Vesturbugtin Óbyggðar lóðir á besta stað við Gömlu höfnina með útsýni að Esjunni. Nýttar sem bílastæði í dag. Íbúðirnar verða án efa mjög eftirsóttar.
Vesturbugtin Óbyggðar lóðir á besta stað við Gömlu höfnina með útsýni að Esjunni. Nýttar sem bílastæði í dag. Íbúðirnar verða án efa mjög eftirsóttar. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nú er ljóst að enn verður töf á því að uppbygging íbúðahverfis í Vesturbugt við Gömlu höfnina í Reykjavík hefjist. Reykjavíkurborg tilkynnti fyrir helgina að samningi frá 2017 við Vesturbugt ehf. um uppbyggingu á svæðinu hefði verið rift vegna vanefnda lóðarhafans. Áformað er að bjóða lóðirnar út að nýju í haust.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú er ljóst að enn verður töf á því að uppbygging íbúðahverfis í Vesturbugt við Gömlu höfnina í Reykjavík hefjist. Reykjavíkurborg tilkynnti fyrir helgina að samningi frá 2017 við Vesturbugt ehf. um uppbyggingu á svæðinu hefði verið rift vegna vanefnda lóðarhafans. Áformað er að bjóða lóðirnar út að nýju í haust.

Lóðirnar sem um ræðir eru á besta stað við Gömlu höfnina í Reykjavík, milli Sjóminjasafnsins við Grandagarð og Slippsins. Þarna átti að byggja fjölda íbúða, 2-4 herbergja. Deiliskipulag fyrir svæðið var fyrst samþykkt árið 2013 eða fyrir nákvæmlega tíu árum.

Samningurinn um uppbyggingu á tveimur lóðum í Vesturbugt var undirritaður eftir forval og keppnisviðræður og á grundvelli tilboðs félagsins árið 2017. Í samningnum fólst fyrst og fremst að Reykjavíkurborg seldi félaginu byggingarrétt á lóðunum Hlésgötu 1 og Hlésgötu 2, þar sem heimilað var, í samræmi við deiliskipulag, að byggja allt að 18.400 fermetra húsnæði ofanjarðar auk bílakjallara og geymslna. Miðað var við að íbúðir yrðu allt að 176 og atvinnuhúsnæði um 1.665 fermetrar.

Vesturbugt ehf. bauð í tilboði sínu að greiða fyrir lóðirnar og byggingarréttinn með því að afhenda Reykjavíkurborg kvaðalaust um 74 íbúðir í húsunum og 170 bílastæði í bílakjallara.

Tvö tilboð bárust í lóðirnar

Sem fyrr segir var deiliskipulag fyrir Vesturbugt fyrst samþykkt árið 2013. Þar var gert ráð fyrir allt að 195 íbúðum á reitnum. Nýtt deiliskipulag fyrir reitinn var samþykkt árið 2015 og þá var búið að fækka íbúðum. Árið 2016 var auglýst útboð á lóðunum.

Útboðið var framkvæmt í þrepum með viðræðum við tilboðsgjafa í ferlinu. Tilboðsgjafar lögðu í lok ferlisins fram ítarlegar tillögur að fyrirkomulagi og útliti húsa á lóðunum.

Tvö lokatilboð bárust. Viðræðunefnd Reykjavíkurborgar lagði mat á hönnunartillögur bjóðenda. Tilboð VSÓ ráðgjafar ehf., f.h. óstofnaðs félags um kaup á byggingarrétti, var talið mun hagstæðara en hitt tilboðið (frá Jáverki ehf.) og einnig fékk hönnunartillaga þeirra fleiri stig. Gengið var því til samninga við Vesturbugt ehf., félag sem tilboðsgjafinn stofnaði. Samningurinn var undirritaður 18. apríl 2017.

Af því tilefni sagði framkvæmdastjóri Vesturbugtar ehf. í samtali við Morgunblaðið að stefnt væri að því að hefja jarðvinnu fyrir árslok 2017.

Þróunarfélagið Kaldalón tók síðan yfir Vesturbugtarverkefnið. Á heimasíðu Kaldalóns kom fram að félagið ætti 59,5% í Vesturbugt ehf. Verkið var sumarið 2021 sagt á „aðalhönnunarstigi“ og framkvæmdastjóri Kaldalóns reiknaði með því að framkvæmdir gætu hafist í árslok 2021. Raunhæft væri að fyrstu íbúðirnar kæmu á markað um mitt ár 2023. Samkvæmt því kynni verkefninu að ljúka í árslok 2024.

Þetta stóðst ekki og nú hefur Reykjavíkurbiorg rift samnibngnum frá 2017. Fram kemur á heimasíðu borgarinnar að félagið hafi ekki hafið framkvæmdir og allir umsamdir frestir Vesturbugtar ehf. til að byggja á lóðunum séu liðnir.

„Vegna þessara vanefnda hefur Reykjavíkurborg því rift samningnum við Vesturbugt ehf. um uppbyggingu á lóðunum og afturkallað úthlutun til félagsins á lóðinni Hlésgötu 1,“ segir í fréttinni. Nú sé í undirbúningi lítils háttar endurskoðun á gildandi deiliskipulagi fyrir Vesturbugt. Reykjavíkurborg áformar að lóðirnar verði boðnar út að nýju í haust.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson