.

Guð geymi þig elsku Ólöf mín.

Þín,

Guðríður.

Við Ingvar og Hafliði heimsóttum ömmu tveimur dögum áður en hún kvaddi. Síðustu vikur höfðu verið erfiðar fyrir ömmu en þarna fannst mér hún vera að hressast og líkari sjálfri sér. Hún spjallaði við litla Hafliða sinn sem henni þótti svo vænt um og kyssti hann í bak og fyrir. Ég var alveg viss um að hún myndi komast heim aftur og því var mikið áfall þegar henni hrakaði daginn eftir. Það var erfitt að skilja við ömmu á spítalanum, það var eins og ég væri að skilja hluta af sjálfri mér eftir.

Ég var svo heppin að hafa alist upp í næstu götu við ömmu og afa og var Funalindin því mitt annað heimili. Ég átti í raun aukapar af foreldrum og flakkaði á milli heimilanna tveggja eftir því sem hentaði. Vegna þess hve miklum tíma ég varði hjá ömmu og afa fékk ég að fylgjast með daglegu lífi þeirra og kynntist þeim á annan hátt en aðrir. Það sem ég minnist mest er hlýjan á heimilinu, hjálpsemin og umhyggjan. Við amma áttum svo margar góðar stundir saman, við kíktum í búðir, fórum á kaffihús, skoðuðum gamlar myndir, mátuðum gömul föt og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Samband okkar ömmu var einstakt. Við vorum bestu vinkonur og sáum ekki sólina hvor fyrir annarri.

Ég leit alltaf mikið upp til ömmu og það var mér mikilvægt að ég yrði nafninu okkar til sóma, ég mun því reyna mitt allra besta að standa undir nafni og nýta mér allt það sem hún hefur kennt mér.

Þegar það kom í ljós í fyrra að ég ætti von á barni kom það ömmu ekki mikið á óvart enda hafði lítill drengur komið til hennar í draumi sem strauk henni um vangann og sagðist heita Hafliði. Svo fæddist litli Hafliði í vor og ég veit að amma mun vaka yfir honum þar til hún hittir hann aftur.

Amma skilur eftir sig djúp spor í hjörtum okkar en minning hennar mun lifa um ókomna tíð.

Hvíl í friði elsku amma mín og guð geymi þig.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili).

Ólöf Þórunn
Hafliðadóttir.

„Amma fljúga upp!“

Þegar Dodda bróður var sagt frá því að amma væri dáin, hringdi hann beint í mig og tilkynnti mér að amma hefði flogið upp. Það er spurning hvort hann átti sig á endanleikanum en hann veit að núna líður ömmu vel, eftir langa og góða ævi.

Maður er samt aldrei tilbúin til að kveðja þá sem manni þykir vænt um. Þetta er eitthvað svo skrýtið, amma var alltaf til staðar og þó svo að vitað væri að einn daginn kæmi að kveðjustund, þá er það eitthvað svo óraunverulegt. Það var alltaf gott að spjalla við ömmu, fá ömmuknús og segja frá því sem maður var að gera í lífinu. Hún fylgdist vel með barnabörnum og barnabarnabörnum á Facebook og hringdi stundum til að spjalla um það sem hún sá að við vorum að gera. „Ég sá það á Facebook, heldur þú að ég fylgist ekki með?“ sagði hún stundum og hló.

Við amma áttum sama afmælisdag, þann 16. apríl. Mér þótti það alltaf mjög merkilegt. Það var hluti af afmælisdeginum að heyra í ömmu, óska henni til hamingju með daginn og spjalla aðeins. Það er ekki sjálfgefið að fá að eiga ömmu sína svona lengi og er ég óendanlega þakklát fyrir það.

Hér að hinstu leiðarlokum

ljúf og fögur minning skín.

Elskulega amma góða

um hin mörgu gæði þín.

Allt frá fyrstu æskudögum

áttum skjól í faðmi þér.

Hjörtun ungu ástúð vafðir

okkur gjöf sú dýrmæt er.

Hvar sem okkar leiðir liggja

lýsa göfug áhrif þín.

Eins og geisli á okkar brautum

amma góð, þótt hverfir sýn.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Anna Birna
Guðlaugsdóttir.