Árásargirni Skúmaparið hékk yfir starfsfólki á meðan varpárangur þeirra var kannaður í Ingólfshöfða.
Árásargirni Skúmaparið hékk yfir starfsfólki á meðan varpárangur þeirra var kannaður í Ingólfshöfða. — Ljósmynd/Anna Björg Sigfúsdóttir
„Ég hef aldrei lent í þessu áður,“ sagði Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sem hefur fylgst með skúmum í mörg ár. Skúmur sem er af ættbálki strandfugla er einkennisfugl hinna miklu sanda sunnan- og suðaustanlands

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

„Ég hef aldrei lent í þessu áður,“ sagði Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sem hefur fylgst með skúmum í mörg ár.

Skúmur sem er af ættbálki strandfugla er einkennisfugl hinna miklu sanda sunnan- og suðaustanlands. Náttúrustofa Suðausturlands hefur um áraraðir fylgst með stofninum og fylgist nú meðal annars með varpárangri hans í Ingólfshöfða, við ströndina suður af Öræfajökli.

Í vikunni var Lilja stödd í Ingólfshöfða að skoða varpárangurinn þegar skúmur sótti á hana og settist á bakpoka hennar líkt og sjá má á myndinni. „Skúmurinn er í eðli sínu ansi kræfur fugl þegar maður fer inn á svæðið hans, en ég hef aldrei lent í þessu,“ sagði Lilja.

„Myndin gabbar aðeins, hann sat á mér í svona hálfa mínútu,“ sagði Lilja, því þó skúmurinn líti vinalega út á myndinni þá er hann árásargjarn við hreiður sitt og hikar ekki við að ráðast á fólk.

Stofninn algjörlega hrunið

Staða skúmsins á Íslandi er slæm, en Lilja segir hann hafa komið illa undan fuglaflensunni sem hrjáði fugla í fyrra og að gífurleg fækkun sé í stofninum. Náttúrustofa Suðausturlands hefur til að mynda fylgst með stofnþróun fuglsins á Breiðamerkursandi undanfarin ár. Frumniðurstöður talninga í ár segja að einungis séu ríflega 100 skúmar eftir á sandinum, en stofnunin metur að árið 2018 hafi þeir verið um 500-600.

Þessa stundina er staða skúmsins því mjög slæm. Fyrir því geta verið nokkrar samverkandi ástæður og segir Lilja breytt fæðuskilyrði mögulega ástæðu. Þá hafði fuglaflensan, sem fyrr segir, mikil áhrif á stofninn en Lilja fann til að mynda 40 dauða skúma á Breiðamerkursandi í fyrra, sem líklega höfðu drepist úr fuglaflensu. Lilja telur fuglaflensuna einnig hafa haft mikil áhrif á varp fuglsins í fyrra, sem gekk mjög illa.

Vöktun náttúruverndarsvæða

Spurð hvað væri til ráða sagði Lilja mikilvægt að gæta að búsvæðum fuglsins, þar sem þeir eru í varpi, gæta þess að þeir verði ekki fyrir truflun og lágmarka þannig áhrif mannsins.

Vöktunin er hluti af samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og annarra náttúrustofa á landinu, sem heitir Vöktun náttúruverndarsvæða. Verkefnið felur í sér vöktun og kortlagningu náttúrulegs fjölbreytileika innan verndarsvæða, með það að markmiði að meta breytingar til langs tíma, svo sem vegna loftslagsbreytinga. Auk þess að rannsaka og greina áhrif ferðamanna á náttúruverndarsvæðum á gróður, vistgerðir, jarðminjar og dýralíf.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir