Þórey Ósk Ingvarsdóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl 1929. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði 24. júní 2023.

Foreldrar Þóreyjar voru Ingvar Magnússon, f. 15. maí 1898, d. 7. maí 1995, og Halldóra Jónsdóttir, f. 18. september 1901, d. 23. mars 1977. Bræður Þóreyjar voru Lárus Óskar Ingvarsson, f. 25. júní 1925, d. 15. maí 1954, og Haraldur Ingi Ingvarsson, f. 17. desember 1930, d. 13. apríl 1995.

Þórey giftist þann 13. október 1956 Ásgeiri Péturssyni flugstjóra, f. 2. ágúst 1930, d. 15. nóvember 1978. Börn þeirra eru: 1) Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, f. 1958, maki Ásgeir Þorvaldsson, börn þeirra eru Gunnar Ásgeir og Birkir Eyþór. Gunnar Ásgeir er í sambúð með Guðfinnu Jakobsdóttir Hjarðar og eiga þau Þóreyju Bríeti og Jakob Darra. Birkir Eyþór er giftur Guðlaugu Maríu Sveinbjörnsdóttur. 2) Pétur Ásgeirsson, f. 1960, maki Hendrikka Jónína Alfreðsdóttir, börn þeirra eru Ásgeir, Alfreð Ingvar, Pétur Óli og Linda Þórey. Ásgeir er giftur Báru Sigurjónsdóttur og eiga þau Þóru Björt og Jökul. Alfreð á Elísu Eyju. Linda Þórey á Aron Úlf. 3) Gunnar Ásgeirsson, f. 1964, maki Magnús Loftsson.

Þórey ólst upp í Reykjavík, fyrst á Urðarstíg og síðar í Mávahlíð. Hún lauk námi í Hjúkrunarskóla Íslands 1952 og lærði síðan gjörgæslu- og svæfingarhjúkrun í Noregi. Þar kynntist hún Ásgeiri Péturssyni sem þar var við flugnám. Bjuggu þau hjónin heimili sitt í Reykjavík og síðar í Garðabæ. Ásgeir lést í flugslysi á Sri Lanka í Indónesíu, aðeins 48 ára gamall. Þórey vann sem hjúkrunarfræðingur á öldrunardeild í Hátúni allt frá því börnin voru að vaxa úr grasi þar til hún varð sjötug. Þórey var félagslynd kona og var meðal annars heiðursfélagi sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð og einlægur þátttakandi í starfi Sambands íslenskra kristniboðsfélaga um áratuga skeið.

Síðustu árin bjó Þórey á Hrafnistu þar sem hún undi hag sínum vel og var þakklát og ánægð með góða aðhlynningu.

Útför Þóreyjar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 6. júlí 2023, klukkan 15.

Mig langar að minnast mömmu minnar með nokkrum orðum. Hún hefur kvatt þessa jarðvist bæði sátt og þakklát fyrir langt og farsælt líf.

Mamma var mér fyrirmynd í mörgu. Hún vissi alltaf hvað hún vildi og vissi fyrir hvað hún stóð. Hún var líka alltaf þakklát fyrir það sem hún fékk. Þessa lífssýn og þetta einlæga hugarfar hef ég reynt að tileinka mér. En mamma var líka minn klettur sem hafði skoðanir og veitti skýra leiðsögn. Ég man að á unglingsárunum sagði hún stundum að hún væri ekki sammála einhverju sem ég tók mér fyrir hendur, en lauk svo alltaf setningunni með því að segja að hún elskaði mig alltaf. Þannig birtist ást hennar og umhyggja fyrir okkur börnum hennar, umhyggja sem var ekki stjórnsöm heldur gaf hún okkur rými til að ganga okkar leið fullvissandi okkur um að hún væri alltaf til staðar fyrir okkur. Hún vildi að allir fengju að njóta sín á eigin forsendum.

Í æsku man ég eftir útilegum í Vatnaskógi og ferðalögum víðs vegar um landið og erlendis. Þar voru foreldrar mínir fyrirmynd bæði í orði og verki. Þau voru traustir uppalendur og því var erfitt þegar pabbi dó er ég var 13 ára. Eftir það sá mamma um allt og hélt utan um okkur systkinin, hvert á sinn hátt. Hún sýndi í verki hvernig betra er að horfa fram á veginn fremur en staldra stöðugt við það sem ekki er hægt að breyta. Hún kenndi mér viðhorfið að vera friðarins megin í lífinu. Ég hef haft það að mínu leiðarljósi.

Mamma var virk í kristilegu félagsstarfi og átti þar góða vini alla tíð. Þar voru foreldrar mínir samstiga. Þessu félagsstarfi sinnti hún af trúmennsku og gilti þá einu hvort um var að ræða starf í kristilegu félagi heilbrigðisstétta, kristniboðsstarfi eða sumarstarfinu í Vindáshlíð.

Elsku mamma, nú er samfylgd okkar hér á jörðu á enda og ég kveð þig þakklátur fyrir ríkulegar og hlýjar minningar um umhyggju og ást.

Ó, dropi, hlustaðu nú.

Gefðu sjálfan þig upp á bátinn og fáðu í staðinn

Hafið allt.

Veittu þér þennan heiður.

Hugsaðu þér, hver getur verið

svona lánsamur?

Heilt Haf að falast eftir dropa!

Í Guðs nafni, eigðu þessi viðskipti

undir eins!

Gefðu þennan dropa og fáðu í staðinn

Haf

sem er fullt af perlum.

(Rumi (1207-1273))

Þinn sonur,

Gunnar.

Þegar maður sest niður til að skrifa um mömmu koma margar minningar upp í hugann. Fyrst og fremst hvað hún var traust og sterk í lífsins ólgusjó. Hún lærði hjúkrun og vann við hjúkrun af og til meðan við vorum börn, en tók fastar vaktir á öldrunardeildinni í Hátúni og var vann þar fram að starfslokum.

Mamma var þessi trausta kona. Hún var vinmörg og var alla tíð í KFUK og Kristniboðssambandinu og sótti þar fundi og samfélag. Hún var einnig í kristilegu félagi hjúkrunarkvenna. Hún var líka einlæg bænakona og erum við systkinin lánsöm að hafa átt móður sem bar okkur á bænarörmum.

Minningarnar eru margar og þau pabbi góðir foreldrar sem við erum þakklát fyrir. Þegar mamma hætti að vinna var svo gott að hún bjó í næsta húsi við okkur og drengjunum mínum þótti gott að geta hlaupið yfir götuna og farið til ömmu. Mamma var amma með stóru A. Hún prjónaði á barnabörnin peysur og eitt sinn mætti ég konu sem sagði: „Maður þekkir strákana þína á peysunum.“ Þegar við systkinin vorum lítil á leið heim úr skólanum var það mamma sem tók á móti okkur með bros á vör og við klædd í peysur prjónaðar af henni. Mamma var reynslumikil kona sem ræddi málin við Drottin sinn og frelsara. Hún sagði eitt sinn sem oftar: „Ég veit ekki hvernig ég hefði komist í gegnum lífið ef ég hefði ekki átt Jesú og bænina.“ Pabbi féll frá aðeins 48 ára gamall og það var mikil og erfið lífsreynsla. En mamma stóð eins og klettur í gegnum þetta allt. Ég er þakklát fyrir mömmu og allt sem hún var okkur. Ég er líka þakklát fyrir að hún bar okkur á bænarörmum sem er dýrmætt. Ég veit að himinninn hefur verið opinn þegar mamma fór í hinstu ferðina og henni boðið til himneskrar veislu. Og nú eru þau sameinuð, pabbi og mamma, í dýrðinni hjá Jesú.

Að leiðarlokum er hjartað fullt af þakklæti fyrir þessi ár sem við áttum saman. Mamma var glaðsinna og hláturmild og ég man svo vel eftir þessum fallega og smitandi hlátri. Þegar við bjuggum í sama húsi voru þeir ófáir kaffisoparnir sem við drukkum saman og ræddum málin. Gæðastundir sem gleymast ekki. Oft kom hún og borðaði með okkur kvöldmatinn. Amma Þórey var bara svo mikill hluti af okkur fjölskyldunni og þegar heilsunni hrakaði og aldurinn færðist yfir fékk hún pláss á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar leið henni vel og vel var um hana hugsað. Hún talaði fallega um starfsfólkið við okkur og var alltaf svo þakklát. Mamma var ætíð ljúf og góð sem gerði allt miklu betra.

Um leið og ég kveð mömmu í hinsta sinn er gott að vita að hún er falin Drottni og að hún á nú himneskan bústað þar sem allt er orðið nýtt. Mamma kenndi mér vísu sem ég fór oft með og ég hugsa oft til:

Elskulega mamma mín

mjúk er alltaf höndin þín.

Tárin þorna sérhvert sinn

sem þú strýkur vanga minn.

Þegar stór ég orðin er

allt það skal ég launa þér.

(Sigurður Júlíus Jóhannesson)

Að leiðarlokum þakka ég Guði fyrir að hafa átt þig öll þessi ár.

Halldóra Lára
Ásgeirsdóttir.