Dagmál Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í viðtali í Dagmálum.
Dagmál Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í viðtali í Dagmálum. — Morgunblaðiðið/María
Dómsmálaráðherra hyggst innleiða notkun rafvarnarvopna hjá lögreglu, en vill gera það af gætni. Í því skyni verður stofnaður sérstakur innleiðingarhópur, grunnþjálfun veitt öllum lögregluþjónum, en jafnframt munu þeir bera sjálfvirkar búkmyndavélar svo ekkert fari milli mála um notkun þeirra

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Dómsmálaráðherra hyggst innleiða notkun rafvarnarvopna hjá lögreglu, en vill gera það af gætni. Í því skyni verður stofnaður sérstakur innleiðingarhópur, grunnþjálfun veitt öllum lögregluþjónum, en jafnframt munu þeir bera sjálfvirkar búkmyndavélar svo ekkert fari milli mála um notkun þeirra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra í Dagmálum í dag, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þar er einnig rætt um stöðu ríkisstjórnarinnar og samstarf milli stjórnarflokkanna, önnur löggæslumál og útlendingamál, sem auðheyrt er að ráðherra telur stærsta viðfangsefnið á næstunni.

Guðrún minnir á að lögregla hafi nú þegar ýmis vopn til reiðu sem geti verið mjög hættuleg, svo með rafvarnarvopnum sé verið að færa lögreglu kost á mun vægara inngripi. „Við treystum lögreglunni og þurfum að treysta henni til þess að beita slíkum vopnum.“

Hún minnir á að lögregluþjónar séu þrautþjálfaðir, einmitt til þess að meta erfiðar aðstæður og rétt viðrbrögð við þeim, til þess sé lögreglu treyst nú þegar.

Innleiðingarhópurinn verður skipaður þremur fulltrúum, einn frá ríkislögreglustjóra, annar frá félagi lögregluþjóna og sá þriðji skipaður án tilnefningar af ráðherra. Hópurinn mun fara yfir og rýna öll tilvik þar sem rafvarnarvopnum er beitt og skila skýrslu um innleiðinguna og reynsluna eftir átján mánuði. Þá verði tekin ákvörðun um framhaldið.

Höf.: Andrés Magnússon