1956 Nýútskrifuð úr Hjúkrunarskólanum og byrjuð að starfa í Eyjum.
1956 Nýútskrifuð úr Hjúkrunarskólanum og byrjuð að starfa í Eyjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þuríður Selma Guðjónsdóttir fæddist 6. júlí 1933 í Háagarði í Vestmannaeyjum, á heimili foreldra sinna. Á þeim tíma áttu konur iðulega börnin heima en fengu aðstoð frá ljósmóður eða ættingjum

Þuríður Selma Guðjónsdóttir fæddist 6. júlí 1933 í Háagarði í Vestmannaeyjum, á heimili foreldra sinna. Á þeim tíma áttu konur iðulega börnin heima en fengu aðstoð frá ljósmóður eða ættingjum. Árið 1939 þegar Selma var sex ára gömul, flutti fjölskyldan í Gvendarhús sem hún er nú kennd við. Selma minnist þess að þegar faðir hennar var að fara að ganga frá kaupunum á bænum Gvendarhúsi, fékk hún að fara með á hjóli sem henni fannst mjög spennandi.

Guðjón faðir Selmu var á sjónum meðfram búskapnum. „Við krakkarnir tókum þátt í störfunum eins og tíðkaðist og hjálpuðum til við heyskapinn,“ segir hún en segir að í minningunni finnist henni að þau systkinin hafi mest verið að leika sér úti í náttúrunni. Það var enginn skortur á ævintýrum í Eyjum og börnin léku sér í mikið í Fiskiklettunum, þar sem nú er flugvöllurinn í Vestmannaeyjum. „Við fengum líka að fara með fullorðna fólkinu með kindurnar út í úteyjar sem var mikið ævintýri,“ segir Selma.

Gvendarhús er hluti af Ofanbyggjarabæjunum í Eyjum og Selma segir að samheldni og hjálpsemi hafi verið mikil á milli bæjanna. Í þessu nána og góða samfélagi kynntist hún fyrstu hjúkrunarkonunni sem hún hafði séð, Sólveigu á Steinsstöðum. Selma passaði seinna oft börn á Steinsstöðum og minnist þess að mikið hafi verið talað um lækningar og hjúkrun á heimilinu og gæti það hafa haft áhrif á hvaða stefnu hún kaus í sínu lífi en það var ekki algengt að stúlkur færu til framhaldsnáms. Eftir landspróf 1951 ákvað hún að fara í Hjúkrunarskóla Íslands.

Í náminu bjó Selma í Reykjavík, í heimavist Hjúkrunarskólans á þriðju hæð og risi aðalbyggingar Landspítalans. „Það var mikill agi og allar þurftum við að búa á vistinni, líka þær sem voru úr Reykjavík.“ Stúlkurnar þurftu að vera komnar inn fyrir kl. 11 á kvöldin alla daga nema einn þegar útivistartíminn var lengdur til klukkan eitt. Á námsárunum kynntist Selma mörgum stúlkum sem urðu ævilangar vinkonur hennar.

Eftir útskrift 1956 vann Selma í tvö ár á Sjúkrahúsinu í Eyjum en fór þá til Bretlands og vann á Beckenham spítalanum í Kent. Árið 1959 tók Selma við stöðu yfirhjúkrunarfræðings á Sjúkrahúsinu í Eyjum og starfaði þar alla tíð, fyrir utan námsleyfi í Bretlandi og störf á Landspítalanum 1973-’74 í kjölfar eldgossins í Heimaey. Þegar eldgosið hófst þurfti að flytja alla sjúklinga sjúkrahússins með flugi í land og koma þeim fyrir á Landspítala eða Borgarspítalanum. Þá var búið að byggja nýja spítalann og hún segir að blessunarlega hafi þetta gengið mjög vel en þetta sé nótt sem aldrei gleymist.

Selma giftist Engilbert eiginmanni sínum í janúar 1962. „Ég var svo heppin að mamma bjó í húsinu sem gerði mér kleift að vinna úti en þegar eldri sonur minn fæddist voru engin barnaheimili.“

Frá árinu 1974 gegndi Selma stöðu hjúkrunarforstjóra Sjúkrahússins í Eyjum og hefur því starfað við hjúkrun í hartnær hálfa öld. Hún segir margt hafa breyst í sínu fagi á þessum tíma og að betri aðstaða á nýja spítalanum hafi verið eins og bylting, enda húsið sérstaklega hannað til þess og aðstaðan öll miklu betri. Selma segir að ákvörðunin um að læra hjúkrun hafi verið gæfurík og hún hafi verið einstaklega lánsöm með fólkið í kringum sig á sínum ferli. „Starfið er mjög gefandi þótt það geti verið erfitt líka. Í starfinu er verið að sinna sjúklingum og það skiptir miklu máli að fylgjast vel með í faginu. Á sama tíma eru þessi mannlegu samskipti svo mikilvæg og viðmótið þarf að vera gott. En ég hef alltaf gengið glöð til verka og er þakklát fyrir þá gæfu.“

Selma býr enn í Eyjum. „Ég hætti að vinna fyrir nærri 20 árum, árið 2003. Maðurinn minn lést fyrir tíu árum en við náðum þarna tíu árum saman eftir starfslokin og þá keyptum við sumarhús uppi í Bjarkarborg og vorum þar mikið á sumrin. Ég hef alveg getað bjargað mér fram að þessu og hef verið virk í félagi eldri borgara fram að þessu og stundaði bæði leikfimi og vatnsleikfimi og svo hef ég farið í handavinnu.“ Hún segist þó aðeins finna fyrir aldrinum núna þó ekki sé það að heyra né sjá á henni. „Innilokunin í covid-faraldrinum var erfið og ég hef alveg fundið fyrir því.“ Hún lætur það þó ekki stoppa sig í að ferðast til Noregs í tilefni afmælisdagsins og vera með allri fjölskyldunni.

Fjölskylda

Eiginmaður Selmu var Engilbert Halldórsson, netagerðarmeistari, f. 16.5. 1930, d. 16.1. 2013. Foreldrar Engilberts voru Halldór Magnússon frá Grundarbrekku, f. 15.4. 1904, d. 16.1. 1978, og Jónína Ingibjörg Gísladóttir, f. 2.5. 1905, d. 24.11. 1970.

Synir Selmu og Engilberts eru 1) Guðjón Grétar Engilbertsson, framkvæmdastjóri GEVerk á Selfossi, f. 1.8. 1963, kvæntur Berglindi Bergsveinsdóttur, f. 1965. Þau eiga börnin Hlyn Snæ; Birki Rafn og Selmu Þöll. 2) Halldór Örn Engilbertsson, viðskipta- og markaðsfræðingur og háskólakennari í Ósló, f. 10.9. 1975, kvæntur Monette Indahl, f. 1975. Þau eiga börnin Auroru Marí, Selmu Marlen, Magneu Isabell og Dorotheu Anabell. Barnabarnabörnin eru orðin fimm.

Systkini Selmu eru 1) Theodór, skólastjóri, f. 5.4 1931; 2) Guðrún Kristín, húsfreyja og skrifstofumaður, f. 21.6. 1946 og 3) Hallfríður Erla, skólastjóri, f. 24.5. 1952.

Foreldrar Selmu voru Guðjón Guðlaugsson, sjómaður, vélstjóri, smiður og bóndi, f. 3.9. 1901 í Mundakoti á Eyrarbakka, d. 18.1. 1958, og síðari kona hans, Margrét Hróbjartsdóttir, húsfreyja, f. 15.9. 1910 á Kúfhóli í A-Landeyjum, d. 30.9. 2002.